Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 19:10:37 (7509)

1998-06-04 19:10:37# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[19:10]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega ekki mikið samræmi í því, ef menn telja sig vera að efla tollgæslu að einhverju leyti --- ég skal ekki leggja dóm á það, ég þekki það ekki í einstökum atriðum --- að á sama tíma séu menn að forminu til að veikja stórkostlega möguleika tollgæslunnar til eftirlits með farþegum. Þegar ekkert samspil er lengur til staðar milli vegabréfaskoðunar og engar upplýsingar liggja fyrir um hvaða farþegar eru að koma til landsins frá Schengen-svæðinu, frá meginlandi Vestur-Evrópu til Íslands, þá er alveg augljóst að möguleikar tollgæslunnar til þess að hafa eftirlit, og það segja þeir menn sem vinna að þessum málum, eru veiktir stórkostlega. Þar fyrir utan er dagljóst að það verður mikill þrýstingur á Ísland, eins og Noreg, ef af Schengen-aðild verður, að hætta með öllu eftirliti með farangri frá Schengen-svæðinu vegna þess að sú regla er ekki almenn á svæðinu. Það verður reynt að hafa áhrif á íslensk stjórnvöld og þrýst á að ekki verði hreyft við slíku eftirliti.

Hér er að mínu mati stórt mál á ferðinni, og þó að það sé aðeins eitt af mörgu sem mælir gegn Schengen-aðild þá er það eitt út af fyrir sig nóg til þess að við höfnum slíkri aðild. Það er satt að segja aldeilis furðulegt mál sem menn eru að leggja út í þarna. Fyrir það eitt að þurfa ekki að sýna vegabréf einu sinni í ferðum inn á Schengen-svæðið frá Íslandi ætla menn í staðinn að hækka hér landamæragirðingar gagnvart öllum öðrum hlutum heimsins, greiða stórfé fyrir og síðan það sem við ræðum hér, í samhengi við fíkniefnin, munu möguleikarnir á að nýta þá kosti sem fylgja því að búa á eylandi úti í Atlantshafi til þess að verjast þessum vágesti stórlega veiktir.