Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:08:13 (7481)

1998-06-04 15:08:13# 122. lþ. 144.12 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, fjmrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Vissulega má færa margvísleg rök fyrir því að rétt væri að lækka umrætt álagningarhlutfall úr 30% í 28 eins og hv. síðasti ræðumaður lagði til. Ég tel hins vegar ekki tímabært að stíga þetta skref. Í frv. öllu eru teknir mikilvægir áfangar í að aðlaga skattkerfi okkar því sem gerist í nágrannalöndum. Við breytum ýmsu og röskum ákvæðum á einn veg og annan. Við skulum ekki ganga lengra að sinni.

Hins vegar er ljóst að það þarf að endurskoða þessi lög í áframhaldinu, m.a. með tilliti til breytinga á verðbreytingafærslu fyrirtækja og fleiri atriða. Að mínum dómi kæmi vel til greina að stíga þetta skref til fulls, eins og lagt er til með tillögunni. Af þessum ástæðum mælist ég til þess að í það minnsta stjórnarmeirihlutinn á Alþingi fallist á að hafna þessari tillögu, þ.e. aðrir en flutningsmenn sem sitja í efh.- og viðskn. þingsins. Ég segi nei.