1998-06-04 23:54:59# 122. lþ. 145.22 fundur 707. mál: #A mótmæli við aukinni losun geislavirkra efna frá breskum kjarnorkuendurvinnslustöðvum# þál. 33/122, HG
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[23:54]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er sérstaklega í tilefni þess að við höfum hér eyru hæstv. starfandi umhvrh. að ég kem öðru sinni til að bæta í málið. Ég vildi alveg sérstaklega nefna þá stöðu sem er nú í sambandi við frágang á alþjóðasamningnum eða samþykktinni sem gengur undir nafninu OSPAR og hefur verið í undirbúningi að endurskoða hana og gera hana tryggari og nákvæmari en tekist hefur til þessa. Óslóar- og Parísarsamþykktin, sem við höfum byggt mikið á í sambandi við losun frá landstöðvum í Norður-Atlantshaf, hefur ekki verið viðurkennd nema að mjög takmörkuðu leyti af breskum og frönskum stjórnvöldum sem standa fyrir rekstri endurvinnslustöðva eða á sinni grundu, í La Hague og endurvinnslustöðvarnar tvær á Bretlandseyjum, í Sellafield og Dounreay.

Endurvinnslustöðvarnar í þessum löndum valda gróft áætlað um 90% af heildarlosun geislavirkra efna í hafið í norðaustanvert Atlantshaf þannig að lunginn af þessum efnum kemur frá þessum stöðvum. Haldnir hafa verið undirbúningsfundir undir væntanlegan ráðherrafund umhverfisráðherra sem tengdir eru OSPAR-samþykktinni og þessu ferli í Lissabon milli 20. og 30. júlí nk. Búið er að ganga frá eða ná samkomulagi um bættan texta í talsverðum mæli á undanförnum mánuðum. Mig minnir að það væri í mars sem var eiginlega gengið frá því síðasta en nokkuð stendur eftir, innan sviga eða hornklofa eins og gengur og bíður ákvarðana ráðherrafundarins í Lissabon. Það er í rauninni hinn þýðingarmikli vettvangur sem við eigum að beina sjónum okkar að fyrir utan að koma mótmælum okkar sem skýrast og ákveðnast á framfæri við bresk stjórnvöld sem við þurfum alveg sérstaklega að tala við í þessum efnum.

Vegna þess sem hér hefur komið fram hjá hv. þm., allt saman vel meint og gott hugmyndasafn um viðbrögð af hálfu Alþingis, tel ég að þingið fyrir utan stjórnvöld þurfi að beina sjónum sínum einmitt að frágangi á OSPAR-samkomulaginu sem er fram undan. Vissulega væri ekki úr vegi að í hópi þeirra sem héðan fara, sækja fundinn í Lissabon, verði einhverjir af hálfu Alþingis til að fylgjast með á þeim vettvangi til að setja sig betur inn í samhengi þeirra mála en menn gera heima fyrir með takmörkuðum möguleikum.

Ég vildi inna hæstv. starfandi umhvrh. eftir því, þó að kannski sé ósanngjarnt að spyrja nákvæmlega, biðja um nákvæmar upplýsingar, þó ég vantreysti hæstv. félmrh. ekki að gera sitt besta sem staðgengill hæstv. umhvrh., að spyrjast fyrir um þennan undirbúning. Ég kem jafnframt þeirri hugmynd á framfæri að þingið hafi einhvern aðgang að þessum mikilvæga vettvangi, ráðherrafundinum í Lissabon, seinna hluta júlímánaðar.

Ég vil nefna það inn í þetta samhengi, sem hefur komið ítrekað fram í umræðunni, að það virðist lítið að treysta á þær yfirlýsingar sem komu fram af hálfu nýrrar ríkisstjórnar í Bretlandi á síðasta sumri, og reyndar af hálfu franskra stjórnvalda einnig, ríkisstjórnar Jospins hins franska, sem báðir telja sig vera eitthvað í ætt við sósíaldemókratíið í þessum löndum og sem vakti vonir. En þegar farið er ofan í saumana á því sem hefur verið að gerast í Bretlandi, sem við fylgjumst alveg sérstaklega með að þá vekur það miklar áhyggjur. Staðan er þannig varðandi teknesíum 99 að ekki er von á að það dragi úr losun á næstunni. Þar liggur fyrir mikið magn sem safnað hefur verið upp á undanförnum árum og þeir telja sig þurfa að endurvinna og losa. Ég hef undir höndum margháttuð gögn, sum þeirra komin frá vinum okkar í áhugasamtökum náttúruverndarsamtökum eins og Greenpeace --- sem ég leyfi mér að nefna hér með fullri virðingu vegna þess mikla starfs sem er unnið innan þeirra samtaka ásamt mörgum fleiri --- til þess að veita aðhald og dreifa upplýsingum varðandi hættulega mengun að því er snertir hafið.

[24:00]

Vegna þess að ég hef hér eyru hæstv. ráðherra, og virðulegur forseti, leyfi ég mér að nefna það að ég hef ítrekað varað íslensk stjórnvöld við því að lýsa hálfgerðu stríði á hendur umhverfissamtaka af ýmsu tagi, oft ónafngreint og án nánari útfærslu. Þetta virðist nánast vera stefna núv. ríkisstjórnar, sem ég tel vera afar óskynsamlega, þó að okkur geti greint á í einstökum greinum, einstökum þáttum, við samtök eins og Greenpeace og engin ástæða til þess að fela ágreining ef uppi er. En við hljótum og eigum að viðurkenna þátt slíkra samtaka á sviðum þar sem þau eru að vinna alþjóðlegt gagn í þágu umhverfismála og þar á meðal í sambandi við brýn umhverfismál sem varða lífshagsmuni Íslendinga eins og mengun hafsins.

Hér hef ég sem sagt gögn undir höndum sem eru mjög upplýsandi um áform breskra stjórnvalda, úttektir breskra umhverfisyfirvalda þar sem greint er frá því að það hafi tímabundið verið dregið úr losuninni á teknesíum en þau áskilji sér rétt til þess að endurskoða þá stefnu og auka hana, taka ákvarðanir þar að lútandi fyrir árið 2000. Fjölmargt í sambandi við kjarnorkuiðnaðinn, sem hefur verið að koma í ljós á undanförnum mánuðum og vikum, hefur orðið til þess að hann er meira og minna í uppnámi. Það er sóknarfæri af hálfu okkar Íslendinga einmitt um þessar mundir gagnvart þeirri óverjandi, óábyrgu mengun sem kemur frá endurvinnslustöðvum vegna þess að þær hafa orðið berar að brotum á eigin yfirlýsingum og almennum samþykktum með mjög grófum hætti. Í umsögnunum má lesa mjög sterk orð sem hafa fallið um það framferði sem þar hefur sannarlega orðið.