Áfengislög

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 14:29:28 (7468)

1998-06-04 14:29:28# 122. lþ. 144.6 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv. 75/1998, HjálmJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[14:29]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Markmið þessara laga er allt að vinna gegn misnotkun á áfengi. Íslendingar hafa staðið sig illa í áfengisvörnum og farið kringum vandann eins og hvolpar kringum heitt soð. Allmörg nýmæli eru í þessum lögum og ég vona að þau dugi til síns brúks. Það hlýtur að gerast með því að betur verði eftir lögunum farið hér eftir en hingað til.

Reglur um framkvæmd umferðarlaga hafa nýverið verið hertar. Gott væri ef hið sama gerðist í framkvæmd áfengislaga því að þá verða þessi lög til mikilla bóta, annars stöndum við í besta falli í sömu sporum.