1998-06-04 23:16:23# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:16]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir þá sköruglegu tölu sem hann flutti og áherslur og eins líka fyrir að hafa frumkvæði í umhvn. að því að þetta mál var tekið upp og samþykkt þó raunar hefði mátt gera það fyrr. En hingað er það komið og fær þennan tíma og ég tek undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að við eigum að beita áhrifum okkar á öllum sviðum alþjóðasamstarfs sem við eigum aðild að. Ég veit að þeir þingmenn sem hér eru inni hafa gert það og sá sem hér stendur gerði það síðast á ráðstefnu þingmanna sem tengist norðurheimskautssamstarfi hinna átta þjóða. Þó að það sé e.t.v. ekki sterkur vettvangur tel ég engu að síður að þetta eigi að koma fram þar. Við eigum sömuleiðis að tala um þetta á öðrum sviðum sem einstakir þingmenn eða þingið á.

Ég vil líka taka þátt í umræðu sem hv. þm. hóf um það hvaða leiðir við getum farið umfram hinar hefðbundnu sem hafa greinilega ekki skilað þeim árangri sem hefði mátt vænta. Það eru ekki aðeins umhverfismál sem við erum með í háska, það er líka lífsafkoma og markaðsstaða íslenskra afurða sem er beinlínis sett í hættu og engin nágrannaþjóð getur leyft sér að koma þannig fram við aðra.