Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 11:13:18 (7435)

1998-06-04 11:13:18# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, Frsm. minni hluta SighB
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[11:13]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 1398 en undir það minnihlutaálit skrifa hv. alþm. Ágúst Einarsson og Steingrímur J. Sigfússon auk mín, en hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk minnihlutaálitinu.

Í þessu minnihlutaáliti kemur m.a. fram að frumvarpið fjallar um breytingar á ákvæðum skattalaga um vaxtabætur og er því hluti af húsnæðisstefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessu frumvarpi en þó fyrst og fremst í frumvarpi til laga um húsnæðismál, 507. máli á Alþingi, sem fengið hefur nú þegar mikla umræðu.

Frumvarpið um vaxtabætur tengist þessu máli og felur í sér þá meginbreytingu að vaxtabætur verði greiddar fyrir fram hjá þeim sem taka lán eftir að lögin taka gildi. Þetta er gert vegna þess að vextir af lánum til félagslegs húsnæðis verða nú hækkaðir úr 2,4% í 5,1% um leið og hið félagslega húsnæðiskerfi sem búið er að vera stolt íslenskrar verkalýðshreyfingar í áratugi og hefur nýst láglaunafólki einstaklega vel er afnumið með einu pennastriki.

Stefna ríkisstjórnarinnar er sú að leggja þetta húsnæðiskerfi niður. Útgjaldaauki ríkisins vegna frumvarpsins á næstu sex árum er er frá 290 millj. kr. upp í 1.200 millj. kr. en jafnframt fellur niður framlag til Byggingarsjóðs verkamanna sem nú er 275 millj. kr. Gert er ráð fyrir að um 1.000 einstaklingar fái nú rétt til vaxtabóta en þeir fengu áður lán úr félagslega kerfinu.

[11:15]

Stefna ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í þessum tveimur frv., því frv. sem hér er til umræðu og húsnæðisfrv. svokallaða, er í fullkominni andstöðu við sjónarmið stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar. Í áliti minni hluta félagsmálanefndar um frv. til laga um húsnæðismál segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Nú bregður svo við að ríkisstjórnin hefur ákveðið að gjörbylta húsnæðiskerfinu, ekki síst félagslega hlutanum, með þeim rökum að kerfið sé komið í þrot, það hafi valdið sveitarfélögum miklum vanda, of margir reisi sér hurðarás um öxl, húsnæði standi autt o.s.frv. Þegar betur er skoðað standast þessi rök ekki.``

Síðar í áliti minni hluta félagsmálanefndar segir svo, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn gerir mjög alvarlegar athugasemdir við þær breytingar sem verið er að boða á félagslega húsnæðiskerfinu og mótmælir harðlega þeirri atlögu sem gerð er að kjörum láglaunafólks með þessu frumvarpi. Nái frumvarpið fram að ganga mun það fyrst og fremst bitna á tekjulitlu fólki, einstæðum mæðrum, barnmörgum fjölskyldum, námsmönnum og fötluðum. Verði frumvarpið að lögum er verið að vísa því fólki sem áður átti kost á 100% lánum út á leigumarkað sem er afar vanþróaður enda mikill skortur á leiguhúsnæði um land allt. Þá getur nýtt greiðslumat haft þær afleiðingar að allstór hópur sem áður féll undir reglur félagslega kerfisins falli utan eða milli kerfa, en engar áætlanir liggja fyrir um það.``

Þetta er meginkjarninn í þeirri gagnrýni sem stjórnarandstaðan og verkalýðshreyfingin hafa staðið saman að að flytja á þessar tillögur hæstv. ríkisstjórnar um að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið. Ekki er nokkur vafi á því að með því er verið að vísa láglaunafólki hundruðum saman út á götuna því að ég held að enginn Íslendingur, sem til þekkir, geti haldið því fram með neinum rökum að líkur séu á því að séð verði fyrir hentugu leiguhúsnæði fyrir allt þetta fólk.

Félagslega íbúðarhúsastefnan á Íslandi hefur verið stolt okkar Íslendinga. Það kerfi hefur gert það að verkum að fjöldinn af láglaunafólki hefur getað eignast sína eigin íbúð og var mikið framfaraspor. Á grunni þess kerfis hafa risið upp heilu borgarhverfin í Reykjavík þar sem fólk hefur fengið inni sem ella hefði ekki getað fengið húsnæði hvorki til eignar né til leigu. Þeir tímar eru nú liðnir að fátækt fólk í Reykjavík búi í saggafullum kjöllurum eða liggi uppi á vinum og vandamönnum vegna fjárskorts. Þeir tímar eru liðnir fyrst og fremst fyrir tilkomu félagslega húsnæðiskerfisins sem hæstv. ríkisstjórn er nú að afnema með einu pennastriki og varpa því fólki sem hvergi á annars staðar skjól út á guð og gaddinn.

Í umræðum um húsnæðismálin hafa ýmsar upplýsingar komið fram, m.a. útreikningar sem Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður gerði. Þessir útreikningar voru lagðir fram í efh.- og viðskn. og leitað eftir því hvort starfsmenn fjmrn. gætu gert einhverjar athugasemdir við þá, sem þeir gátu ekki, heldur þvert á móti staðfestu þeir útreikninga hv. þm. og töldu þá rétta.

Þar kemur m.a. fram að greiðslubyrði einstaklinga með 800 þús. kr. til 1,5 millj. kr. í árstekjur þyngist um 23--57 þús. kr. ef miðað er við íbúð sem kostar 6,3 millj. kr. Ef einstaklingur með þessar tekjur reynir að kaupa íbúð sem er dýrari en 5,5 millj. kr. er greiðslubyrði hans þyngri eftir þessar breytingar en áður var.

Ef einstætt foreldri með 800 þús. kr. til 1,9 millj. kr. í árstekjur kaupir íbúð á 7,3 millj. kr., sem er algengt verð á þriggja herbergja íbúð, þyngist greiðslubyrðin um 3--63 þús. kr. á ári. Sé í þessu dæmi keypt íbúð sem kostar meira en 6,5 millj. kr. virkar nýja kerfið íþyngjandi. Hafa ber í huga að þetta er eðlilegt íbúðaverð á markaðnum.

Ef hjón kaupa íbúð að verðmæti 8 millj. kr. og hafa 1,6--2,1 millj. kr. í árstekjur er greiðslubyrðin hins vegar ívið léttari í nýja kerfinu.

Allar þessar upplýsingar svo og aðrar upplýsingar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram í umræðum á Alþingi hafa sem sé verið staðfestar. Enginn hefur getað hrakið þær, þær eru réttar og þær sýna ljóslega afleiðinguna af þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstjórn fylgir í húsnæðismálunum, afleiðinguna af þeirri stefnu að leggja félagslega íbúðakerfið niður, á hverjum það bitnar og til hvers það leiðir fyrir tekjulága einstaklinga.

Fyrir mjög marga þýðir þetta nýja kerfi aukna greiðslubyrði. Þannig er það rangt sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur haldið fram að nýja kerfið muni leiða til bættrar stöðu fyrir almennt launafólk. Þvert á móti er óöryggi aukið og greiðslubyrðin þyngd. Niðurgreiddir vextir í félagslega húsnæðiskerfinu eru mun tryggari aðstoð fyrir láglaunafólk en vaxtabótakerfið sé horft til reynslu síðastliðinna ára. Ekki hefur verið ágreiningur um það að fyrir þá sem eru tekjulægstir hafa lán með ívilnandi vöxtum komið sér mjög vel.

Það er umhugsunarvert, herra forseti, að á sama tíma, á sama degi og tilgangurinn er að samþykkja þetta frv. og þar með leggja niður hið félagslega íbúðalánakerfi er á vegum Listahátíðar í Reykjavík arkitekt nokkur að fara með fólk til þess að sýna því svokallað Breiðholtshverfi í Reykjavík. Það hverfi varð til vegna félagslega íbúðalánakerfisins. Það kerfi varð til vegna tímamótasamnings sem var gerður á milli þáv. ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar um byggingu tólf hundruð félagslegra íbúða í nýju hverfi í Reykjavík. Í þessu hverfi búa nú yfir 20 þús. einstaklingar.

Kjarninn í þessari nýju byggð var tímamótamarkandi samningur þáv. ríkisstjórnar við verkalýðshreyfinguna, kjarninn í þeirri byggð var félagslegu íbúðirnar sem byggðar voru í Breiðholti samkvæmt þeim samningi. Félagslega kerfið skapaði sem sé hvorki meira né minna en 20 þús. manna hverfi á einum fegursta stað í Reykjavík vegna þess að í kjölfar þeirra miklu byggingarframkvæmda sem fóru fram í Breiðholti á vegum framkvæmdanefndar byggingaáætlunar fylgdu aðrir, einstaklingar og fyrirtæki, sem tóku til við að byggja þetta nýja hverfi upp.

Það er umhugsunarvert að á sama degi og einn af arkitektum þessara miklu breytinga og framkvæmda í Breiðsholtinu, Geirharður Þorsteinsson, er að ganga um á vegum Listahátíðar til þess að kynna Reykvíkingum þetta glæsilega hverfi, hvernig það var byggt upp og hversu miklu hlutverki hið félagslega íbúðalánakerfi gegndi við þá uppbyggingu, að þá er ríkisstjórnin að ákveða það með atfylgi meiri hluta á Alþingi Íslendinga að leggja þetta kerfi fyrir róða sem skapaði þessa 20 þús. manna byggð.

Í fjölmörgum umsögnum um frumvarpið hafa eðlilega komið fram áhyggjur vegna þessa máls. Þannig óskaði Landssambandið Þak yfir höfuðið að húsnæðismálinu í heild verði frestað og sýndi einnig með dæmum fram á að greiðslur muni aukast í hinu nýja kerfi. Í mjög ítarlegum athugasemdum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja kemur fram sú skoðun að fyrirframgreiðslur vaxtabóta eigi að renna til allra sem eiga rétt á vaxtabótum en ekki einungis til þeirra sem kaupa húsnæði eftir að lögin taka gildi. Þessi stærstu heildarsamtök launafólks telja að félagslega húsnæðiskerfið hafi tryggt fjölda fólks gott, öruggt og viðunandi íbúðarhúsnæði. Það hafi skapað láglaunafjölskyldum möguleika til eignamyndunar í eigin íbúðarhúsnæði sem ekki hefði verið hægt í leiguhúsnæði. Þessi meginstefna verkalýðshreyfingarinnar er samhljóða stefnu stjórnarandstöðunnar.

Þetta frumvarp, sem er liður í húsnæðisstefnu ríkisstjórnarinnar, er því alls ekki til bóta og ekki fullrætt. Þannig eykst greiðslubyrði hjá ýmsum hópum mun meira en ætlað var. Þótt vissulega sé hægt að finna galla á húsnæðiskerfinu sem ber að bæta úr er það fráleit niðurstaða með öllu að afnema hið félagslega húsnæðiskerfi þess vegna.

Minni hlutinn lagði til að húsnæðismálafrumvörpunum báðum yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og eins og ég tók fram að þá sat Kristín Halldórsdóttir fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og var samþykk þeirri niðurstöðu þeirra þriggja þingmanna sem mynda minni hluta efh.- og viðskn.