Áfengislög

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 14:27:52 (7467)

1998-06-04 14:27:52# 122. lþ. 144.6 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv. 75/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[14:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Uppsetning þessa frv. vekur sérstaka athygli en þannig er að ákvæði 3., 4. og 5. gr. og segja má einnig ákvæði 8. og 9. gr. eru í reynd öll miðuð við að áfengissala og áfengisdreifing í landinu sé almennt í höndum einkaaðila. Aðeins á einum stað í frv. er haldið til haga því ákvæði að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skuli hafa einkaleyfi til smásölu á áfengi.

Þessi framsetning málsins vekur tortryggni og að mörgu leyti er gengið þannig frá málunum að það verður nánast handarverk eitt fyrir þá sem síðar vildu einkavæða að fullu áfengisverslun í landinu. Brtt. frá allshn. hefur verið samþykkt við 3. gr. og er vissulega til bóta þó að í litlu sé að fella niður úr 2. mgr. greinarinnar orðið ,,smásölu`` þannig að það dregur úr þeirri áherslu sem ella má segja að framsetning frv. hafi falið í sér og vísar eins og áður sagði öll í þá átt að einkavæða skyldi þessa starfsemi að fullu.

Ég tortryggi engu að síður þennan umbúnað málsins, herra forseti og mun sitja hjá við þessar greinar, 3., 4. og 5. og síðan 8. og 9. gr. frv.