1998-06-04 23:18:43# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka viðbrögð formanns umhvn., hv. þm. Ólafs Haraldssonar. Það er gott að hann skuli taka undir með svo ákvarðandi hætti um þörfina á því að beita öllum tiltækum ráðum til þess að við megum ná fram rétti okkar. Ég segi rétti, því þó að hann sé kannski ekki enn þá sýnilegur í alþjóðlegu samningsbundnu samhengi eins og vera þyrfti, þá er það réttur samt þegar um þjóðarhagsmuni er að ræða.

Í þessu samhengi vil ég benda alveg sérstaklega á það, og það var m.a erindi mitt við hæstv. ráðherra í kvöld að fram undan er mjög þýðingarmikil og ákvarðandi alþjóðleg ráðstefna, ráðherraráðstefna suður í Lissabon síðari hluta júlímánaðar þar sem á að reka smiðshöggið á OSPAR-samninginn, eins og hann var frágenginn fyrr á þessu ári. Því að menn hafa verið lengi að takast á um þetta innan viðkomandi samþykkta, Óslóar- og Parísarsamþykktanna sem hafa skarast með vissum hætti og varða mengun frá landstöðvum á norðaustanverðu Atlantshafi. Einmitt núna er lokahnykkur í þessu máli þar sem þessi mál kjarnorkuendurvinnslustöðvanna á Bretlandseyjum og í Frakkalandi eru alveg sérstaklega í brennipunkti og þar sem reynir alveg sérstaklega á hið pólitíska afl ríkisstjórna.

Mér finnst sárt til þess að vita að hæstv. umhvrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna eða staðgengill hans vegna þess að við höfum þörf fyrir það að geta rætt við hæstv. ráðherra um hvernig staðið er að undirbúningi þessa mikilvæga fundar.