Gjöld af bifreiðum

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 10:33:11 (7420)

1998-06-04 10:33:11# 122. lþ. 144.21 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[10:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. með frekari ræðum af minni hálfu um þetta mál. En það kom fram í máli hans að hann gerir sér grein fyrir því að á næstunni munu kröfur á þessu sviði verða harðari. Það gerir greinin líka ráð fyrir. Því hefði auðvitað verið heppilegast að fara þá leið að taka upp olíugjald og það hefði leitt til þess að menn hefðu reynt að draga úr eldsneytisnotkun. Það hefði leitt til þess að menn hefðu farið yfir í sparneytnari og hagkvæmari bifreiðar. Það hefði líka leitt til þess að lokum að dregið hefði úr losun þeirra lofttegunda sem við þurfum að takmarka. Það er alveg ljóst að atvinnulífið þarf á allra næstu árum að fara í verulega harðar aðgerðir til að við getum staðist þær skuldbindingar sem við munum óhjákvæmilega og okkur ber siðferðileg skylda til að takast á herðar.

Þetta hefði verið besta leiðin til þess. Um það eru margir þingmenn sammála en það sem skiptir mestu máli er að þeir sem vinna í greininni eru sammála um það. Svo kemur þessi hv. þm. með nokkra ágæta félaga sína í halarófu á eftir sér og ákveður að hann hafi miklu meira vit á þessu en þeir sem stunda reksturinn innan greinarinnar. Ég veit ekki hvort hægt er að hafa vit fyrir svona fólki.