1998-06-04 23:34:30# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:34]

Frsm. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af ágætum orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar vil ég undirstrika það sem kemur fram í greinargerð með þáltill. Það er ekki aðeins að Bretar séu að farga geislavirkum úrgangi úr eigin ranni heldur hafa þeir sýnt þá ósvífni, ég vil taka svo sterkt til orða, að flytja inn til endurvinnslu úrgang frá Austur-Evrópu, en þar er af gnægð að taka. Þetta er annaðhvort í viðskiptalegum eða pólitískum skiptum eða af ástæðum sem ég ekki kann að meta. Mér þykir þetta sýna að þessi stöð er rekin ekki einungis til þess að glíma við þá erfiðleika sem Bretlandseyjar sjálfar og nágrannaríkin hafa við að glíma heldur er horft til þess að nýta endurvinnslustöðvarnar í öðrum og stærri tilgangi. Á Bretum er engan bilbug að finna.

Ég vil hvetja til þess að við höldum áfram að leita eftir samstarfi við Norðurlöndin og látum þau skynja þá alvöru sem við viljum beita í þessu máli. Ég vil líka að við skoðum hið hefðbundna samstarf sem við eigum við Breta á ýmsum sviðum, á sviðum umhverfismála og öðrum sviðum. Þannig getum við sýnt alvöru málsins, að við látum þá finna að við viljum jafnvel endurskoða samstarf á þessum sviðum.

Þá vil ég einnig benda á það sem fram kemur í greinargerðinni að Evrópuráðsþingið í Strassborg samþykkti í apríl sl. að hvert ríki skyldi farga þeim efnum sem það þyrfti sjálft að losna við. Ég minni á að hæstv. utanrrh. verður formaður og við förum með formennsku í Evrópuráðinu á næsta kjörtímabili. Það eigum við að nýta okkur.