Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:38:14 (7525)

1998-06-04 22:38:14# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:38]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hæstv. heilbrrh. tala eins og hér sé nóg af meðferðarúrræðum. Þá rifja ég aftur upp heimsókn mæðranna úr foreldrahópnum sem töldu að það vantaði sárlega meðferðarúrræði og ef ég man rétt voru þær að tala um heimili þar sem væri hægt að halda krökkunum meira í einangrun, fyrir utan, þannig að það væri hægt að taka þau út úr þessum fíkniefnaheimi. Ég spyr aftur: Eru einhver áform um slík heimili?

Hvað varðar fíkniefnasalana gefur náttúrlega auga leið að það eru sjálfsagt alltaf nýir og nýir aðilar sem þar koma að verki og alltaf er verið að finna ný og ný burðardýr. Einmitt þannig gengur þetta, það eru einhverjir nýir aðilar. En samt sem áður --- hverjir eru þeir sem sitja núna á Litla-Hrauni? Hvaða hópur er það sem tengist þessum heimi? Eru þeir í öðrum afbrotum eða er þetta sérfyrirbæri? Ég er einfaldlega að leita eftir því að ég held að það sé svo mikilvægt að hafa skilning á eðli þessa heims til þess að menn hafi hreinlega möguleika á því að finna ráð.

Ég hef horft á töluvert af kvikmyndum um baráttu lögreglunnar, m.a. hafa verið sýndar hér þáttaraðir í ríkissjónvarpinu um breska tollverði, gríðarlega spennandi, þar sem þeir hafa einmitt verið að fást við þennan mikla og stóra fíkniefnaheim. Ég hygg að það sé nokkuð góð lýsing á þessu. Það eru einhverjir sem fjármagna þetta. Það eru einhverjir sem skipuleggja og síðan eru það burðardýrin og svo eru aðrir sem taka við og dreifa þegar komið er á sölustað. En ég held að það sé afar brýnt að við reynum að afla okkur góðrar þekkingar á þessu til þess að ná árangri í baráttunni gegn fíkniefnavandanum.