Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 18:57:53 (7503)

1998-06-04 18:57:53# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[18:57]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða var afar athyglisverð. Hér var tætt niður frv. um áfengis- og vímuefnavarnaráð en hverjar voru tillögurnar? Þær voru engar og það kom fram oft í ræðu hv. þm. að hann hafði engar tillögur.

Ég er sammála hv. þm. þegar hann segir að tóbaksvarnir séu varnir númer eitt því að það er fyrsta fíknin sem menn ánetjast. Það er þess vegna sem við höfum lagt höfuðáherslu á tóbaksvarnir og margfaldað fjármagn í tíð þessarar ríkisstjórnar til tóbaksvarna. Við erum núna að sjá árangur af því.

Af hverju eru tóbaksvarnirnar ekki inni í þessu frv.? Það er vegna þess að við erum að vinna með Krabbameinsfélaginu varðandi tóbaksvarnirnar og þetta er í fyrsta skipti sem við erum að leggja fram námsefni fyrir sjötta, sjöunda og áttunda bekk í öllum grunnskólum landsins varðandi kennsluefni í tóbaksvörnum.

Hv. þm. sagði að ekki væri lagt fram meira fjármagn til forvarna en áður. Það er einfaldlega rangt. Þegar stefna ríkisstjórnarinnar í forvörnum var kynnt sumarið 1996 fylgdu 125 millj. það árið, 125 millj. þetta ár og það síðasta þannig að við erum að leggja miklu meira til forvarna en nokkru sinni fyrr. Þetta frv. er gert til að samhæfa störf þeirra sem vinna að forvörnum. Löggæslu, tollgæslu, heilbrrn., félmrn. o.s.frv. Ég skal hlusta í kvöld á þær tillögur sem fram koma um forvarnir því ég held að þetta hljóti að vera sameiginlegt mál okkar þingmanna. En mér finnst það lítils virði að tæta niður frumvarp og koma með enga tillögu í staðinn.