Búnaðarlög

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 12:58:36 (7447)

1998-06-04 12:58:36# 122. lþ. 144.26 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# (heildarlög) frv. 70/1998, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[12:58]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð til viðbótar. Stór hluti af þeim framlögum sem bændur eiga rétt á samkvæmt lögum, fullan og óskoraðan rétt, er vegna breytinga sem voru gerðar á lögum og margir hverjir urðu að fara í úrbætur til að standast t.d. stjórnvaldsákvarðanir um hreinlæti við mjólkurframleiðslu þannig að þeir gátu ekki skorast undan því að fara í þessar framkvæmdir. Samkvæmt lögum áttu þeir að fá þær bættar og eins og ég sagði áðan finnst mér það vera til bóta að þarna komi tillaga um 70 millj. til viðbótar. En þarna er verið að knýja bændur, mér liggur við að segja neyða þá, til að skrifa undir samkomulag um að þeir taki við helmingnum af því sem þeir eiga fullan og óskoraðan rétt á eða fái að öðrum kosti ekki neitt. Ég get ekki sætt mig við þessi vinnubrögð gagnvart bændastéttinni sem hefur verið í mikilli vörn undanfarin ár og þarna er vissulega þörf á að setja inn fjármagn til úrbóta.