Búnaðarlög

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 16:01:25 (7490)

1998-06-04 16:01:25# 122. lþ. 144.26 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# (heildarlög) frv. 70/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ugglaust hið ágætasta frv. að langmestu leyti sem hér er að koma til lokaafgreiðslu. Ekki mæli ég á móti því að þörf sé á að endurskoða lagabálkinn sem hér er verið að búa til og kalla búnaðarlög.

Í þessu frv. er þó eitt ákvæði sem ég get ómögulega sætt mig við. Það eru þeir afarkostir sem bændum, sem áttu inni ógreidd jarðræktarframlög, eru settir með þessu frv. og þeir ógeðfelldu stjórnsýsluhættir sem í því birtast. Bændum er stillt upp við vegg og þeim gert að afsala sér annaðhvort helmingi af réttmætum kröfum sínum á ríkissjóð eða hafa verra af. Auðvitað munu menn í flestum tilvikum frekar taka þessi 50% af kröfunum en að standa í málaferlum og láta reyna á stöðu sína þannig. Ég kann því afar illa þegar ríkisvaldinu er beitt svona og get ekki sætt mig við þessar málalyktir. Ég greiði því frv. ekki atkvæði.