1998-06-04 23:02:19# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:02]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. frá umhvn. þar sem fram koma mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að mótmæla harðlega aukinni losun og auknum umsvifum kjarnorkuendurvinnslustöðva í Dounreay og Sellafield sem ógnað geta hreinleika hafsins og nýtingu sjávarauðlinda umhverfis Ísland og ganga gegn alþjóðasamningum, m.a. OSPAR-samningnum um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins.

Alþingi ítrekar jafnframt fyrri mótmæli sín með vísan til þingsályktunar frá 8. febrúar 1988, um mótmæli gegn stækkun endurvinnslustöðvar í Dounreay fyrir úrgang frá kjarnorkuverum, og þingsályktunar frá 17. desember 1993, um viðbrögð vegna starfsleyfis fyrir THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield.``

Eins og fram kemur, hæstv. forseti, í þessum mótmælum þá telur umhvn. og væntanlega þingheimur allur að hér sé um svo alvarlega þróun að ræða að óhjákvæmilegt sé að Íslendingar beiti öllum þeim þyngstu og sterkustu mótmælum sem tiltæk eru, til þess að gera þessum nágrönnum okkar ljósa alvöru málsins. Við vitum að ríkisstjórnin hefur þegar beitt sér í þessu máli gegn breskum stjórnvöldum og komið mótmælum á framfæri þar. Við vitum einnig að hæstv. umhvrh. hefur átt fundi með starfsbróður sínum í Bretlandi. Enn fremur hefur hæstv. utanrrh. tekið þetta mál til alvarlegrar umfjöllunar í samskiptum sínum við breska ráðamenn.

Þá er einnig rétt að benda á að þetta mál hefur verið tekið upp á vettvangi Norðurlanda. Þar höfum við átt samleið með frændþjóðum okkar sem eiga mikilla hagsmuna að gæta ekki síður en við.

Virðulegi forseti. Í greinargerð sem fylgir þáltill. er gerð grein fyrir þeim efnisatriðum og aðalatriðum sem búa að baki tillögunni. Ég geri það ekki að ítarlegu umræðuefni hér að þessu sinni.

Ég tel afar brýnt að þingið fari ekki svo heim en að þetta mál fái fyllstu athygli og þessum skilaboðum verði komið með fullri festu til þeirra sem fá einhverju ráðið um losun þessa úrgangs sem vekur með okkur ugg.

Ég vil ekki grípa hér til fregna sem ekki hafa fulla staðfestu. Ég kemst þó ekki hjá því að minna á að nú að undanförnu hafa verið umræður í Bretlandi um önnur atriði sem benda til þess að losung sé á starfsemi þessara endurvinnslustöðva. Ekki dregur það úr áhyggjum okkar.