Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 21:17:40 (7514)

1998-06-04 21:17:40# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[21:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi sveitarfélögin þá vil ég aðeins minna á að við erum búin að gera samning við átta sveitarfélög um vímuefnavarnir og ætlum að gera samninga við fleiri sveitarfélög. Við höfum unnið mjög vel með Reykjavíkurborg og m.a. opnað hér miðstöð í Reykjavík fyrir þá aðila sem á þurfa að halda. Við vinnum því mjög náið með sveitarfélögunum.

Mig langar aðeins að koma inn á annað sem hv. þm. kom hér inn á áðan, varðandi áhættuhópinn. Mér fannst það miður að hv. þm. sneri nokkuð út úr orðum mínum þegar ég talaði hér áðan um fyrirmyndir. Eins og ég sagði hér á undan er ekkert eitt ráð sem gildir. Þau eru mörg. Eitt af því sem okkar sérfræðingar meta mjög mikils er að hafa sterkar fyrirmyndir af ungu fólki sem laust er við fíkniefni. Það kemur ekki í veg fyrir það að ýmis börn og unglingar séu í meiri áhættu en aðrir. Við höfum sérstaklega tekið á þeim þætti.

Ég er ekki að segja, hér og nú, að við höfum náð utan um þann þátt en ýmis verkefni sem við erum t.d. að vinna núna með heilsugæslustöðvunum hér á Reykjavíkursvæðinu, varða sálfræðiþjónustuna. Hún er þar bundin heilsugæslustöðinni og gerir það að verkum að það er opnari leið fyrir unga fólkið að fá ódýrari sálfræðimeðferð en áður hefur verið.