Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 20:30:30 (7511)

1998-06-04 20:30:30# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, MF
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[20:30]

Margrét Frímannsdóttir (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var í ræðu minni þar sem ég var að tala um að svo virðist vera samkvæmt þeirri skýrslu sem hæstv. dómsmrh. skilaði til þingsins að um sé að ræða að þar hafi verið sett á stofn á vegum dómsmrn. fíkniefnastofa sem áætlað er að fái á þessu ári um 2 millj. kr. og þessi fíkniefnastofa svokallaða er við embætti ríkislögreglustjóra og stofu þessari er ætlað ákveðið hlutverk og það er að safna upplýsingum um fíkniefnamál og vera miðlægur upplýsingamiðill um þessi efni bæði gagnvart stjórnvöldum og í alþjóðasamskiptum. Síðan er sagt að sérstakri fjárveitingu, 2 millj. kr., hafi verið varið til að leggja grunn að tölvu- og hugbúnaðargerð fyrir fíkniefnastofuna sem á m.a. að sjá um alþjóðleg samskipti, safna upplýsingum og vera miðlægur upplýsingamiðill. En samkvæmt verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs er þetta eitt af því sem kveðið er á um í 3. gr. að séu verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs. Ég nefndi að reyndar er á fleiri stöðum þar sem mér sýnist að um sömu verkefni og hafa verið ákveðin í öðrum ráðuneytum og jafnvel settar fjárveitingar í sé að ræða og þau sem eru áætluð í 3. gr. þessa frv. um áfengis- og vímuvarnaráð.

Í störfum heilbr.- og trn. báðum við um frekari skýringar á þessum verkefnum sem ekki höfðu borist og eftir því sem ég best veit hafði formaður nefndarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, óskað eftir því að bókaðar væru sérstaklega í nefndinni þær spurningar sem beðið var um skrifleg svör við sem eins og fram kemur í áliti því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson mælti fyrir áðan að þá höfðu þau svör ekki borist en þó var gerð tilraun til þess í bréfi sem er dagsett 29. apríl fyrir rúmum mánuði. Þar er gerð tilraun til að svara spurningum um 1. tölul. 3. gr. frv. varðandi eftirlitshlutverk ráðsins og fór ég yfir það fyrir stuttu.

Í grg. með frv. um áfengis- og vímuvarnaráð kemur heldur ekki fram neitt nákvæmlega, hvorki um það hvers vegna skipan ráðsins er eins og um getur í 2. gr. og ekki heldur um verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs. Ég hef áður skýrt frá því að ég tel að í hv. heilbr.- og trn. hefði mátt ná samstöðu um þetta mál ef það hefði á einhvern hátt verið tekið tillit til þeirra óska sem komu frá stjórnarandstöðunni. Þær óskir voru þess efnis að það yrði samstarf, samráð milli minni hluta og meiri hluta um skipan í ráðið. Þar væri um tvær leiðir að ræða. Vegna þess að hæstv. ráðherra hefur talað um að stjórnarandstaðan komi ekki með neinar tillögur, eins og kom fram í máli hennar áðan, var það þannig að minni hlutinn í heilbr.- og trn. taldi að þar væri um tvær leiðir að ræða. Annars vegar að kjósa áfengis- og vímuvarnaráð á Alþingi þar sem skiptist jafnt milli flokka, svipað og gert hefur verið með áfengisvarnaráð, og hin leiðin væri sú að þarna væri vægi sveitarfélaganna aukið til muna á kostnað ráðuneytanna. Heilbrrn. væri það ráðuneyti og hugsanlega dómsmrn. sem ættu að dekka allan þátt ríkisstjórnarinnar, þ.e. hlutverk ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Í hæsta lagi yrðu þau ráðuneyti þrjú, þ.e. dómsmrn., heilbrrn. og félmrn. Önnur ráðuneyti væru látin víkja og sveitarfélögin fengju þarna aukið vægi sem og fulltrúi frá félagasamtökum sem hefðu unnið að þessu og voru nefnd þar sem dæmi samtökin Vímulaus æska, foreldrasamtökin, sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir vel til. Það var því um ákveðnar tillögur að ræða í þessum efnum.

Hvað varðar verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs vildum við aðeins fá nánari útfærslu á þessum verkefnum og það yrði þá farið í þá vinnu, miðað við þá skýrslu sem barst hingað í mars frá hæstv. dómsmrh. að skoða þau verkefni sem væri þegar búið að setja niður hjá öðrum ráðuneytum og útfæra síðan í þessari grein þau verkefni sem væru eftir og þau verkefni sem nú þegar hefðu verið sett niður hjá öðrum ráðuneytum en við teldum að ættu að heyra undir áfengis- og vímuvarnaráð. Þá vildum við bæta inn í afbrotaþættinum, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á í framsögu sinni fyrir nál. vegna þess að á sínum tíma hefði verið umræða um að taka hann inn í þetta ráð, og reyndar upphaflegu tillögurnar um að það ætti að vera afbrotaráð líka, þ.e. að taka sérstaklega á afbrotaþættinum. Þá vorum við með tillögur um það að tóbaksvarnanefndin, tóbaksvarnirnar féllu undir áfengis- og vímuvarnaráð.

Við settum því fram ákveðnar tillögur en hins vegar var enginn vilji til þess að ræða neitt af þeim tillögum eða hugmyndum sem við höfðum. Það mátti engu breyta. Jafnvel þó svo að það fælist í máli einstakra nefndarmanna að þeir gætu hugsað sér að skipun ráðsins væri með öðrum hætti væri það þannig að frv. ætti að fara í gegn óbreytt. Þar með var í raun búið að segja minni hlutanum í hv. heilbr.- og trn. að starf okkar væri í sjálfu sér ekki annað en það að við gætum kallað einhverja fyrir nefndina ef við vildum, við gætum varpað fram spurningum en í sjálfu sér ætti ekkert við þær að gera. Engin þessara tillagna fékk nokkurn minnsta hljómgrunn hjá nefndarmönnum og ég býst við því að samráð hafi verið haft við hæstv. ráðherra. Tillögur okkar lágu því fyrir í þessum efnum.

Þá vildum við að byrjunarverkefni áfengis- og vímuvarnaráðs eða afbrota- og vímuvarnaráðs, eftir því sem það héti ef tillit væri tekið til brtt., væri skýrt alveg frá upphafi að fyrsta hlutverk þess væri að taka saman allar þær upplýsingar sem fyrirliggjandi eru um eiturlyfjaneyslu, afleiðingar eiturlyfjaneyslu, áhættuhópa og fleira í þeim dúr sem liggja hvergi fyrir. Þessar upplýsingar liggja nefnilega hvergi fyrir á einum stað. Til er skýrsla sem heitir Vímuefnaneysla ungs fólks, umhverfi og aðstæður, sem er frá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála og Þórólfur Þórlindsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Gunnar Bernburg og Viðar Halldórsson unnu. Í þeirri ítarlegu skýrslu er reynt að fara yfir hvaða þættir það eru sem hafa helst áhrif á það eða eru orsakavaldar þess að unglingar eða börn ánetjast eða fara út í fíkniefnaneyslu. Það eru auðvitað uggvænlegar tölur sem hægt er að lesa út úr þessari skýrslu um gífurlega neyslu ungs fólks á vímuefnum. Samt sem áður kemur fram í skýrslunni að reikna megi með að það sé kannski heldur meira en fram kemur í skýrslunni vegna þess að þarna hafði aðeins náðst til þeirra barna sem eru í skólunum, ekki þeirra sem þegar hafa ánetjast fíkniefnum og hafa flosnað upp úr skóla eða mæta lítið eða illa. Við vitum auðvitað dæmi þess að skólarnir hafa hreinlega gefist upp á einstaklingum, eins og kom fram á ráðstefnu sem foreldrasamtök Vímulausrar æsku héldu fyrir nokkru að þá eru dæmi þess að ungum börnum hafi hreinlega verið vísað úr grunnskóla vegna erfiðleika eftir vímuefnaneyslu.

En frv. sem er til umræðu á að vera sett fram í beinu framhaldi af stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum sem var birt 3. des. eða varð til 3. des. 1996. Þar eru sett fram sömu markmið og eru í þessari tillögu eða í þessu frv. og reyndar er þar tekið sérstaklega á því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom inn á, tollgæslu, og talað um það í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar að fjárveitingar til löggæslu og tollgæslu verði hækkaðar. Þær hafa verið hækkaðar, en eins og ég nefndi áðan er sú hækkun sem kemur t.d. til fíkniefnalögreglunnar um fjölgun stöðugilda, 18 millj. kr., þar sem um er að ræða sjö stöðugildi og aðeins þrjú komu í hlut fíkniefnadeildar lögreglustjórans í Reykjavík og fjögur til embætta utan Reykjavíkur. En eins og ég rakti áðan hefur það ítrekað komið fram í umræðu á undanförnum árum að fíkniefnalögreglan hefur verið sárlega undirmönnuð og enda þótt þessi þrjú stöðugildi bæti vissulega úr þá gera þau það ekki að fullu.

Þess er skemmst að minnast að fyrir stuttu var hér sænskur lögregluþjónn sem skilaði því sem kallað hefur verið í fjölmiðlum ,,skýrslu`` sem ég vil frekar kalla ,,greinargerð`` því það er töluverður munur þar á. En það er mat hans, eftir að hafa dvalið hér og starfað með íslenskum lögregluþjónum í þrjá mánuði, að það ríki mjög alvarlegt eiturlyfjavandamál í Reykjavík. Í fréttaskýringu sem birtist í Degi 30. maí segir, með leyfi forseta:

,,Það ríkir alvarlegt eiturlyfjavandamál í Reykjavík. Það má auðveldlega líkja því við ástandið í Stokkhólmi. Þetta er dómur tveggja sérfræðinga íslensku og sænsku lögreglunnar, sem stóðu fyrir mánaðarlangri úttekt á vímuefnanotkun í borginni. Niðurstöðurnar eru í einu orði sagt hrikalegar og má segja að það hafi þurft spámann frá útlöndum til að opna augu landans. Sænskan sérfræðing sem hefur sérhæft sig í að lesa út úr augum og háttum einstaklinga hvort þeir eru undir áhrifum ólöglegra vímugjafa. Neyslan er mikil og fer fram fyrir að heita má opnum tjöldum. Og lögreglan er nánast bjargarlaus; viðurlög eru takmörkuð og stjórnvöld úrræðalaus.``

Og þessi sænski sérfræðingur bendir á að ,,í Svíþjóð sé það ólöglegt að vera í vímu og hægt að taka fólk í þvag- og blóðprufur en ekki hér á landi. Í Svíþjóð er ungt fólk 18 ára og yngra sent til meðferðar og ráðgjafar ef það mælist undir áhrifum og sektum er beitt. Hér á landi, ekki síst í Reykjavík, fer neyslan hins vegar fram fyrir opnum tjöldum og er lítið gert við því. Notkun ólöglegra fíkniefna er mjög útbreidd í næturlífinu á sama tíma og fólk í vímu þorir varla út fyrir heimili sín í Svíþjóð. Hér óttast neytendurnir ekkert og hreykja sér frammi fyrir lögregluþjónum. Sá sænski nefnir``, segir í blaðinu, ,,að hann hafi rekist á tvo 16 ára drengi á Laugaveginum um miðjan dag þar sem þeir reyktu marijúana óttalausir með öllu. Augljóslega mundi slíkt ekki gerast ef lögreglan væri sýnilegri og hefði yfir einhverjum úrræðum að ráða.

Ef ekkert er gert mun ástandið fara versnandi að mati skýrsluhöfunda.`` Segir í þessari grein í Degi: ,,Meðal þess sem þeir leggja til að gert verði er að banna með lögum að menn megi vera undir áhrifum fíkniefna. Að tveir íslenskir lögregluþjónar verði sérhæfðir í að greina fólk í vímu. Að fjölga lögregluþjónum í fíkniefnadeildinni`` --- og þá er talað um frá því sem nú er þegar búið er að taka inn þá fjölgun sem átti sér það --- ,,og láta þá fara í eftirlitsferðir dag og nótt, gangandi en ekki hangandi inni í bílum sínum. Að haldnir verði reglulegir fundir lögreglumanna, veitingahúsaeigenda og dyravarða. Að óeinkennisklæddir lögregluþjónar verði virkir inni á veitingastöðunum. Að lögreglan taki upp nána samvinnu við skólayfirvöld og félagsmiðstöðvar, einnig við Íþrótta- og tómstundaráð og félagsmálastofnanir. Bæta verður aðstöðu unglingaathvarfsins. Lögreglan á einnig að taka upp samvinnu við fjölmiðla með vikulegum upplýsingafundum.``

En síðan segir hér í niðurlagi það sem er lokaniðurstaða þessarar skýrslu þar segir, með leyfi forseta:

,,Mikilvægast af öllu er að þjóðfélagið allt skilji hversu grafalvarlegt ástandið er og vinni saman í stríðinu gegn fíkniefnunum. Þetta er ekki bara vandamál lögreglunnar, segir í lokaniðurstöðunum.``

Áfram segir í þessari grein, þar sem er viðtal við Þórarin Tyrfingsson, lækni hjá SÁÁ, sem hefur verið að vinna með heilbrrn., með leyfi forseta:

[20:45]

,,Skýrsluhöfundar fengu ýmsar tölulegar upplýsingar hjá SÁÁ og segir Þórarinn Tyrfingsson læknir á Vogi að boðskapur skýrsluhöfunda komi honum alls ekki á óvart.

,,Við erum búin að segja margoft frá þeirri sprengingu sem varð í neyslu vímuefna frá 1994. Frá þeim tíma hefur t.d. neysla á kannabisefnum þrefaldast. Einhvers staðar hljóta menn að vera að reykja þetta en möguleiki lögreglunnar til að bregðast við þessu er óviðunandi. Það er einfaldlega ullað á lögguna. Það eru engin viðurlög við því að vera í vímu eða vera með efni í vasanum og satt að segja er ósköp skiljanlegt að lögreglan kjósi frekar að taka menn fyrir umferðarlagabrot þar sem þeir geta haldið reisn sinni. Fimmtugir ökuníðingar í Ártúnsbrekkunni mega skjálfa á beinunum meðan fólk undir áhrifum ólöglegra vímuefna ullar á lögguna,`` segir Þórarinn.

Þórarinn veltir því fyrir sér hvort yfirvöld ætli að horfa aðgerðalítil á meðan Reykjavík er að verða að fíkniefnabæli. ,,Þetta lýtur auðvitað fyrst og fremst að stjórnvöldum því að lögreglan býr við óviðunandi vinnuaðstæður og neysla á veitingahúsum virðist viðgangast án þess að nokkur hætta sé á því að húsin missi leyfi. Það eru því miður stórar gloppur í þessu hjá okkur þótt skynsamlega sé tekið á sumum hlutum. Ef satt skal segja þá sjáum við ekki fyrir endann á þeirri aukningu sem orðið hefur eftir mitt ár 1995 ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða. Að óbreyttu er óraunhæft að ætla að lögreglan geti á nokkurn hátt spornað við þessu. Lögregluþjónar standa einfaldlega frammi fyrir því að missa sjálfsvirðinguna. Er ekki betra að gefa hraðaksturssektir með reisn en að láta ungt fólk í vímu rífa kjaft og ulla á sig?`` spyr Þórarinn.``

Virðulegi forseti. Er nema von að hér sé tekinn tími í að ræða þennan mikla vanda sem við blasir? Er nema von að stjórnarandstöðunni finnist --- við litla hrifningu hæstv. ráðherra eða stjórnarliða yfirleitt --- lítið að gert með því að búa til áfengis- og vímuvarnaráð þar sem eiga sæti sjö fulltrúar einstakra ráðuneyta og einn frá sveitarfélögunum? Er nema von?

Er nema von að okkur finnist það jafnvel þó við gætum nú treyst því að þeir sem gerst þekkja hjá lögreglunni hvernig ástandið er að sjónarmið þeirra væru virt, að þá verður það líklega aðeins einn hæstv. ráðherra sem mun skipa lögregluþjón sem þekkir til þess sem er að gerast á götum Reykjavíkurborgar og á götunum vítt og breitt um landið? Því að samkvæmt skýrslum sem við höfum séð þá er ekki orðinn til einn einasti þéttbýliskjarni á landinu þar sem hafa ekki komið upp einhver vandamál tengd vímuefnum. Er nema von að okkur finnist ekki nóg að gert þegar við sjáum fram á það að kannski verður þarna aðeins einn fulltrúi lögreglunnar?

Sú skýrsla eða sú greinargerð sem þessi sænski lögreglumaður vann í samstarfi við íslenskan er mjög ljót. Á síðustu dögum hafa ýmsir lagt sig fram um að draga hana í efa, þetta byggi meira á tilfinningu en vísindalegum rannsóknum. En ég býst við því að ef þau börn og þau ungmenni sem talað er við sem eru í neyslu væru spurð að því hvort þetta væri rétt mat hjá þessum sænska lögregluþjóni þá mundu þau nær undanbragðalaust svara: Já, það er það.

Enda segja tölurnar okkur, sem eru í skýrslu frá Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála, sem unnin er vísindalega, að sá hópur sem neytir harðra eiturlyfja og er í mikilli neyslu er mjög stór. Nú hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson farið yfir nokkrar tölur um þessa neyslu og hvernig hún er meðal 8., 9. og 10. bekkinga í grunnskólum landsins og í fyrstu bekkjum framhaldsskóla og alveg sérstaklega stingur í augu þegar spurt er um aðgengi nemenda í 10. bekk. Þeir eru spurðir að því hvernig sé að nálgast eiturlyf. Er það auðvelt? Er það mjög auðvelt? Og gerður samanburður við sams konar spurningu sem vísindamenn settu fram hjá öðrum þjóðum. Spurt er um hass og marijúana annars vegar og amfetamín hins vegar.

Það er þannig að í Noregi segja 25% þessa aldurshóps, 15 ára börn, að það sé mjög auðvelt að ná sér í hass og marijúana, 11% segja að auðvelt sé að ná í amfetamín. Í Svíþjóð eru 25%, eins og í Noregi, sem segja að það sé mjög auðvelt að nálgast hass, 14% að það sé auðvelt að nálgast amfetamín. Finnland, þar segja 14% að það sé auðvelt að nálgast hass og 6% amfetamín.

En Ísland? Þar eru 27% þessara nemenda í 10. bekk, þ.e. meira en fjórði hver nemandi sem getur fullyrt að það sé mjög auðvelt að nálgast hass og 14% segja að það sé mjög auðvelt að nálgast amfetamín. Og þessi könnun er gerð 1995.

Hvað sagði Þórarinn Tyrfingsson í viðtalinu í Degi og ég vitnaði hér í áðan? Hann sagði að það hefði orðið sprenging og neyslan hefði vaxið verulega síðan 1995. Það má því leiða að því líkur að aðgengið, hafi það verið auðvelt á þessu ári þá sé það enn auðveldara í dag vegna þess að neyslan hefur farið vaxandi. Þetta er mjög alvarlegt mál og þetta er eitthvert alvarlegasta vandamál sem við stöndum frammi fyrir.

Margt hefur verið gert á sviði forvarna, ég ítreka það til að fyrirbyggja misskilning hjá hæstv. ráðherra að mjög margt hefur verið gert t.d. á sviði tóbaksvarna, sem ég tel mjög gott, þó að það þurfi að grípa til enn frekari aðgerða því að reykingar hafa aukist innan grunnskólanna eftir því sem ég best veit.

En þegar átt er við það að þarna hafi verið, t.d. í tóbaksvarnaauglýsingum, notaðar fyrirmyndir úr íþróttum dreg ég það persónulega í efa. Og ég byggi það á viðtölum við unga fíkla, við foreldra þeirra, við sálfræðinga, kennara og félagsráðgjafa sem hafa verið að vinna með þessi vandamál, þegar ég dreg það stórlega í efa að þarna sé um áhættuhóp að ræða. Bara til að fyrirbyggja allan misskilning að þá dreg ég það í efa að sá hópur sem er hættast við að ánetjast fíkniefnum, fara út í fíkniefnaneyslu, sé sá sem leitar sér fyrirmynda í íþróttahreyfingunni. Því að barni eða ungmenni sem hefur í sér keppnisskap og vilja til íþrótta, íþróttaiðkunar, er ekki eins hætt við eins og hinum sem eru brotin af ýmsum ástæðum, eins og ég hef farið yfir aftur og aftur.

Þess vegna þarf að huga sérstaklega að þeim einstaklingum. Það er best gert með öflugri ráðgjöf innan skólans, með því að efla sálfræði- og félagsráðgjöf, sjá þessum börnum fyrir þessari þjónustu og fjölskyldum þeirra, ekki bara börnunum heldur allri fjölskyldunni. Það hefur margoft komið fram að það er ekki aðeins ungi neytandinn sem þarf á aðstoð að halda heldur öll fjölskylda hans. Ég hefði viljað sjá hæstv. ráðherra taka á þeim málum, eitthvað raunhæft að gerast og taka á því sérstaklega.

Hvað varðar umönnunarlaun til foreldra sem eiga börn sem eiga við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða, en foreldrar búa við mjög erfiðar heimilisaðstæður um leið og barnið ánetjast fíkniefnum alvarlega því þá er það orðið mjög veikt, þá er um fárveikan einstakling að ræða sem þarf á allri þeirri umönnun að halda sem hægt er að veita. Þar sem við búum nú ekki við góða meðferð eða fjölbreytt meðferðarúrræði, ekki nógu fjölbreytt meðferðarúrræði fyrir ungt fólk, lendir það oft á foreldrunum að hugsa um barn sem er í neyslu áður en til meðferðar kemur. Það er óskað eftir því og er æskilegt að foreldrar taki þátt í meðferðinni þannig að þau þurfa að gera það meira og minna á meðan á meðferð stendur. Síðan er ekki boðið upp á að meðferðin standi það lengi sem til þarf því að það þarf að bjóða upp á mjög mismunandi úrræði og þá reynir aftur á foreldrana að taka við og halda áfram að leiða þennan unga einstakling inn á rétta braut og ekki er hægt að sleppa hendinni af þeim nærri strax. Þetta þekkja allir þeir foreldrar sem hafa átt unga einstaklinga, börn sem hafa ánetjast fíkniefnum.

Önnur tillaga sem við, stjórnarandstaðan í heilbr.- og trn., tók alveg sérstaklega fyrir, því að við vorum með mjög margar tillögur í umræðunni --- það er ekki þannig að við séum að gera endalausar kröfur á hæstv. ráðherra án þess að koma með nokkuð úr að moða handa hæstv. ráðherra, það er bara ekki þannig. Við höfum lagt fram margar ítarlegar tillögur. Ein þeirra var að tekið yrði sérstaklega á afbrotum ungra fíkla. Í greinargerðinni með frv. er einmitt aðeins tæpt á þessu þó að ekki sé tekið á því í frv. sjálfu sem fskj. með frv. er stefna ríkisstjórnarinnar í fíkniefna- áfengis- og tóbaksvörnum. Þar segir m.a. á bls. 7 í frv. að auka þurfi að öryggi almennings með fækkun fíkniefnatengdra brota.

Maður veltir því fyrir sér og ég er búin að velta því fyrir mér aftur og aftur hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að framfylgja þessu fyrirheiti. Á bls. 9 er aðeins farið inn á þetta aftur í greinargerðinni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hefta skal aðgengi barna og ungmenna að þessum efnum`` --- þá er átt við við fíkniefni --- ,,og fækka fíkniefnatengdum brotum til að auka öryggi almennings. Efla á meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem vilja hverfa af braut neyslu, ekki síst meðferðarúrræði fyrir aldurshópinn 16--18 ára.``

Ég hef leitað bæði í greinargerð með þessu frv. sem og í stefnu ríkisstjórnarinnar, í skýrslunni sem gefin var út í mars 1998 um það hvernig eigi að taka sérstaklega á þessum málum. Þar finn ég ekkert annað en það að hér hefur verið kallaður til einhver erlendur sérfræðingur til þess að skoða meðferðarúrræðin sérstaklega og það er ekkert getið um það hver var niðurstaða hans, ekki í þessu. Einnig er talað um það að það þurfi að taka sérstaklega á þeim sem hafi verið í neyslu og brotið af sér og það er þá gert með þeim hætti sem gert er í dag, engin breyting þar á, þ.e. boðið er upp á meðferð við lok afplánunar dóms. Það á sem sagt að halda áfram þeirri stefnu að henda inn í fangelsi landsins ungum fíkniefnaneytendum, 16 ára og eldri, til geymslu og setja þá jafnvel í einangrun á meðan þeir eru í harðri neyslu og fárveikir.

Það vill svo til að ég er með hér líka í höndum umsögn frá unglingaráðgjafa hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur, sem heitir Davíð Bergmann Davíðsson, sem hann sendir vegna annars máls sem snertir unga vímuefnaneytendur og snertir þennan málaflokk mjög mikið en ekki er getið um í verkefnaskrá þessa ágæta áfengis- og vímuvarnaráðs, það er ekkert getið um það. Ég ætla, með leyfi forseta, að fara yfir bréfið sem liggur líklega hjá allshn. því að af einhverjum ástæðum var tillögu um aukin meðferðarúrræði fyrir ungt fólk, vísað til allshn. og ég býst við því að þar liggi þessi umsögn sem var send til mín þar sem ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Undirritaður vill byrja á því að fagna tilkomu þessarar þingsályktunar og vonar jafnframt að núna fylgi framkvæmd í verki og þeir sem eiga að sinna þessum málaflokki axli þá ábyrgð.

Þegar mér barst þetta bréf frá allsherjarnefnd Alþingis hugsaði ég að í raun væri hægt að skrifa langa ritgerð um það hvernig best væri að standa að meðferð fyrir unga fíkniefnaneytendur og unga afbrotamenn. Í flestum tilfellum fer þetta tvennt saman.

[21:00]

Það er ekki til ein einföld meðferð fyrir alla heldur verður hún að vera einstaklingsbundin og hugsuð ýmist sem langtíma- og skammtímameðferð.

Undirritaður er þeirrar skoðunar að Tindar hefðu vel getað sinnt stórum hluta af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Einnig telur undirritaður að það hafi verið stór mistök að leggja þá niður vegna þess eins að nýtingin hafi ekki verið nógu góð að 50 millj. kr. kostnaður hafi verið of mikið. Maður veit ekki hvort maður á að gráta eða hlæja þegar maður hugsar til þess sukks og svínarís sem hefur viðgengist í ríkisbönkunum þar sem laxveiðikostnaður einn og sér gæti greitt þessa meðferð. Þessi aðgerð kemur undirrituðum þannig fyrir sjónir eins og ef það hefði verið minna um bruna á síðasta ári væri full ástæða til að loka slökkviliðsstöðinni í Reykjavík þetta árið. Telur undirritaður næsta víst ef til stæðu svipaðar aðgerðir gagnvart slökkviliðinu eins og gagnvart Tindum stæði íslenska þjóðin á öndinni af hneykslan, jafnt Jón sem séra Jón. En það er bara svo undarlegt að þegar er um börn eða unglinga í vanda að ræða er forgangsröðin önnur eins og dæmin sanna.

Undirritaður er enn fremur þeirrar skoðunar að það sé framkvæmdarvaldinu um að kenna hvernig er komið fyrir þessum málaflokki og eru mýmörg dæmi þess hvernig komið er fyrir mörgum bara vegna afskiptaleysis stjórnvalda. Biðlistar á Barnaverndarstofu lengjast og voru langir fyrir með tilkomu hækkunar sjálfræðisaldursins. Ekki er einungis verið að tala um tvöföldun heldur þreföldun að mati forstjóra Barnaverndarstofu. Það er nokkuð sem getur ekki viðgengist vegna þess að þróunin hjá fíklum er svo hröð að bara biðtími eftir meðferð getur margfaldað vanda þeirra og allt farið illa. Hjá félagsmálastofnun höfum við horft upp á mýmörg dæmi þess hvernig efnileg ung manneskja getur misst algjörlega tökin á lífi sínu á mjög skömmum tíma og ekki eiga allir afturkvæmt úr því ferðalagi því að það er mjög auðvelt að eyðileggja barn á því viðkvæma mótunarskeiði sem unglingsárin eru.

Það er sorglegt að horfa upp á vandræðaganginn í íslensku þjóðfélagi þegar kemur að ungum afbrotamönnum. Eina úrræðið sem er til staðar fyrir fólk á aldrinum 16--17 ára er rammgert fangelsi. Þetta er notað hvort heldur sem um að ræða afplánun eða síbrotagæslu. Þetta er brot á barnaverndarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Undirritaður fullyrðir það að hér er eingöngu framkvæmdarvaldinu um að kenna.

Á undanförnum árum má segja að flestir fjölmiðlar og ráðamenn hafi migið utan í þennan málaflokk. Annað slagið kemur upp umræða um úrræðaleysi í málefnum ungra afbrotamanna og fíkniefnaneytenda og er það ýmist fagfólk eða foreldrar að grátbiðja um hjálp. Fjölmiðlafólk auglýsir það ömurlega ástand sem réttilega ríkir og svo skapast fjölmiðlafár í kringum umræðuna og ráðamenn gefa fögur loforð en sofna flestir von bráðar sínum þyrnirósarsvefni ásamt flestum frétta- og fjölmiðlamönnum landsins og einhvern veginn fer lítið fyrir efndum í draumalandi nema kannski rétt fyrir kosningar eða hvað?

Lítum á sögu ungs fíkniefnaneytanda sem býr ekki í draumalandi. Hann hefur verið að safna upp afbrotum án þess að það hafi verið hægt að grípa inn í hjá honum. Er það sökum algjörs úrræðaleysis. Hann var rekinn úr einu meðferðinni sem honum stóð til boða og er brottreksturinn sagður vegna þess að hann væri of erfiður í meðferð með öðrum og truflaði hina og að sú þjónusta sem hann þurfti á að halda væri ekki til staðar á þeim tíma. Núna er þessi sami einstaklingur bak við lás og slá í fangelsinu á Skólavörðustíg í síbrotagæslu sem þýðir í raun að hinn almenni borgari er verndaður fyrir honum.`` Samkvæmt því hlýtur hæstv. ráðherra að telja að sé verið að framfylgja þeirri ætlan ríkisstjórnarinnar að vernda hinn almenna borgara fyrir afbrotum fíkniefnaneytenda. En áfram með greinargerðina, með leyfi forseta:

,,Verið er að taka saman öll hans mál sem á síðan að leggja fyrir héraðsdóm. ... Þegar hann var rekinn úr meðferð þann 27. febrúar 1997 var hann með fimm mál á málaskrá, tæpum þremur mánuðum síðar, 13. maí 1997 var hann með 14 mál og þegar hann fór í fangelsi 10. maí 1998 voru 57 mál á ferilskrá hans hjá lögreglunni. Til þess að trappa viðkomandi niður af eiturlyfjaneyslu sem hann var í var hann settur á svokallaðan R-skammt í fangelsinu. Þegar undirritaður spurði hvað það þýddi var honum sagt að það væri rónaskammtur. Það er sorglegt að ekki hefur verið unnt að sinna neyðarkalli þessa unga manns. Þetta brot á barnasáttmálanum verður að teljast harla ólíklegt til þess að hjálpa þessum unga manni til að finna fótfestu í lífinu. Eða hvað er líklegt að hann læri í fangelsi þar sem hann afplánar dóm með eldri föngum sem ugglaust hafa frá ýmsum miður fögrum frægðarsögum að segja þessum unga manni.

Undirritaður fór fyrir viku til að heimsækja þennan sama dreng í fangelsi á Skólavörðustíg og átti við hann spjall í eina klukkustund. Þegar viðtalinu lauk og undirritaður var kominn út úr fangelsinu fékk hann þá tilfinningu að þetta yrði varla síðasta heimsókn hans í fangelsi til að hitta fyrir þennan sama unga mann. Af hverju? Jú, honum fannst hann nú orðið tilheyra heimi afbrotamanna og eins og hann orðaði það sjálfur þá hefur hann að engu öðru að snúa sér en því líferni sem hann hefur lifað og tilheyrir heimi afbrotmanna. Það skal tekið fram að saga þessa drengs er ekki einsdæmi. Á málaskrá viðkomandi er eftirfarandi: þrjú innbrot, einn minni háttar bruni, 21 þjófnaður, sjö líkamsárásir, eitt umferðaróhapp, eignatjón, fimm eignaspjöll, minni háttar skemmdarverk, ein tilkynning um hávaða innan dyra, tvö rán, eftirlýstur tvisvar sinnum, ölvun á almannafæri þrisvar sinnum, eitt fíkniefnabrot, ein fíkniefnadreifing og sala, fíkniefni, varsla og neysla fjórum sinnum, ólæti og slagsmál einu sinni, nytjastuldur vélknúinna farartækja tvisvar, tvisvar ofbeldi gagnvart lögreglumönnum.``

Þessi eini einstaklingur var í neyslu sem kostaði hann á bilinu 4.500--10.000 kr. á dag. Það sér hver maður að dæmi hans getur ekki gengið upp án mikillar aðstoðar. Hann þarf á meðferð að halda. Og Davíð Bergmann segir í þessu bréfi sínu um það, með leyfi forseta:

,,Meðferðarheimilið þarf að vera hugsað með það í huga að þarna sé bæði langtímavistun og skammtímameðferð. Skammtímavistun væri notuð sem greiningarmeðferð og í framhaldi af því metið hvort langtímameðferðar sé þörf. Það þarf að stofna vinnuhópa bæði með foreldrum og fagfólki um það hvernig sú meðferð eigi að vera í framkvæmd. Það sem virðist svo oft gleymast er að flestir ungir afbrotamenn eru helsjúkir fíkniefnaneytendur en ekki óþekkir strákar að brjóta rúður. Þess vegna er ekki bara nóg að taka í hnakkadrambið á þeim og senda þá á sjóinn eða í sveitina svo þeir geti orðið að manni.

Fyrir þennan dreng sem nefndur var hér að framan þarf langtímameðferð sem hugsuð er til tveggja eða þriggja ára. Hafa þarf í huga að þessi ungmenni hafa ekki aðeins misst úr skóla heldur oft talsverðan félagslegan þroska. Það þarf líka að skoða í hvaða formi stuðningurinn eigi að vera þegar út er komið og er nauðsynlegt að hann sé virkur bæði til aðstandenda og fíklana sjálfra. Það verður að hafa foreldrana virka í meðferðinni og aðgangur þeirra á að vera greiðfær og ekki um langan veg að sækja.

Hugmynd að meðferð fyrir þann sem kominn er styttra á veg í heimi afbrota og fíkniefna. Hafa verður í huga félagslegan þroska og hvernig staðan er í skólamálum og aðstæður heima fyrir. Fyrir þann sem þarf eingöngu að nýta sér þriggja mánaða meðferð er mjög mikilvægt að þeim sama einstaklingi og forráðamönnum verði veittur góður stuðningur og eftirlit eftir að meðferð er lokið. Það væri hægt að sjá allar mögulegar útfærslur á slíkri eftirmeðferð. Við getum tekið til fyrirmyndar þá eftirmeðferð sem Tindar voru með, göngudeildarþjónustu SÁÁ og svo væri örugglega hægt að taka sér erlendar fyrirmyndir í þessu samhengi. Varðandi félagslegan þroska er hægt að taka til fyrirmyndar það starf sem rekið er fyrir ungt fólk í SÁÁ o.fl. þar sem vettvangur er fyrir krakkana að skemmta sér saman í góðu umhverfi og er það að sjálfsögðu liður í félagslegum þroska og við eigum að sjálfsögðu að styrkja og hafa eftirlit með því.``

Þessi greinargerð er send í maí 1998 og undir hana ritar Davíð Bergmann Davíðsson, unglingaráðgjafi hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur, einstaklingur sem vinnur með fársjúka fíkniefnaneytendur alla daga.

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega þetta sem er að þegar þekking og reynsla þeirra einsatklinga sem eru að vinna við vandamálið frá degi til dags hefur ekki verið nýtt sem skyldi. Því miður mun langur tími fara í að samhæfa verkefni ráðuneyta með fulltrúum ráðuneyta en ekki að taka á því vandamáli sem við blasir. Við höfum í tvö ár tekið þetta upp af og til utan dagskrár á þingi og rætt um fíkniefnavandann og hvað sé til úrræða og það eina sem við höfum í raun og veru fengið er frv. sem hér er lagt fram um áfengis- og vímuvarnaráð.

Framlög til forvarnastarfsemi hafa aukist, gjald af áfengi hefur skilað miklu meira en það gerði áður og var hækkað, það er alveg rétt. Og það ber að þakka allt sem vel er gert. Hins vegar er vandamálið stórt, viðamikið, það er þekkt að hluta, og æ ofan í æ hafa foreldrar komið til okkar og leitað eftir varanlegum úrræðum og að á vandanum sé tekið. Fyrir fjórum árum kom lögreglustjóri frá Texas sem hélt hér nokkra fyrirlestra, fór hér um og skoðaði og kynnti sér ástandið í fíkniefnamálum á Íslandi, það eru rúm fjögur ár síðan eða meira.

Hann kom hingað á vegum dómsmrh. og lögregluembættisins í Reykjavík og núverandi ríkislögreglustjóra. Þá strax fór hann yfir alla þá þætti sem þyrfti að taka á. Hann benti okkur á það að vegna legu landsins ættum við að hafa möguleika til að taka á þessum málum langt umfram margar aðrar þjóðir sem eiga við þennan vanda að etja á sama stigi og við þar sem vandinn er á sama stigi og hann er hér hjá okkur.

Það var ekki hlustað. Alla vega komu engin úrræði í framhaldi af því. Skýrsla lögreglustjórans og þessa sérfræðings var ekki birt hér og hún hefur ekkert farið mjög hátt um álit hans á ástandinu hér á landi.

Við höfum viljað taka þátt í því að leysa vandann. Við höfum viljað að um hann væri mynduð þverpólitísk samstaða. Við höfum lagt fram ítarlegar tillögur í heilbr.- og trn. Við höfum lagt fram á þingi tillögur til úrbóta, stjórnarandstaðan hefur gert það, lagt fram þáltill. og lagt fram tillögur og brtt. við þau mál sem hafa verið til umfjöllunar í nefndinni. Það er í hæsta máta óréttlátt að segja að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt fram tillögur. Það er ekki þannig. Það veit hæstv. ráðherra og það vita stjórnarliðar allir og allir hv. þm.

Ég tel að það hefði verið hægt að ná um þetta mál víðtækri samstöðu. Við höfum lagt til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess að við viljum enn láta á það reyna hvort ekki megi standa að stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs með öðrum hætti en hér er lagt til. Við höfum enn boðið fram aðstoð okkar við að breyta ýmsum greinum þessa frv., færa það til betri vegar þannig að það sé að taka meira afgerandi á þeim vandamálum sem þekkt eru. Verkefnin verði þekkt, skipan ráðsins verði þekkt.

Virðulegi forseti. Ég vil svo aðeins benda á það að gildistökuákvæðið í frv. er miðað við 1. júní sem er nú þegar liðinn.