Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 10:07:39 (7569)

1998-06-05 10:07:39# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[10:07]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á þskj. 1489 flytjum við, nokkrir forustumenn stjórnarandstöðunnar fyrir hennar hönd, till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar, samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar, til þess að fjalla um málefni Landsbanka Íslands og samskipti framkvæmdarvalds og Alþingis. Tillagan gerir ráð fyrir því að kosin verði nefnd fimm alþingismanna er fari yfir málefni Landsbanka Íslands og tengdra fyrirtækja og fjalli einkum um:

1. Mál þau er leiddu til afsagnar þriggja bankastjóra Landsbankans í apríl sl.

2. Málefni Lindar hf., einkanlega orsakir þess að ekki var orðið við ábendingum Ríkisendurskoðunar um opinbera rannsókn á málefnum sem vörðuðu fyrirtækið.

3. Samskipti viðskiptaráðherra við Alþingi þar sem ráðherrann ýmist flutti þinginu rangar upplýsingar eða leyndi það upplýsingum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að nefndinni verði fenginn réttur samkvæmt ákvæðum 39. gr. stjórnarskrár til að heimta skýrslur af opinberum aðilum sem og einstaklingum. Þar segir að nefndin skuli skila Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. október 1998, þ.e. fyrir fyrsta reglulegan samkomudag Alþingis á hausti komanda.

Herra forseti. Þann 15. apríl sl. var dreift á Alþingi skýrslu Ríkisendurskoðunar um risnu- og laxveiðimál Landsbanka Íslands. Skýrslunni var dreift í framhaldi af fyrirspurnum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hér á Alþingi um málið. Í skýrslunni voru alvarlegar athugasemdir gerðar bæði um að endursskoðunaraðilar hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum og misnotkun bankastjóra á fríðindum og risnu. Skýrslan leiddi til afsagnar allrar bankastjórnarinnar og sérstakrar athugunar bankaráðs á stöðu bankastjóra. Enn skortir þó viðhlítandi skýringar á ýmsum atriðum í skýrslu Ríkisendurskoðunar svo sem um skattaleg álitaefni vegna risnu á vegum bankans og á óútskýrðum risnukostnaði sem nemur háum fjárhæðum.

Frá því að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út og var kynnt og rædd á Alþingi hafa komið fram ýmsar nýjar og alvarlegar upplýsingar er tengjast Landsbankamálinu. Þar eru á meðal alvarlegar ásakanir sem ekki er hægt að leiða hjá sér. Ásakanir um samantekin ráð um að hrekja bankastjóra úr starfi. Ásakanir um að Landsbanki Íslands hafi verið beittur þrýstingi af hálfu forvígismanna voldugra einkafyrirtækja um að knýja samkeppnisaðila til uppgjafar. Ásakanir um óeðlileg afskipti hæstv. viðskrh. af málefnum Landsbanka Íslands og dótturfyrirtækja hans og ásakanir um óeðlilega fyrirgreiðslu til samtaka og félaga.

Þær alvarlegu upplýsingar sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar á sínum tíma komu fyrir almenningssjónir fyrir atbeina alþingismanna og fyrir milligöngu Alþingis. Alþingi ber því ábyrgð í málinu og getur ekki látið hin alvarlegu tíðindi, sem gerst hafa í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar, sér í léttu rúmi liggja. Alþingi hefur skyldur í þessu máli, ber að axla þær og tryggja frekari rannsókn málsins. Einasta úrræði Alþingis í þeim efnum er skipan rannsóknarnefndar eins og þeirrar sem þáltill. okkar gerir ráð fyrir.

Alvarlegasti þátturinn í eftirmálaskýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Landsbankans er án efa þær upplýsingar sem fram hafa komið um dótturfélag Landsbanka Íslands, Lind hf., en þær upplýsingar bárust ekki til Alþingis fyrr en nú fyrir nokkrum dögum, að tilhlutan hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur.

Nú er ljóst að rekstur Lindar hf. hefur um árabil verið í hæsta máta ámælisverður svo ekki sé meira sagt. Tapast hafa yfir 700 millj. kr. af lánveitingum sem að verulegu leyti má skrifa á ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins. Ábendingum Ríkisendurskoðunar um opinbera rannsókn var ekki sinnt. Þá er einnig ljóst orðið að hæstv. viðskrh. greindi Alþingi ekki rétt frá stöðu mála í fyrirspurn um málefni fyrirtækisins á Alþingi fyrir tveimur árum. Þær upplýsingar voru a.m.k. ekki réttar miðað við þær upplýsingar sem hann hafði undir höndum á þeim tíma.

700 millj. kr. tapað fé, m.a. með lánum til kaupa á hurðum og lyftum, þ.e. óveðhæfum verðmætum vegna brotalama á innheimtu og kolrangra og ámælisverðra stjórnarhátta. Hvernig má slíkt gerast um árabil með allt það eftirlitskerfi sem vera átti til staðar? Alþingi sem ber ábyrgð á allri lagasetningu um starfsemi lánastofnana og eftirlit með lánastofnunum verður sjálft að skoða málið.

Hvað veldur því að svona skuli hafa getað gerst án þess að eftirlitsaðilar gripu í taumana? Fengu viðskiptaráðherrar, ekki bara sá sem nú situr heldur einnig fyrirrennarar hans, m.a. sá sem hér stendur, aldrei vitneskju um málið áður en allt þetta fé var tapað? Hvernig var háttað upplýsingagjöf viðskrh. til Alþingis sem einnig hefur eftirlitsskyldu?

Sagt hefur verið að þarflaust sé að rannsaka þessa þætti þar sem opinber rannsókn sé hafin á málefnum Lindar. Opinberri rannsókn ætti að leiða í ljós hvort um saknæmt athæfi sé að ræða en þarna kemur miklu fleira til álita en hvort einhver eða einhverjir hafi brotið lög með refsiverðri háttsemi. Hér þarf líka að skoða hvaða ágallar eru á eftirlitskerfi, sem byggt er á lögum frá Alþingi sjálfu, hvernig samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er háttað og hvernig eftirlitsaðilar rækja upplýsingaskyldu sína gagnvart þeim einu handhöfum framkvæmdarvaldsins, ráðherrunum, sem Alþingi getur snúið sér til.

Það er mesti misskilningur að þeirri rannsókn sé sérstaklega stefnt til höfuðs hæstv. viðskrh. Finni Ingólfssyni í persónulegri ófrægingarherferð á hendur honum. Sá sem hér stendur var viðskrh. næstur á undan Finni Ingólfssyni. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um málefni Lindar frá minni tíð og fengið þær að hluta til, þá aðeins í brotum og pörtum. Mér finnst ég eiga kröfu til þess að fá upplýsingar, ekki um það hvort saknæmt athæfi hafi verið framið, sem hin opinbera rannsókn mun leiða í ljós, heldur hvernig málsatvik voru í minni tíð, hvaða úrræðum var beitt af hálfu eftirlitsaðila, hversu virkt var eftirlitið og hvers vegna viðskrh., æðsti yfirmaður opinberrar lánastarfsemi í landinu fékk ekki aðrar og meiri upplýsingar en fyrir hann voru lagðar. Aðeins rannsókn eins og sú sem hér er gerð tillaga um getur leitt slíkt í ljós.

Herra forseti. Málsvarar ríkisstjórnarinnar hafa haft uppi heitingar við okkur stjórnarandstæðinga og spurt af hverju við höfum ekki nú á stundinni borið upp tillögu um vantraust á viðskrh. Stjórnarandstaðan þorir ekki, segja þeir, --- þorir ekki. Hvað ættum við að óttast við slíkan tillöguflutning? Vantrauststillaga beinist ekki að okkur. Tillaga um vantraust er sjálfstætt mál óháð þeirri tillögu sem hér er flutt. Tillaga um vantraust á tiltekinn ráðherra er sterkasta vopn stjórnarandstöðu. Slík tillaga lokar líka málinu. Að fenginni afgreiðslu á slíkri tillögu getur löggjafarsamkoma lítið aðhafst. Við viljum hins vegar ekki loka málinu þó stjórnarsinnar kunni helst að óska þess. Við viljum fyrst og fremst opna málið betur og upplýsa frekar.

Fyrstu upplýsingar um þau alvarlegu mál sem hér hafa verið gerð að umtalsefni komu fyrir almenningssjónir fyrir tilhlutan Alþingis og alþm. Alþingi ber því ábyrgð á framhaldi málsins og eftirleiknum í kjölfar nýrra og alvarlegra tíðinda. Ábyrgð Alþingis felst í því að upplýsa betur og varpa skýrara ljósi á það sem gert hefur verið með almannafé. Í þeim tilgangi er þessi tillaga flutt.

Herra forseti. Málið er ljóst og skýrt og hefur legið fyrir lengi. Ég tel því enga ástæðu til þess að gera tillögu um að vísa málinu til einhverrar sérstakrar þingnefndar vegna þess að alþm. er öllum fært að gera upp hug sinn til málsins hér og nú. Ég legg því ekki til að málinu verði vísað til nefndar heldur, þvert á móti, að málinu verði ekki vísað til nefndar og til 2. umr. þannig að unnt sé að ljúka afgreiðslu málsins í dag, ef meiri hluti Alþingis er reiðubúinn til þess.