Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 18:14:18 (7502)

1998-06-04 18:14:18# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[18:14]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég verð að segja að þetta var kjarkmikil framsaga sem hér var flutt fyrir meirihlutaáliti. Ég get þess líka að þó að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir hafi talið upp eða getið þess að fjöldi gesta hafi komið til fundar við nefndina og jafnframt hafi borist margar umsagnir, þá gat hún þess í engu að margir þeirra gesta sem komu til fundar við nefndina voru í ýmsum veigamiklum atriðum á móti einum burðarás þessa frv., þ.e. hvernig ráðið er skipað.

[18:15]

Þetta frv., herra forseti, er í beinu framhaldi af því dapurlega starfi sem ríkisstjórnin hefur unnið í vímuefna- og áfengisvörnum. Ég hef komist að þeirri dapurlegu niðurstöðu, eftir að hafa lesið þetta frv., tekið þátt í að skrifa um það minnihlutaálit, tekið þátt í fjölda funda þar sem það var tekið fyrir í hv. heilbr.- og trn., að þetta frv. sé hvorki fugl né fiskur. Það er hins vegar mikilvægt fyrir hæstv. ríkisstjórn að fá það samþykkt vegna þess að það er eiginlega burðarásinn í stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún hefur lagt hana fram um varnir gegn vímuefnum, þ.e. að þetta frv. verði samþykkt.

Frv. gengur aðallega út á að heilbrrh. fái leyfi til að skipa átta kontórista í ráð sem á að samræma, þ.e. maður getur svona lesið það út úr frv., það sem hin ýmsu ráðuneyti eru að gera í áfengis- og vímuvörnum. Hvað eru svo þessi einstöku ráðuneyti að gera, herra forseti? Það getur maður lesið í skýrslu sem hæstv. dómsmrh. lagði fyrir 122. löggjafarþing. Þar var sagt frá því sem ráðuneytin hefðu gert á árinu 1997, greint frá því hvað þau ætluðu að gera á komandi missirum og jafnframt reifuð stefna hæstv. ríkisstjórnar. Það er furðulegt, þegar maður les þetta plagg, að í hverjum einasta ráðuneytiskafla stendur það upp úr að það sem viðkomandi ráðuneyti vill gera er að samþykkja frv.

Með öðrum orðum, herra forseti, er niðurstaða mín sú að ríkisstjórnin sé á hrapallegum villigötum að því er varðar áfengis- og vímuvarnir. Dæmin tala auðvitað sínu máli. Þó hæstv. heilbrrh. hafi fyrir örfáum dögum barið sér hreystilega á brjóst og haldið því fram að hún hefði náð árangri í forvörnum, þá tala tölurnar og staðreyndirnar allt öðru og miklu dapurlegra máli. Staðreyndin er nefnilega sú, eins og hefur komið fram í skýrslum á skýrslur ofan, að við sjáum þar herfilega þróun. Við sjáum að neysla á hvers konar vímuefnum, hvort heldur er áfengi, ólögleg vímuefni eða það fíkniefni sem heitir nikótín, er að færast neðar og neðar í aldursflokkana. Í þessu ágæta landi sem við búum í og margt er í góðu lagi með, þá sjáum við þó þegar vísbendingar um það að mesta samfélagsmein næstu aldar verða fíkniefni.

Það er alveg ljóst að til að ná einhvers konar viðspyrnu í baráttunni gegn útbreiðslu, sölu og neyslu fíkniefna hér á landi þarf mikið átak. Það þarf þjóðarátak. Það þarf átak þar sem Alþingi samþykkir að verja miklu fjármagni í þessa herferð. Það þarf auðvitað líka frjóa og skapandi hugsun af hálfu þeirra sem véla um þessi mál af hálfu stjórnvalda. Ég verð því miður að segja, herra forseti, að það er eiginlega sama hvar menn ber niður. Annaðhvort eru markmiðin óraunhæf, eins og fíkniefnalaust Ísland árið 2002, eða menn hafa ekki neinar sérstakar áætlanir um það hvernig ráðuneytin ætla að bregðast við. Menn hafa ekki sérstök tæki til þess og það sem skiptir auðvitað mestu máli er að ríkisstjórnin, þrátt fyrir öll þau fögru orð sem hún lætur falla af ýmsum misjöfnum tilefnum þegar fíkniefnavarnir eru annars vegar, lætur fjármagnið aldrei fylgja. Hvernig á maður að dæma, herra forseti, hvort hugur fylgir máli? Maður dæmir það ekki af orðum heldur af dáðum og í þessu máli. Óhætt er að segja að af orðum er komið nóg en dáðirnar liggja eftir.

Ég gat þess áðan að þegar maður les skýrslu hæstv. dómsmrh., sem hann gaf Alþingi um aðgerðir á vegum hæstv. ríkisstjórnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum, kemur í ljós að það sem helst hefur verið gert innan ráðuneytanna er að áætlanir hafa verið gerðar. Það sem stendur upp úr þessum áætlunum er að samþykkt verði frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð. Það er sem sagt lausnin. Það á sem sagt að vera viðspyrna hæstv. ríkisstjórnar í baráttunni gegn þessum skuggabaldri sem ógnar æsku landsins og komandi kynslóðum. Þessi vá gæti í raun leitt til þess að sjálft samfélagsmynstrið, sjálf samfélagsgerðin, ekki bara trosni heldur fari úr böndunum þegar líður fram á næstu öld. Það er þess vegna, andspænis þessari skuggalegu framtíð sem við sjáum að er farin að hrjá þjóðfélögin í kringum okkur og hefur illu heilli skotið allt of djúpum og traustum rótum hér á landi, sem ég hlýt að komast að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin sé ráðalaus, viti ekki hvað til bragðs eigi taka. Hún leggur allt sitt traust á þetta frv. sem fyrir liggur til laga um áfengis- og vímuvarnaráð.

Þetta frv. væri í sjálfu sér hægt að samþykkja ef maður teldi að það leiddi til einhvers. Ég kemst ekki að þeirri niðurstöðu eftir að hafa lesið frv., eftir að hafa lesið greinargerðir sem því fylgja og enn síður get ég sagt að huga mínum hafi orðið rórra þegar ég og við nefndarmenn í hv. heilbr.- og trn. hlýddum yfir starfsmönnum ráðuneytisins um það hverju þetta frv. ætti eiginlega að ná fram.

Frv. hefur ekki einungis illa grunduð markmið heldur er það orðað þannig, herra forseti, að á köflum er erfitt að skilja hvað fyrir frumvarpshöfundum og frumvarpsflytjendum vakir. Í þessu stutta frv. sem er einungis sjö greinar er annar meginkaflinn, 3. gr., þar sem fjallað er um verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs, svo óljós og svo víðfeðm og á köflum svo teygjanleg að fyrir fólk sem vill af alvöru og ábyrgð glöggva sig á verkefnum þessa ráðs, þá lenda menn út og suður. Það er ekki hægt að fóta sig á því hvað felst í þessum greinum. Og hvað gera menn undir slíkum kringumstæðum, herra forseti? Þeir róa á mið þeirra sem skrifuðu frv. Þeir róa á mið þeirra sem starfa hjá ráðuneytinu. Auðvitað er eðlilegt að þeir sem taka á þessum málum af festu og ábyrgð reyni að grafast fyrir um hvað það var sem vakti fyrir starfsmönnunum og þeim sem gerðu frv. Frá því er skemmst að segja að við urðum litlu nær, herra forseti, eftir að hafa setið á fundum með starfsmönnum heilbr.- og trmrn.

Til að sýna samkomulagsvilja í málinu og til að reyna að ná til botns í því, fórum við þess kurteislega á leit við starfsmenn ráðuneytisins að þeir svöruðu tilteknum spurningum skriflega og létu okkur fá þær. Það ætluðum við síðan að nota við síðari yfirferðir á málinu í heilbr.- og trn. Eins og greint er frá í nál. minni hlutans heilbr.- og trn. þá er skemmst frá því að segja, herra forseti, að ekki var orðið við þessum tilmælum okkar um skriflegar skýringar. Í nefndinni komum við með rökstudda gagnrýni og mótuðum spurningar um það hvað fælist í í verkefnum hins nýja ráðs og hvernig þau sköruðust við aðrar stofnanir, aðrar nefndir og aðra hópa sem væru að vinna að þessu. Við fengum engin svör. Ég vek til að mynda athygli á því, herra forseti, hvernig 1. tölul. 3. gr. er orðaður. Þar er verið að tala þarna um verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs sem eru m.a.:

,,Að hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé fram fylgt, sem og stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma.``

Herra forseti. Það er kannski erfitt að fylgjast með að stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli sé fylgt eftir, hún er nánast ekki til, því miður. Hvernig á vímuvarnaráð að hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt? Höfum við ekki framkvæmdarvald í þessu landi? Höfum við ekki heilt ráðuneyti sem hefur lögreglusveitir víðs vegar um landið á sinni könnu sem á auðvitað að fylgja þessu eftir? Höfum við ekki heilt fjmrn. sem hefur tollembætti undir sínum væng? Það á að fylgjast með því að ekki sé ólöglegur innflutningur? Svona gæti ég haldið áfram að telja. Á þetta áfengis- og vímuvarnaráð að taka þessi verkefni yfir? Menn spyrja að gefnu tilefni.

Menn vilja vita hvers konar stofnun er verið að setja á fót. Svörin eru engin. Þau finnast ekki í greinargerðinni. Þau finnast ekki í munnlegum svörum af hálfu starfsmanna ráðuneytisins. Þau komu ekki í þessari skriflegu greinargerð sem við óskuðum eftir með tilteknum spurningum þar sem sérstaklega var tekið til að mynda á þessum tölul. 3. gr. vegna þess að hið skriflega svar barst ekki. Þegar minni hlutinn er ekki virtur svars þegar hann af fyllstu kurteisi fer fram á að fá skriflegar skýringar á máli sem skiptir miklu og miklar efasemdir, studdar föstum rökum, eru um, kemst maður auðvitað að komast að þeirri niðurstöðu að erfitt sé að fallast á að fylgja slíku máli.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að við í minni hlutanum höfum ekki lagt fram miklar breytingartillögur við þetta frv. Ástæðan er sú að við teljum að skrifa þurfi frv. upp á nýtt og þörf á að hnitmiða og skýra miklu betur hvað áfengis- og vímuvarnaráð á að gera. Ég bendi einnig á, herra forseti, að þetta frv. varð til upp úr tillögum sem fram komu innan ráðuneyta og ríkisstjórnarinnar um að setja upp sérstakt afbrota- og vímuvarnaráð. Það var skynsamlegur heimanmundur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ekki síst á þessum vetri höfum við fengið órækar sannanir fyrir því að það eru gríðarleg tengsl milli afbrota hjá ungu fólki og neyslu þess á ólöglegum fíkniefnum. Við höfum líka fengið heimildir og gögn sem sýna fram á það hversu gríðarmiklir harmleikir fylgja því að ánetjast þessu. Við og einnig þeir sem komu á okkar fund, jafnvel þeir sem áttu hlut að samningu þessa frv., höfum talið að vitlegra hefði verið að tengja einhvern veginn afbrot ungs fólks, sem hægt er sannanlega að rekja til fíkniefnaneyslu, þessu ráði.

Ég spyr, af því hér er enginn í salnum sem tengist þessu nema hæstv. heilbrrh.: Hvað olli því að slitið var þarna á milli? Hvað olli því að í skýrslu hæstv. dómsmrh. er þess getið að innan dóms- og kirkjumrn., þess ráðuneytis sem fer með þau mál sem tengjast afbrotum, er gerð tillaga um að stofna sérstakt afbrota- og vímuvarnaráð. Í skýrslu hæstv. dómsmrh. segir einungis, um vinnuna að baki því frv. sem hér er nú til umræðu, með leyfi forseta:

,,Í þeirri vinnu tókst þó ekki að taka afbrotaþáttinn með inn í starfsemi ráðsins.``

Bíðum nú við, herra forseti. Hvað felst í þessum hógværu orðum? Hæstv. dómsmrh. orðar það þannig að ekki hafi tekist að taka afbrotaþáttinn með inn í starfsemi ráðsins. Kann að vera að það hafi verið vegna þess að það hafi verið fyrirstaða? Hvar var sú fyrirstaða, herra forseti? Kom sú fyrirstaða frá heilbrrn.? Hvað olli því að þær hugmyndir sem þeir sérfræðingar á vegum ríkisstjórnarinnar sem véla um afbrotamál unglinga komu með í upphafi þessa máls, náðu ekki fram að ganga? Í umræðuþáttum sérfræðinga í fjölmiðlum og af hálfu gesta hjá hv. heilbr.- og trn. hefur komið fram, og reyndar einnig í skýrslu sem hér hefur verið dreift í fylgigögnum með málum sem komið hafa frá hæstv. ríkisstjórn, að það sé mjög nauðsynlegt að tengja þetta tvennt saman. Og hvað veldur því þá, herra forseti, að þetta er slitið í sundur? Skoðun margra okkar, sem höfum kynnt okkur þessi mál og höfum leitað til sérfræðinga sem þekkja til auðvitað miklu betur en við, er sú að þarna sé um verulega stór mistök að ræða. Af þeirri ástæðu einni þyrfti auðvitað að skrifa þetta frv. upp á nýtt og taka afbrotaþáttinn inn í líka. Þar með mundi frv. eins og það liggur fyrir gjörbreytast. Það felur í sér meginbreytingu ef slíkt yrði tekið inn. Sé þetta ekki gert, herra forseti, þá kemst ég ekki að annarri niðurstöðu en að þetta sé sýndarmennska. Þetta plagg hér er einungis sýndarmennska sem er lagt fram til þess að hæstv. ríkisstjórn geti að loknu þessu ári sagt að hún sé þó að gera eitthvað. En verkin tala, staðreyndirnar tala og ef dæma á ríkisstjórnina af því hvernig þróunin er þá er hún ekki að gera neitt.

[18:30]

Nú er það auðvitað fulldjúpt í árinni tekið að halda því fram að hæstv. ríkisstjórn sé ekki að gera neitt. Á ýmsum stöðum er verið að taka á tilteknum þáttum sem þetta mál varða. En þegar farið er yfir þær framkvæmdir sem hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir á síðasta ári þá stendur það upp úr að þær hugmyndir sem á kreiki eru í heilbrrn. og í félmrn. lúta fyrst og fremst að meðferðarúrræðum. Nú skal ég alls ekki gera lítið úr þeim þó að ég gæti haft langt mál um það, um þá miklu þörf sem ég tel vera á meðferðarúrræðum fyrir unglinga á tilteknum aldri sem hafa lent í alvarlegri klemmu en ég ætla ekki að fara út í það, a.m.k. ekki í þessum hluta ræðu minnar.

Hérna, í framkvæmdaáætlunum sem hafa verið gerðar innan ráðuneytanna, er helst talað um það hvernig hjálpa eigi þeim sem hafa lent í þessum vanda. Það er auðvitað mjög þarft. Við getum svo sem deilt um það, eins og ég drap á hér rétt áðan, hvort þar séu farnar réttar leiðir og ekki skal ég dæma um það núna. Ég tel að vísu að svo sé ekki.

En það sem vantar auðvitað er að reisa múra gegn innrás fíkniefnanna, sem stöðugt sækja neðar og neðar í þá æsku sem á að erfa þetta land. Þá æsku sem er sennilega það dýrmætasta sem við eigum öll. Ég hygg að ég tali fyrir munn allra tilvonandi foreldra unglinga, að maður hugsar með hryllingi til framtíðarinnar þegar maður sér í kringum sig dæmin um það hvernig ungt fólk, allt niður að því sem maður mundi kalla barnsaldur, verður þessum eiturlyfjum að bráð. Hvar eru fyrirmyndirnar, hvar eru forvarnirnar?

Vegna þess að forvarnir eru eitt af því sem hæstv. heilbrrh. hefur lagt gríðarlega áherslu á þá er það auðvitað sláandi, þegar maður les framkvæmdaáætlun heilbrrn. í þessum áfengis- og vímuvarnamálum, að áhersla hæstv. heilbrrh. á forvarnir í öðrum þáttum heilbrigðismála er varla sýnilegur. Það er nánast engin áhersla á hann. Hvar eru fjármunirnir sem eiga að fara í forvarnirnar?

Herra forseti? Hvernig stendur á því að þetta áfengis- og vímuvarnaráð sem hæstv. ríkisstjórn vill leggja upp með, tekur ekki á tóbaksvörnum? Hvernig stendur á því að tóbaksvarnaráð er ekki undir þetta lagt? Aðrar þjóðir hafa skilgreint nikótín sem vanabindandi fíkniefni. Auðvitað dylst engum að svo er. Auðvitað ættum við líka að gera það. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það hefði verið æskilegt, ef menn fara þessa leið, að taka það líka inn undir þetta. Hvers vegna?

Fyrir því eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi bendi ég á að á þessum vetri hafa komið fram óyggjandi gögn frá rannsóknarmönnum við háskólann sem sýna fram á að það er gríðarsterk fylgni á milli tóbaksreykinga hjá ungu fólki og neyslu þess á fíkniefnum síðar á lífsleiðinni. Eftir því sem neysla á tóbaki færist neðar í aldursflokkana þá færist neysla á sterkari efnum neðar í þessum sömu aldurshópum. Með öðrum orðum, ef okkur tekst að koma í veg fyrir að tiltekið hlutfall unglinga taki ekki upp tóbaksneyslu þá erum við um leið að ná árangri í forvörnum gagnvart sterkari fíkniefnum. Ef okkur tekst að lækka hlutfall þeirra sem byrja að reykja á ungum aldri þá erum við um leið að lækka hlutfall þeirra sem verða fórnarlömb sterkari fíkniefna þegar fram í sækir.

Hæstv. heilbrrh. leyfði sér að koma hér í umræðu fyrir tveimur dögum og hrósa sér af því að hún hefði náð árangri í tóbaksvörnum. Það er alveg rétt. Hæstv. heilbrrh. hefur náð árangri í tóbaksvörnum. Ég held að ef á heildina er litið þá hafi þær minnkað, þá hefur heildarneyslan minnkað. Mitt í orðaflaumnum hjá hæstv. heilbrrh., þegar hún var að telja upp afrek sín eins og ráðherrum Framsfl. er nú svo tamt þessa dagana --- og við heyrðum það hjá hæstv. iðn.- og viðskrh. í gær --- þá gat hún auðvitað ekki þess sem mestu skipti. Ég ætla ekki að hafa sterkari orð um það en hæstv. ráðherra gat þess ekki að á borði hennar liggja skýrslur sem sýna að á sl. missirum hafa reykingar unglinga og barna aukist. Það skiptir máli vegna þess að þær rannsóknir sem ríkisstjórnin hefur látið fylgja gögnum sem hér hefur verið dreift á þinginu í vetur, sýna að það er bein fylgni á milli þess hve ungt fólk er þegar það byrjar að reykja og tíðninnar í sömu aldurshópum gagnvart sterkari fíkniefnum. Með öðrum orðum: Hæstv. ráðherra stendur andspænis þeirri staðreynd að það sem mestu skiptir, að ná böndum á þessum vágesti hjá yngsta hluta þjóðarinnar, hefur ekki tekist. Það þýðir að innan fárra ára munum við að sjá að þessi sami hópur, samkvæmt reynslunni, mun hefja neyslu sterkari fíkniefna yngri en þeir sem á undan voru.

Með öðrum orðum, stefnan sem ríkisstjórnin hefur fylgt í þessum efnum hefur ekki borið árangur. Ég ætla ekki að segja að hún hafi burgðist hrapallega. Það er hins vegar alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir því allar líkur eru á því að neysla sterkari fíkniefna hjá ungu fólki muni aukast á næstunni. Þetta finnst mér vera ein dekksta blikan sem blasir við á sjónarrönd á himni okkar í dag.

Ég gat þess áðan að mér þætti slæmt að tóbaksvarnir væru ekki undir þessu. Á grunni þessara rannsókna sem ég var að reifa þykir mér einsýnt að barátta gegn tóbaksneyslu sé um leið barátta gegn því að ungt fólk taki upp neyslu sterkari fíkniefna. Ég tel því ekki að það sé ekki hægt að slíta þetta tvennt í sundur. Ég vek líka athygli á því að í sögu tóbaksvarnanefndar eru talsvert glæstir kaflar. Fyrir nokkrum árum tókst að ná upp gríðarlegri stemmingu hjá ungu fólki, hjá yngstu kynslóðunum alveg niður í leikskóla, sem leiddi til þess að meðal kynslóða sem nú eru upp vaxnar var gríðarlegur andróður gegn reykingum. Þessi andróður birtist ekki aðeins í því að þetta unga fólk tæki ekki upp neyslu tóbaks eins og þær kynslóðir sem á undan gengu, heldur leiddu þær líka til þess að foreldrar þessara barna drógu úr reykingum. Ástæðan fyrir því að heildarneyslan á tóbaki hefur minnkað eru þessir árgangar sem eru nú að vaxa upp og jafnframt áhrif þeirra á foreldrana.

Þróunin sem við erum að sjá hjá yngstu aldursflokkunum bendir til þess að á næstu árum muni þetta, sem hæstv. heilbrrh. var að hrósa sér af, snúast við. Staðan sem við höfum frammi fyrir okkur í þeim gögnum sem ríkisstjórnin hefur dreift, felur það í sér að innan skamms tíma muni tóbaksneyslan aukast aftur.

Í sögu tóbaksvarnanefndar voru glæstir kaflar. Þar hafa menn á köflum náð mjög góðum árangri. Þar hafa menn beitt aðferðum sem einhverra hluta vegna er ekki beitt lengur. Ég bendi á það þegar menn fóru þá leið að skapa fyrirmyndir, fá fólk sem börn og unglingar litu upp til til þess að taka frumkvæði. Það ber ekki á slíku í dag þó ég vilji síst lasta það ágæta ráð sem ... (Gripið fram í.) Ekki í sama mæli og áður fyrr.

Það getur vel verið að hæstv. heilbrrh. finnist þetta vera tilefni til þess að hlæja. Ég er hins vegar að rekja hér tölur sem ættu að vera hæstv. ríkisstjórn til skammar. Þær sýna fram á að reykingar eru að aukast í yngstu hópunum. Þær sýna það líka að innan nokkurra ára þá mun fíkniefnaneyslan aukast líka hjá þeim. Það er bara staðreynd sem liggur á borði ráðherrans. Ég var, þegar hæstv. heilbrrh. sá sérstaka ástæðu til þess reka upp hlátur, að dást að því að fyrir nokkrum árum fóru menn með miklu meiri árangri í þessa baráttu gegn tóbaksreykingum en núna undir stjórn hæstv. heilbrrh. Ég ætla í sjálfu sér ekkert að lasta hana fyrir það, en hins vegar segi ég það hér alveg fullum fetum að ég tel að hér á árum áður hafi verið notaðar miklu harðari og árangursríkari aðferðir í baráttunni en núna.

Ef hæstv. heilbrrh. telur að þetta sé einhver vitleysa hjá mér þá er svo sem hægt að lesa nokkrar tölur úr gögnum ríkisstjórnarinnar. Alla vega, herra forseti, vil ég leyfa mér að fara með nokkrar uggvænlegar staðreyndir, sem birtast í þessari skýrslu hæstv. dómsmrh. Þær sýna t.d., herra forseti, að meðal unglinga í 9. og 10. bekk, þegar kannað er hversu margir þeirra hafa notað amfetamín, þá kemur í ljós að allt upp í 5,6% piltanna og upp í 5,1% stúlkna 14--15 ára, hafa prófað amfetamín. Herra forseti. Við sem erum nú komin á virðulegan aldur höfum ekki einu sinni séð þessa hluti. Ég hef aldrei á ævi minni rekið augun í svona og hef þó marga fjöruna sopið, herra forseti.

Hér liggur það fyrir að það sem maður kallar bara börn, þokkalegur hópur þeirra, einn tuttugasti, ríflega upp í það, hefur neytt amfetamíns. Þetta er algjörlega með ólíkindum, herra forseti. Í sama aldurshópi hafa fast meira en 17% pilta hér í Reykjavík notað hass, 17% er einn af hverjum 6 þeirra sem eru 14 og 15 ára, þeir hafa einhvern tíma reykt hass. Þetta er auðvitað ómöguleg staða.

Ef maður tengir þetta t.d. við það, herra forseti, að hér var fyrir skömmu sænskur lögreglumaður, sem að vísu hefur fengið margar eyrnafíkjur frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, síðustu daga. Það var samt sem áður með ólíkindum að heyra lögreglumanninn segja það fullum fetum --- komandi úr stórborg í Evrópu --- að á skemmtistöðum hér í Reykjavík að því er mig minnir, hafi hann, séð ívið meiri merki um eiturlyfjasölu og um eiturlyfjaneyslu en í Stokkhólmi.

Þetta er auðvitað með ólíkindum og sviptir frá þeim potemkíntjöldum sem maður hefur e.t.v. haft uppi gagnvart sinni eigin veröld. Ég vissi ekki að ég lifði í þessari veröld, herra forseti. Ég vissi ekki að ég byggi í samfélagi þar sem einn tuttugasti af 14 og 15 ára börnum hefur prófað amfetamín og sjötti hver drengur í Reykjavík 14--15 ára hefur reykt hass. Ég er ekki að segja að þessi veröld sé ekki til. Þessar staðreyndir byggja á upplýsingum sem ríkisstjórnin hefur aflað í gegnum rannsóknir þar til bærra manna. En þetta var veröld sem ég hélt að væri ekki í kringum mig, herra forseti.

Ég get þess vegna ekki dregið aðra ályktun af þessu en þá að sú stefna sem uppi hefur verið hafi brugðist. Með hvaða hætti ætlar hæstv. ríkisstjórn þá að takast á við þennan vanda? Þá kemur þessi moðsuða, ekki bara þetta frv. hér til laga um áfengis- og vímuvarnaráð, sem engu máli skiptir í þessari baráttu, heldur kemur líka þessi skýrsla sem ég hef hér drepið á af og til. Hún er fróðleg fyrir þær sakir að í henni er að finna framkvæmdaáætlanir ráðuneytanna um það hvernig þau ætla sér að taka á þessum málum. Fyrir utan drjúgmikinn part af þeirri áætlun og þeirri lýsingu sem kemur fram undir kafla dómsmrn., þá eru þetta ekkert annað en orð. Það er ekkert í þessu sem ég, sem foreldri, get fest minn krók í og sagt: Ég er þakklátur fyrir þetta vegna þess að þetta er líklegt til þess að draga úr því að mín börn verði eiturlyfjum að bráð. --- Nánast ekki neitt.

[18:45]

Hvert einasta foreldri sem mundi lesa þann orðavaðal sem þessar framkvæmdaáætlanir eru hlýtur að taka undir þetta. Það sem hérna er að finna --- og ég hef þegar sagt að ber ekki að lasta --- eru meðferðarúrræði og það er líka tekið með nokkrum hætti á því, bæði undir hluta af þeim kafla sem fjallar um fjmrn. og eins um dómsmrn., með meira afli en áður, hvernig á að koma í veg fyrir að þessum efnum sé smyglað til landsins. Það er ágætt. Verjumst innflutningi og setjum endilega fjármuni í að hjálpa þeim sem hafa lent í þessari miklu ógæfu en við skulum líka setja fjármuni í að reyna að koma í veg fyrir að fórnarlömbin verði fleiri. Og það er það sem vantar. Í fyrsta lagi vantar stefnuna og ég er ekki að segja að ég hafi þessa stefnu. Ég er ekki að segja það en setjum líka fjármuni í þetta. Fjármunirnir eru ekki til staðar. Ef hæstv. heilbrrh. er sammála mér um að þetta sé líklega það sem kann að verða mesta mein næstu áratuga hlýtur hann líka að vera því sammála að það verður með einhverjum hætti að setja fjármagn í þessar forvarnir. Ekki er nóg að setja fram stefnur sem eru óljósar og loðnar, menn verða með einhverjum hætti að taka raunhæft á málunum og það er það sem ég auglýsi eftir, herra forseti. Ákall mitt um þá stefnu nær engum grunni í þeim framkvæmdaáætlunum sem liggja fyrir. Hún nær engum grunni í þeirri innantómu og hégómlegu stefnu sem ég er að lesa að sé samþykkt ríkisstjórnarinnar í skýrslunni og enn síður, herra forseti, eykur það trúnaðartraust mitt á framtíðinni að lesa það frv. sem við erum að fjalla um vegna þess að í því felst ekki neitt. Það felst ekkert í því nema að setja upp eitthvert átta manna ráð kontórista úr ráðuneytum sem reynslan sýnir nú þegar að hafi í engu dugað. Það er bara staðreyndin, herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið miklu betra að láta þetta mál liggja og reyna að vinna það með einhverjum öðrum hætti. Þetta mál kom fyrir þingið í fyrra og það lá þá, ekki bara vegna þess að einhver óvilji væri af hálfu stjórnarandstöðunnar heldur vegna þess að það var beinlínis vantrú á þetta frv. meðal þeirra þingmanna sem má líka telja til stjórnarliðsins vegna þess að þetta gengur svo ótrúlega skammt, herra forseti.

Ég hef í þessu máli farið nokkuð yfir það sem mér finnst vera mestu gallarnir við frv. Ég rifja það upp, herra forseti, að það er stór galli að ekki skuli vera tekið á afbrotaþættinum í þessu. Ég rifja það líka upp að það er stór galli að tóbaksvarnirnar skuli ekki vera undir þessu líka því að ég tel að það sé óslítandi þráður milli raunhæfra tóbaksvarna og raunhæfra varna gegn öðrum sterkari fíkniefnum. Ég held líka að það sé einfaldlega ekki góð latína að fara þá leið að láta heilbrrh. skipa átta menn í þetta ráð, einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn síðan frá einhverjum sjö ráðuneytum sem talin eru upp. Síðan eru verkefni þessa ráðs þannig að erfitt er að festa hönd á hvað það er sem á raunverulega að koma út úr þessu. Gott og vel. Það kann vel að vera að þörf sé á að samhæfa og skipuleggja störf hinna mismunandi ráðuneyta en það kemur líka fram að ekki er lengur samræmingarnefnd. Dugar hún ekki, herra forseti? Er nauðsynlegt að samþykkja þetta og koma þar með að þessu samþykktu í veg fyrir að við getum með meiri vinnu tekið betri ákvarðanir sem mundu leiða til miklu betri úrræða, þ.e. ráðs eða stofnunar sem hefði miklu hnitmiðaðra verksvið og væri skipað öðruvísi og hefði breiðara verksvið en að samþykkja þetta? Það er skoðun mín að þetta sé fyrst og fremst gert til að skapa ríkisstjórninni eins konar alibí, herra forseti, til að geta bent á að þeir hafi gert eitthvað vegna þess að ég rek mig á það þegar ég les framkvæmdaáætlanirnar, nánast hverja einustu þeirra, og þremur sinnum áður en að þeim kemur, að allar leggja þær til að samþykkja þetta frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð sem var meira að segja laskað stórlega einhvers staðar á vegferð sinni og gert að hálfónýtum aumingja vegna þess að það var einhver sem greip í taumana og kom í veg fyrir eins og segir í kaflanum um dómsmrn. að það tækist að taka á afbrotaþættinum líka.

Herra forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa stefnu ríkisstjórnarinnar sem er frekari útfærsla á stefnumörkun hennar frá desember 1996 og er að finna í formála skýrslunnar, með leyfi forseta. Ég geri það bara til að sýna a.m.k. hvað mér finnst hún vera lítið annað en innantóm orð:

,,1. Að áfengis- og vímuvarnaráð taki til starfa 1. janúar 1999 enda verði frumvarp til laga um ráðið samþykkt nú á vorþingi.

2. Að fela ráðuneytum sem vinna að verkefnum á sviði áfengis-, tóbaks- og vímuvarna að tengja þau með áberandi hætti við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og eftir því sem kostur er áætluninni Ísland án eiturlyfja.

3. Að skipaður verði vinnuhópur sem í eiga sæti yfirmenn tollamála og lögreglumála og fulltrúi utanríkisráðherra. Dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra skipi hópnum formann. Verkefni vinnuhópsins verði að skoða til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að loka fyrir ólöglegan innflutning fíkniefna. Hópurinn skili tillögum til ráðherra dómsmála og fjármála á árinu 1998.

4. Að 2 millj. kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar á árinu 1998 verði varið til rannsókna á sviði áfengis-, tóbaks- og vímuvarna samkvæmt nánari ákvörðun nefndar ráðuneyta um samræmingu aðgerða vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum.``

Drottinn minn dýri. Heilar 2 millj. kr. til rannsókna á þessum alvarlega þætti. Og vegna áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja:

,,1. Að óskað verði eftir því að árlegt framlag ríkisins úr Forvarnasjóði til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hækki í 4,5 millj. kr. enda hækki framlag Reykjavíkurborgar samsvarandi.

2. Að Samband íslenskra sveitarfélaga gerist aðili að áætluninni Ísland án eiturlyfja og tilnefni fulltrúa í verkefnisstjórn áætlunarinnar.

3. Að verkefnisstjórn áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja hafi reglulega samráð við þá aðila sem starfa að vímuvörnum.

4. Að öll verkefni sem Forvarnasjóður styrkir verði tengd áætluninni Ísland án eiturlyfja eftir því sem kostur er og að stjórn sjóðsins hafi samráð við verkefnisstjórn áætlunarinnar við árlega úthlutun.``

Herra forseti. Þetta eru allt saman fögur orð en hvar er stefnan? Hvar liggur það fyrir einhvers staðar af ríkisstjórnarinnar hálfu hvernig við ætlum að einhenda okkur í það verk að forða æsku Íslands frá því að verða mestu meinsemd nútíðarinnar að bráð? Það kemur hvergi fram. Maður les skýrslu eftir skýrslu og það koma alltaf fram orð og þau eru alltaf brennd sama marki og skýrslan vegna þess að hana vantar einn alvarlegan hlut. Hér er nefnilega rakið ítarlega hvað það er sem hæstv. ríkisstjórn gerði á árinu 1997 og það er umræðukafli um það og maður les þann umræðukafla og þar stendur upp úr að það er eitt sem vantar. Hvergi er lagt mat á árangurinn. Ég vil ekki segja, herra forseti, og ekki geta mér þess til að það sé vegna þess að tölurnar sýni auðvitað að árangurinn er ansi lítill. Hægt væri að segja á grundvelli hinna grjóthörðu talna sem liggja fyrir að hann væri enginn vegna þess að ástandið hefur versnað. Það getur auðvitað verið, herra forseti, að ef þetta sem hefur þó verið gert hefði ekki verið framkvæmt væri ástandið verra. Ég veit það ekki. Það væri e.t.v. hægt að segja það. En það liggur kristaltært fyrir að það sem við, íbúar í þessu landi og foreldrar í þessu landi viljum, því er ekki mætt. Og hvað viljum við? Við viljum sjá aðgerðir sem bera árangur. Við erum að eyða milljörðum á milljarða ofan í alls konar hluti sem við teljum sjálfsagða. Vegi og brýr og flugvelli, menntakerfið o.s.frv. og allt er það gott og blessað og allt á það fullan rétt á sér.

Menn hafa talað um góðæri í landinu, herra forseti, og góðærið er vissulega til staðar og það mun ekki daprast miðað við þær spár sem eru um árferði til lands og sjávar á næstu árum. Er þá ekki komin tíð til þess að menn taki höndum saman um að verja alvöruupphæð til að berjast gegn þessum vágesti, að menn séu ekki með sýndarmennsku eins og mér þykir þetta frv. vera, að menn séu ekki að vesenast í einhverjum smáatriðum eins og mér finnst svo oft að menn séu að gera? Menn leggi raunverulega vinnu í þessi mál. Ef hæstv. heilbrrh. fæli heilbr.- og trn. að leggja fram slíka stefnu er ég viss um að það væri hægt. Ég hef ekki þessa stefnu núna en það sem mér þykir miklu verra er að þeir sem eiga að hafa hana hafa hana ekki heldur.

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér í þessari ræðu að fara yfir framkvæmdaáætlanir þessara ráðuneyta m.a. til að sýna fram á það sem ég tel vera alvarlegan ágalla hjá heilbrrn. að í þeim kafla sem fjallar um heilbrrn. verða menn fyrir verulegum vonbrigðum þegar þeir eru búnir að lesa hann. Ég get ekki annað en sagt að þegar ég les þennan kafla um heilbrigðis- og tryggingamálin, hvað þar hefur verið gert og hvað menn ætla að gera, þá verð ég bara hissa. Það er svo einfalt mál, herra forseti. Herra forseti. Ég tek það fram að e.t.v. nýti ég mér möguleika minn á seinni ræðu til að fara betur í þær áætlanir sem liggja fyrir um einstök ráðuneyti en ég tel, herra forseti, að það sé illa af stað farið með þetta áfengis- og vímuvarnaráð eins og það er lagt upp af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég held að þá séu menn að loka möguleikunum til að búa til raunverulega oddhvassa stofnun og oddhvasst batterí sem gæti tekið á breiðari þáttum, haft breiðara svið undir, tekið á öðrum skyldum þáttum sem ég tel að ég hafi fært rök fyrir að sé nauðsynlegt að hafa undir í þessari umræðu líka. Ég tel eins og ég hef margsinnis sagt að verkefnin séu illa skilgreind, illa útfærð, ég tel að skipanin sé röng og ég tel að það vanti verkefni þarna undir. Ég tel, herra forseti, án þess að ég ætli að leggja í meiri háttar víking í þessu máli, að það hefði átt að skrifa þetta frv. með allt öðrum hætti og það hefði átt að liggja fyrir í allt annarri gerð.

Hæstv. ríkisstjórn verður að eiga það við sig hvernig hún vill taka á þessari framtíð sem ég hef verið að draga upp en mér sýnist að sé það þetta sem liggur fyrir og þau verkefni sem liggja fyrir í greinargerð muni þau hvergi nærri duga og þá mun sú öfugþróun sem við sjáum núna liggja fyrir í skýrslum, og ég hef drepið á, halda áfram og við sem höfum talið okkur vera eyland fjarri vettvangi viðskipta og neyslu þessara efna, munum finna það eða a.m.k. börnin okkar verða ekkert öðruvísi en börnin úti í Evrópu. Þau munu verða í jafnmikilli hættu á að verða fórnarlömb eins og þau og þó hafði maður staðið í þeirri trú alveg fram á þessa síðustu mánuði að sú veröld sem hefur verið búin til hér og ég hélt ég byggi í er bara allt önnur en ég hélt. Það er talsvert nöturlegt að horfa fram á það og talsvert nöturlegt að sjá fram á þessa framtíð. Verst er, herra forseti, að horfa fram á að hæstv. ríkisstjórn sem á að vera tæki okkar í þessari baráttu er því miður á villigötum.