Vörugjald

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 14:53:10 (7474)

1998-06-04 14:53:10# 122. lþ. 144.9 fundur 347. mál: #A vörugjald# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 89/1998, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[14:53]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þessi brtt. meiri hluta hv. efh.- og viðskn. felur í sér niðurfellingu á 25% vörugjaldi á skotvopnum og skotfærum og gerir þessi vopn þar með 20% ódýrari. Ég er alfarið á móti þessari tillögu. Mér þætti nærtækara að lækka vörugjöld á þvottavélum og öðrum heimilistækjum sem bera 20% vörugjald.

Það er ástæðulaust að létta aðgengi að skotvopnum en byssueign er þegar orðin of almenn að mínu mati, en 18 þúsund skotvopnaleyfi hafa verið veitt til Íslendinga. Það eru 18 þúsund manns sem hafa skotvopn.

Ég hef ekki orðið fyrir jafnmiklum og skipulögðum lobbíisma áður eins og í sambandi við þetta mál. Yfir mig hafa dunið símbréf, sendibréf, ályktanir og símtöl í tugatali en heimilin í landinu hafa ekki haft samband við mig um að lækka vörugjald á heimilistækjum. (Gripið fram í: Eru þessi menn ekki með heimili?) Ég gef lítið fyrir þau rök að aðrar íþróttavörur beri ekki vörugjöld. Jeppaíþróttamenn syngja annan söng enda þurfa þeir að greiða 40--65% vörugjöld á íþróttavörur sínar, þ.e. jeppana.

Herra forseti. Ég segi nei.