Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:05:30 (7520)

1998-06-04 22:05:30# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að kalla eftir frekari svörum en ég vek athygli á því svari sem ég var að fá, að Krabbameinsfélagið og tóbaksvarnanefnd hefðu veitt þetta fjármagn til skólanna og það er umhugsunarefni að það skuli þurfa að koma fjármagn frá félagasamtökum eða félagi eins og Krabbameinsfélaginu og frá tóbaksvarnanefnd til skólanna í landinu til að sinna þessu brýna fræðslustarfi. Auðvitað ætti fjármagn frá þessum aðilum að renna annað og skólinn og menntmrn. að hafa lagt peninga í þetta. En nú er skólinn kominn til sveitarfélaganna og þá er mikilvægt að það sé stuðningur við það en það er fremur hlálegt að það skuli þurfa að koma úr þessum geira.

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera að spyrja dómsmrn. neitt út í þetta enda ekki tími til þess, ég á ekki von á að fá tækifæri til að vera með fyrirspurn til dómsmrh. áður en þingi lýkur í vor en ég bendi bara ráðherranum á það sem stendur á bls. 7 og ef ég væri að stýra þessum málaflokki mundi ég vilja vita hvernig milljónirnar væru notaðar sem ég hefði væntanlega barist fyrir. En það er alveg ljóst, við erum ekki bara að róa á sömu mið í þessu, við berum í brjósti löngun til þess að vinna bug á þessu hrikalega vandamáli og ekkert sem hefur verið gert hingað til hefur stemmt stigu við vandanum. Ekkert. Og hvergi hefur verið tekið ærlega á. Ég veit að það er löng þróun frá því hafist er handa með forvarnastarf og þar til það fer að bera árangur. Ég bara vona að það gerist og hef áður sagt að ég styðji hæstv. ráðherrann til allra góðra verka varðandi forvarnir og aðgerðir í fíkniefnamálum en ég ætlast þá líka til að hlustað sé á stjórnarandstöðuna og reynt að hafa samvinnu við hana í því sem skiptir máli.