Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 09:48:42 (7408)

1998-06-04 09:48:42# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[09:48]

Frsm. meiri hluta (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afar óheppilegt ef ætti að fresta þessu máli. Olíugjaldið var fyrst samþykkt á síðasta kjörtímabili fyrir þinginu 1994--1995 og síðan er búið að fresta þessu aftur. Það er mjög viðurhlutamikið að taka upp svona gjald, m.a. vegna þess að það kallar á miklar fjárfestingar og ekki er hægt að láta þetta dankast svona áfram, það verður að taka um þetta ákvörðun af eða á núna. Nefndin fjallaði lengi og mjög ítarlega um málið og í störfum nefndarinnar komu fram ágætis sjónarmið frá stjórnarandstöðuþingmönnum sem og stjórnarmönnum og niðurstaða meiri hlutans varð að afgreiða málið svona þannig að ekki væri endalaust verið að velta því á undan sér.

Hugmyndin um olíugjaldið sem yrði þá almennt á alla olíunotkun er ekkert fráleit. Málið er hins vegar þannig vaxið að erfitt er að leggja skatt á olíu til fiskiskipa vegna þess að þau geta keypt þessa olíu miklu víðar en á Íslandi. Þannig geta olíuviðskipti átt sér stað á hafi úti á vegum allt annarra aðila en íslensku olíufélaganna. Skip kaupa líka gjarnan olíu í erlendum höfnum þegar þau eru þar og þess vegna er þetta ekki eins einfalt mál og það gæti virst við fyrstu sýn.