Aðlögun að lífrænum landbúnaði

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 13:01:00 (7448)

1998-06-04 13:01:00# 122. lþ. 144.30 fundur 195. mál: #A aðlögun að lífrænum landbúnaði# þál. 30/122, Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[13:01]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um tillögu til þál. um aðlögun að lífrænum landbúnaði frá landbn.

Nefndin hefur fjallað um málið og farið yfir umsagnir frá 121. þingi um samhljóða tillögu frá Vori, félagi framleiðenda í lífrænum búskap, Neytendasamtökunum, Náttúruverndarráði, ÁFORM, Bændasamtökunum, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, fagráði í lífrænni framleiðslu og Landgræðslu ríkisins.

Í tillögugreininni er skorað á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að unnt sé að styðja bændur sem aðlaga búskap sinn viðurkenndum lífrænum búskaparháttum í samræmi við lög og reglur um lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Hjálmar Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Aðrir hv. þingmenn í landbn. skrifa undir þetta nál.