1998-06-04 23:37:08# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð hjá hv. formanni umhvn. Það fagna því auðvitað allir óskaplega þegar kalda stríðinu lýkur. En drottinn minn dýri! Þó ég vilji gjarnan sjá á bak öllum þeim kjarnorkuvopnum sem því fylgdu þá vil ég síður að leifar þeirra endi í fiski sem veiðist við Ísland.

Hv. þm. nefndi það til sögunnar að Evrópuráðið hefur látið málið til sín taka. Það eykur þann hlaða sönnunargagna sem við höfum fyrir því að þær aðferðir sem við höfum beitt skili ekki árangri. Þess vegna verðum við að hugsa þessi mál upp á nýtt. Hér liggur fyrir hugmynd sem hefur verið reifuð í kvöld.

Ég fagna því að hæstv. umhvrh. starfandi og félmrh. er kominn í salinn vegna þess að það skiptir máli að framkvæmdarvaldið og löggjafarsamkoman reyni að skiptast á ráðum í þessu máli. Það skiptir verulega miklu ef Alþingi og framkvæmdarvaldið gætu t.d. komið sér saman um það eftir umræðu hérna að grípa til þeirra drastísku ráða sem hér hafa verið nefnd, þ.e. kalla heim sendiherra. Mér finnst það meira en einnar messu virði að íhuga það til hlítar. Ég veit ekki hvort hægt væri að fá vini okkar á Norðurlöndunum til þess að renna þá slóð með okkur. Satt að segja er mér alveg sama um það. Ég tel að það mundi vekja verulega athygli á þessari ósvinnu Breta sem því miður fer allt of hljótt.

Hvar gerist það á byggðu bóli að menn leyfi sér að losa geislavirk efni beint út í umhverfið, ekki bara hágeislavirkt efni eins og sesín, sem er þó til í náttúrunni, heldur líka algjörlega nýtt, tilbúið efni sem verður til við þessa endurvinnslu og enginn hefur nokkra hugmynd um hvernig muni haga sér í fæðukeðjunni í lífríkinu? En við vitum þó að u.þ.b. 213 þúsund árum eftir að við erum öll, þá verður það enn að verki.