Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 21:15:42 (7513)

1998-06-04 21:15:42# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[21:15]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst leitt að heyra ef hæstv. ráðherra hefur fengið að heyra tillögur minni hlutans fyrst núna. Ég taldi það alveg klárt að þar sem það voru fulltrúar frá ráðuneytinu, frá heilbr.- og trn. á flestum fundum heilbr.- og trn. að þá hefði verið leitað eftir því við hæstv. ráðherra hvort hægt væri að ná samkomulagi um niðurstöðu þannig að allir gætu staðið að þessu.

Það er rétt að sveitarfélögin eru nú í fyrsta sinn að koma að þessu máli. Nú er í fyrsta skipti verið að skipa svona áfengis- og vímuvarnaráð. Ég er sammála því að þetta eigi að verða til. Sú skýring sem hæstv. ráðherra kom með, hið góða samstarf Krabbameinsfélagsins og tóbaksvarnaráðs sem ég veit að er til staðar, og að hún telji ekki réttan tíma til að tóbaksvarnanefnd komi inn í þetta ráð núna, þá skoðun er vel hægt að virða og fara betur yfir þau rök hæstv. ráðherra í því.

Sveitarfélögin koma ekki sterkt að þessu. Þau eiga aðeins einn fulltrúa. Þau koma ekki sterkt inn í þetta sem þó þyrfti í samræmi við hlutverk þeirra samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, eftir hækkun á sjálfræðisaldri. Þau koma ekki inn eins og þyrfti. Ég tel að frjálsu félagasamtökin ættu að koma þarna inn líka og að heilbrrn. og dómsmrn. ættu að fara með þessi mál. Ég gæti í hæsta lagi fallist á að ráðuneytin væru þrjú, þ.e. félagsmála-, dómsmála- og heilbrrn., og að þau ættu fulltrúa í þessu ráði en ekki önnur. Að þarna inn kæmu fleiri fulltrúar sveitarfélaganna og félagasamtaka.