Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 22:53:18 (7528)

1998-06-04 22:53:18# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[22:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra viðbrögðin þá verð ég að segja að ég tek afar lítið mark á staðhæfingum af þeim toga sem fram komu í máli hæstv. ráðherra, á meðan ekki er lagðar fram skriflegar greinargerðir um þessar úttektir sem hæstv. ráðherra vísar í. Þar þyrftu að koma við sögu óháðir aðilar sem líta á þessi mál hlutlægt og ekki með gleraugum þeirra sem eru að þrýsta Íslandi inn í Schengen-fyrirkomulagið. Það er skylda stjórnvalda að koma fram með slíkar upplýsingar hér á Alþingi fyrr en seinna og sýna fram á að eitthvað sé á bak við yfirlýsingar af þessu tagi.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að sitthvað af því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra hér, um kosti hins svonefnda Schengen-fyrirkomulags, um bætta þjónustu við farþega í flughöfnum, er svo innantómt og yfirborðslegt að mér finnst það bera vott um að hæstv. ráðherra hafi ekki sett sig inn í það hvað þarna er á ferðinni.

Ég er alveg sannfærður um það að ef þingheimur og ráðherrar hefðu fyrir því að setja sig inn í það sem raunverulega býr að baki og hvaða hættur eru á ferðinni í sambandi við þessa Schengen-aðild þá mundu menn ekki vinna að því að koma Íslendingum inn í þetta fyrirkomulag.

Þetta Schengen-fyrirkomulag varðar eingöngu Vestur-Evrópu, að hækka girðingarnar út á við. Auðvitað reyna menn þar að hindra smygl inn á svæðið. En þegar inn á svæðið er komið þá er um opið flæði að ræða, lítið eftirlit og möguleikarnir langtum minni en á meðan landamæraeftirliti var haldið uppi. Önnur ríki geta haft ástæðu til þess, af ýmsum ástæðum, að reyna að liðka þarna til. Fyrir Ísland sem eyríki í Atlantshafi er það, að afnema hér vegabréfaskoðun fyrir svo sem ekki neitt gegn þeim mikla fórnarkostnaði sem um er að ræða, mikið óráð, virðulegur forseti.