1998-06-04 23:21:12# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:21]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég fagna því frumkvæði sem hv. umhvn. hefur sýnt með því að leggja fram tillögu sem fordæmir harðlega þá auknu losun á geislavirkum efnum sem verður nú vart frá endurvinnslustöðvum í Bretlandi. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lýsti þeirri skoðun sinni að Íslendingar ættu að grípa til annarra og sterkari ráða en þeir hefðu áður gert og hann varpaði fram þeirri hugmynd, sem hann hefur líka reifað á fyrri stigum málsins, að Íslendingar ættu að íhuga að kalla heim sendiherra sinn.

Ég er hv. þm. sammála. Ég held að það sé ekkert sem hreyfi við Bretum í þessu máli nema harkalegar aðgerðir. Ég tala hér sem maður með reynslu og fortíð á þessu sviði. Ég var umhvrh. þegar þingið samþykkti tillögu hér, að mig minnir 1994, um þessi mál þegar málefni Dounreay voru líka ofarlega á baugi sem og Sellafield. Ég fór þá til fundar við John Gummer sem var umhverfisráðherra Breta og ræddi þessi mál við hann. Það var eins og að tala við steininn. Og að tala við hann og sérfræðinga hans, sem voru sumir gamlir samstarfsmenn mínir frá námsárum í Bretlandi, þá var það alveg ljóst að þeir töldu enga hættu á ferðum og þeir voru ekki til viðtals um þetta.

Hv. þm. nefnir líka núverandi umhverfisráðherra Verkamannaflokksins, Michael Meacher, sem hefur í rauninni vísað umleitunum Norðurlandanna í þessum efnum á bug. Það er alveg rétt sem mátti ráða af máli hv. þm. að það skiptir litlu hvort spjallað er um þessi mál við forustumenn Íhaldsflokksins eða Verkamannaflokksins. Ég átti sjálfur, þegar ég fór til spjalls við John Gummer um þessi mál, tal við þáverandi forustumenn Verkamannaflokksins sem ég hitti að máli, m.a. þann mann sem fór þá með skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins í umhverfismálum og ræddi þetta við hann. Hann gaf að sjálfsögðu loforð um það að ef til kæmi, ef þeir ynnu kosningar, þá mundi verða allt annar bragarháttur á þessu máli. Það kemur í ljós að Íslendingum er svarað með heldur meira þjósti af hálfu Verkamannaflokksins en Íhaldsflokksins.

Það er líka athyglisvert sem hv. þm. las í snöggri þýðingu augnabliksins upp úr bréfi Meachers að fram kemur að umhverfisráðherra Bretlands veit greinilega ekki hætis hót um hvað hann er að tala. Hann heldur því til að mynda fram að losun á teknesíum 99, sem nú hefur orðið vart, hafi engin áhrif, hvorki á menn né dýr.

Teknesíum 99 er þeirrar gerðar að það er allt öðruvísi en t.d. það sem við höfum áður helst fett fingur út í, þ.e. losun á sesín 131 frá Sellafield stöðinni. Sesín er þó náttúrulegt efni sem finnst í náttúrunni og hefur helmingunartíma upp á ekki nema 30 ár þannig að það í rauninni er að eyðast og hverfa. En teknesíum er hins vegar þeirrar náttúru að það er algerlega manngert efni, það finnst ekki í náttúrunni og þar af leiðandi er ekki hægt, það liggja engar rannsóknir fyrir um það hvaða áhrif teknesíum hefur þegar það byggist upp í líkömum lifandi vera. Enginn veit hvaða áhrif það kann að hafa til langframa á mannslíkamann. Það sem skiptir e.t.v. mestu máli er að teknesíum mun verða með okkur til eilífðar vegna þess að helmingunartími þess er gríðarlega langur, 213 þúsund ár, sem þýðir að það tekur 213 þúsund ár fyrir hvert kíló að eyðast í það að verða hálft kíló og það skynjum við sem eilífð. Það þýðir að það verður um aldur og ævi. Á meðan samfélag á Íslandi er til verður þetta hér. Það safnast upp í höfunum fyrir norðan og m.a. í íslenskum fiski. Það kann vel að fara svo þegar fram líða stundir að menn komist að raun um það að teknesíum hafi óheillavænleg áhrif sem við þekkjum ekki í dag. Hvaða áhrif hefur það þá á markaðsstöðu sjávarafurða okkar?

Þannig að það að taka til við losun á teknesíum út í hafið er enn meiri villimennska, enn meiri umhverfisglæpamennska af hálfu Breta en það sem þeir hafa áður stundað frá þessum stöðvum og rétt er að fordæma það harðlega.

Það kemur t.d. í ljós varðandi þetta efni að það ferðast með öðrum hætti upp fæðukeðjuna. Það er tekið upp með öðrum hætti. Það virðist ferðast fljótar. Það tók til að mynda líklega helmingi skemmri tíma fyrir þetta efni að komast í fæðukeðjuna með þeim hætti í Noregi að menn yrðu þess varir en með sesín. Hér er því glögglega á ferðinni efni sem er hættulegt.

Auðvitað er hægt að segja það með ákveðnum rökum sem vísindin hafa til þessa tekið gild að þetta sé undir einhverjum hættumörkum. En í tilviki teknesíum gildir allt annað en með sesín vegna þess að það er manngert, engar tilraunir hafa verið gerðar á því og þar af leiðandi vitum við ekkert um hver hættumörkin á því eru. Ég gef því lítið fyrir það sem menn kalla hættumörk og byggja á einhverjum gervivísindum í þessum efnum.

Ég tel líka, herra forseti, að það sé harðlega ámælisvert af Bretum að gera þetta vegna þess að það liggur fyrir að tækni við að farga þessum efnum fleygir fram. Talið er að á næstu áratugum muni menn geta komið þessum efnum fyrir öðruvísi en núna. Hvers vegna er þá verið að farga þessum efnum og endurvinna þau og losa síðan út í hafið? Það er vegna þess að mennirnir og þeir sem eiga þetta og bera á því ábyrgð og þurfa að kosta varðveislu þess vilja ekki gera það. Bresk stjórnvöld leyfa sem sagt einhverjum mönnum sem reka fyrirtæki sem þurfa að bera kostnað af því að hafa þessi efni í geymslu sinni að endurvinna þau og farga úrganginum út í hafið til þess að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir fjárhagslegum útlátum.

Hverjir eru það sem síðan borga brúsann? Það eru þeir sem hvergi koma nærri þessu máli, þjóðir eins og Íslendingar, vegna þess að þetta efni fer norður úr Írlandshafi og norður með Noregsströndum og sveigir síðan til vesturs og aftur suður að Íslandi og síðan með straumum fyrir Norðurlandi. Þetta er tekið upp af fiski og það kemur til að mynda í ljós í rannsóknum Norðmanna að þetta er tekið alveg sérstaklega upp af humri, þ.e. þeirri tegund humars sem við leggjum okkur til munns og höfum nokkrar tekjur af því að selja.

Ég held, herra forseti, að með engu móti sé hægt að fallast á þetta. Bretar þykjast a.m.k. í orði kveðnu ganga framar mörgum öðrum þjóðum hvað umhverfismál varðar. Ég rifja það sérstaklega upp að núverandi ríkisstjórn í Bretlandi hefur sagt að hún vilji hafa umhverfisvernd sem næst hjarta sínu. Íslendingar sjá hvernig þeir efna þessi orð. Það er sem sagt ekkert að marka þetta. Ég held þess vegna, herra forseti, að nauðsynlegt sé að Íslendingar sýni það með eins sterkum hætti og mögulega er unnt að við getum ekki fallist á þetta. Við höfum áður látið á það reyna hvaða afleiðingar, hvaða áhrif það hefur að senda bréf, fara til fundar við þessa herra og samþykkja ályktanir. Við erum að samþykkja eina núna í kvöld eða á morgun. Við vitum það auðvitað og höfum þegar séð niðurstöðuna í bréfi Michels Meachers, hún er nákvæmlega engin. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að við hljótum að íhuga það alvarlega að grípa til sterkari ráða eins og þeirra að kalla heim sendiherra okkar. Ég heyri á máli hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar að hann er ekki giska fjarri þessum hugleiðingum.

Vitaskuld væri æskilegt að ekki bara hæstv. umhvrh. heldur líka utanrrh. væru til skrafs við þingið um þetta mál vegna þess að sameiginlega þurfum við að geta mótað stefnu um það hvernig við eigum að bregðast við, herra forseti.