Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:03:56 (7479)

1998-06-04 15:03:56# 122. lþ. 144.12 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SighB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:03]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta að því hvort hér sé ekki rangt að farið í atkvæðagreiðslunni. Á ekki fyrst að bera upp þá tillögu sem lengra gengur? Ef svo vildi til að þessi tillaga yrði samþykkt, þá væri ekki hægt að bera upp tillöguna á þskj. 1332.

Áður en ég tek efnislega til máls um þessa atkvæðagreiðslu, ef þurfa þykir, þá vil ég spyrja forseta hvort það sé ekki rétt að hætta þessari atkvæðagreiðslu og taka fyrri brtt. fyrst. (VE: Gengur þessi ekki lengra í skattheimtu?) Hin tillagan gengur lengra, virðulegi forseti, í fráviki frá þeirri aðaltillögu sem fyrir liggur. Þá tillögu sem lengst gengur í fráviki eða til breytinga á að sjálfsögðu að bera upp fyrst.

(Forseti (RA): Forseti vekur athygli á því að báðar brtt. sem hér er um að ræða, önnur flutt af Pétri H. Blöndal o.fl. en hin flutt af Steingrími J. Sigfússyni o.fl., víkja frá frv. En þegar að því kemur að úrskurða hvor gangi lengra þá vandast málið. Þær víkja báðar frá frv. sem nemur 2%. Það er nú svo að aðra hvora verður að taka fyrst og hér hefur verið ákveðið að greiða fyrst atkvæði um þessa tillögu og er það endanleg ákvörðun.)

Herra forseti. Ég bendi bara virðulegum forseta á að ef þessi tillaga sem nú er til atkvæðagreiðslu yrði samþykkt, þá er ekki hægt að bera upp tillögu Péturs H. Blöndals o.fl. Ég vil aðeins, ef ég má, virðulegi forseti, ítreka það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan. Verði þessi tillaga felld, þá óska ég eftir að a-liðurinn við 6. gr. verði sérstaklega borinn upp og mun greiða atkvæði gegn þeirri ákvörðun að lækka við þessar aðstæður í miðju góðæri skatta á fyrirtæki.

(Forseti (RA): Vegna þessarar athugaemdar hv. þm. vekur forseti athygli á því að það er löngum svo að samþykkt einnar tillögu útilokar samþykkt á annarri tillögu. Þetta gerist hér á hverjum degi hjá okkur og verður einnig í þessu tilviki.)