1998-06-04 23:49:48# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:49]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og vænta mátti kemur maður ekki að tómum kofanum hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Ég þakka honum kærlega fyrir þessar upplýsingar. Auðvitað getur maður sagt sér að Írar hljóti að hafa miklar áhyggjur af þessu og þá velti ég því fyrir mér hvort við getum ekki einmitt átt meira samstarf við þá um þessi mál, leitað víðtækari samstöðu en hefur verið gert. Það hefur verið samstarf milli Norðurlandanna og þau reynt að beita sér og spurningin er hvort ekki væri hægt að efla samstarfið við Íra.

Eins og hefur reyndar komið fram fyrr í kvöld voru fréttir af því að það voru umræður í breska þinginu, líklega í fyrradag, um það hvað hefði orðið af geislavirkum efnum frá þessum stöðvum og mér fannst svör forsætisráðherrans, Tonys Blair, og hvernig hann tók á þeirri umræðu alveg ótrúlega hrokafull. Það hve bresk stjórnvöld gera lítið úr því sem er að gerast þarna, hlýtur það auðvitað vekja margar spurningar. Eru þessir stjórnmálamenn svona fáfróðir um geislavirkni og umhverfismál eða er þeim alveg sama? Hugsa þeir eins og menn hafa gert: Það gerist ekki fyrr en ég er dauður. Hvað er þarna eiginlega á ferðinni? Það vaknar enn ein hugmyndin hvort við eigum ekki bara hreinlega að senda formlega sendinefnd frá íslenska þinginu til að ræða við þessa menn þannig að við getum kannski áttað okkur á því hvaða hugarfar það er sem býr þarna að baki. Hvað skapar þetta ábyrgðarleysi hjá þessum stjórnmálamönnum?