Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 15:57:46 (7489)

1998-06-04 15:57:46# 122. lþ. 144.25 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv. 97/1998, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þegar minni hluti efh.- og viðskn. gekk frá nefndaráliti sínu í þessu máli voru enn til umfjöllunar á Alþingi svonefnd húsnæðisfrumvörp hæstv. ríkisstjórnar en eins og kunnugt er voru víðtækar kröfur uppi bæði innan þings og utan um að afgreiðslu þeirra frumvarpa yrði frestað. Við lögðum því til í nál. okkar á þskj. 1398 að frv. þessu um vaxtabætur yrði vísað til ríkisstjórnarinnar í tengslum við að húsnæðismálunum yrði að öðru leyti frestað.

Því miður bar hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi ekki gæfu til að verða við þeim vel rökstuddu og sanngjörnu kröfum að fresta afgreiðslu þessara mála og búið er að gera húsnæðisfrv. sjálft að lögum. Í ljósi þeirra breyttu aðstæðna kalla ég aftur tillögu í nefndaráliti okkar um að vísa málinu til ríkisstjórnar. Við munum sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu um málið en áskiljum okkur rétt til að leggja fram brtt. við frv. við 3. umr.