Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:51:28 (7527)

1998-06-04 22:51:28# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:51]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur áður komið með slík viðvörunarorð sem hann var með hér áðan og þau eru ekki ástæðulaus. Ég hef látið gera á því nokkra úttekt hvaða áhættu við erum að taka í þessum efnum. Út úr því kemur það að við erum ekki að veikja tollgæslu og fíkniefnalögreglu með Schengen-samkomulaginu, enda væri það dýrkeypt.

Ég er ekki sammála hv. þm. um að hið eina sem við fáum út úr þessu samkomulagi sé að þurfa ekki að sýna vegabréf þegar við komum í erlenda höfn, því að ég tel að þjónusta við íslenska farþega í flughöfnum verði betri eftir að við gerumst aðilar.

Viðvörunarorð hans hafa verið tekin alvarlega og það hefur verið gerð á þessu athugun. Ég veit að það eru skiptar skoðanir meðal manna en niðurstaðan er sú að við erum ekki að veikja eftirlitið, hvorki tollgæslu né fíkniefnalögreglu nema síður sé. Það er mikið samstarf milli þessara aðila á Schengen-svæðinu.