Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 21:58:33 (7517)

1998-06-04 21:58:33# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[21:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samvinna um áfengis- og fíkniefnavarnir hefur aldrei verið meiri en nú, samvinna félagasamtaka, sveitarfélaga, skóla, heilsugæslustöðva, íþróttafélaga og foreldra. Við höfum kallað þessa aðila til okkar æ ofan í æ og fengið hjá þeim bæði reynslu og faglega þekkingu.

Um það að ekki næst samstaða á hinu háa Alþingi um hvernig skipað er í áfengis- og vímuvarnaráð er ekki stór ágreiningur. Mér finnst mjög mikilvægt að nefndin sé ekki allt of fjölmenn. Alltaf er hægt að fjölga í henni en það er erfiðara að fækka í henni þannig að ég held að það sé vel farið af stað. Í kvöld hefur komið í ljós að ágreiningur er um hvernig er skipað í nefndina og hann er sem betur fer ekki stór.

Varðandi það fræðslustarf sem er í skólum spurði hv. þm. að því hvort um væri að ræða aukið fjármagn. Á yfirstandandi ári held ég að ég muni rétt töluna að það hafi farið 14 milljónir í fræðslustarf beint til tóbaksvarna sem tengjast auðvitað öðrum fíkniefnavörnum, fyrir utan aðra minni hluti, sem sagt beint til fræðsluefnis og námskeiðahalds.

Hvað varðar fyrirspurnir frá dómsmrn. kann ég þetta ekki út í hörgul og hv. þm. verður að spyrja dómsmrh. en þær 35 millj. sem fóru sérstaklega til að styrkja lögregluna í vímuefnaleit vænti ég og treysti að hafi nýst á réttum stað.