Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 10:17:21 (7570)

1998-06-05 10:17:21# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[10:17]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um hlutverk mitt og ábyrgð sem viðskrh. Því ber að fagna þá rætt er um verk ráðherra og það er skylda Alþingis að veita ráðherrum aðhald í störfum þeirra. Jafnframt verður að gera þá skýlausu kröfu til þingmanna að þeir sinni þessu hlutverki sínu af einlægni, sanngirni og heiðarleika.

Því miður hefur umræðan undanfarna daga verið á nokkuð öðrum nótum. Það hef ég fengið að reyna. Ég tel þær ásakanir sem á mig hafa verið bornar mjög alvarlegar. Það er mikið alvörumál fyrir ráðherra þegar hann er sakaður um ósannindi og trúnaðarbrest gagnvart Alþingi. Alvarlegast er þó þegar ásakanir þingmanna eru ekki á rökum reistar og þeir fara offari í þeirri von að koma pólitísku höggi á andstæðinga sína.

Það hefur glöggt komið fram á Alþingi að málatilbúnaður stjórnarandstöðunnar er í meginatriðum byggður á misskilningi. Það er alvarlegt þegar bornar eru sakir á ráðherra vegna svars við fyrirspurn á Alþingi og þeir þingmenn sem sakirnar bera fram misskilja í grundvallaratriðum eðli fyrirspurnarinnar og aðstöðu ráðherra þegar hann svarar henni. Þetta mál, sem í raun tengist allt ríkisviðskiptabankanum Landsbanka Íslands, birtist nú þingheimi á ný í formi till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar.

Með flutningi tillögunnar kemur enn fram misskilningur flutningsmanna á stöðu Alþingis, framkvæmdarvaldsins og þeim tækjum sem þingmenn geta beitt í aðhaldi sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Umræða um tillöguna hefur hins vegar verið leyfð með afbrigðum að tilhlutan stjórnarmeirihlutans á Alþingi þannig að tóm gefist til að fjalla yfirvegað um þetta mál í þingsölum og því ber að fagna.

Eins og þáltill. liggur fyrir má skipta umfjöllunarefni hennar í tvo meginþætti. Annars vegar málefni bankastjóra Landsbankans og fyrirtækisins Lindar hf. og hins vegar samskipti mín við Alþingi vegna þessa máls.

Ég vil fyrst víkja að málefni fyrirtækisins Lindar hf. Ferill þess er raki í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur á þskj. 1422. Sá ferill endaði með samruna Lindar hf. við Landsbanka Íslands í nóvember 1994. Sú ákvörðun var tekin af forvera mínum í starfi. Hana gagnrýni ég ekki. Eftir það var eignarleigufyrirtækið ekki til og málefni þess alfarið hluti af málefnum Landsbanka Íslands. Allar ákvarðanir sem teknar voru í málefnum Lindar hf. og höfðu meginþýðingu fyrir afdrif fyrirtækisins voru teknar fyrir tíð mína sem viðskrh.

Í þáltill. sem hér liggur fyrir er sjónum beint að orsökum þess að ekki var orðið við ábendingum Ríkisendurskoðunar um opinbera rannsókn á málefnum sem vörðuðu fyrirtækið. Um þessa hlið málsins hefur rækilega verið fjallað á Alþingi og í fjölmiðlum. Meginatriði málsins er að það hefur verið falið réttum aðilum. Ríkissaksóknari hefur fengið málið til umfjöllunar og hann hefur ákveðið að verða við beiðni um opinbera rannsókn. Rannsóknin mun fara fram á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Nauðsynlegra gagna verður aflað og á grundvelli þeirra verður ákveðið hvort einhvern skuli sækja til saka vegna málsins. Sannfæring mín er sú að okkur stjórnmálamönnum beri skylda til þess að leyfa þessari málsmeðferð að hafa eðlilegan framgang. Það er engum til góðs og engum til sóma að reyna að hafa áhrif á það ferli sem málið er nú komið í.

Hart hefur verið deilt á mig fyrir að ég skuli ekki hafa hlutast til um opinbera rannsókn á sínum tíma, þegar mér var kunnugt um að ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins væri til skoðunar hjá bankaráði. Afstaða mín til málsins var skýr á þeim tíma og hún hefur ekki breyst. Afstaðan er byggð á yfirvegaðri túlkun á ákvæðum viðskiptabankalaga, um hlutverk mitt og bankaráðs við yfirstjórn ríkisviðskiptabanka.

Rétt var af mér, sem viðskrh., að eftirláta bankaráði ákvörðun um aðgerðir vegna málefna Lindar hf. Þessi túlkun mín hefur nú verið staðfest með greinargerð bankaeftirlitsins um stöðu viðskrh. við yfirstjórn ríkisviðskiptabanka. Í þessari viku hef ég og leitað álits tveggja lögmanna á þessu atriði. Niðurstaða þeirra er sú hin sama.

Auk þessa alls gerir þáltill. ráð fyrir að tekin verði til skoðunar mál þau sem leiddu til afsagnar þriggja bankastjóra Landsbankans í apríl sl. Sú atburðarás er öllum kunn og um hana hefur rækilega verið fjallað hér á Alþingi. Því er ekki ástæða til þess að gera grein fyrir henni hér. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar hjá Ríkisendurskoðun og það voru athuganir Ríkisendurskoðunar sem leiddu til þess að bankastjórarnir létu af störfum og nýr bankastjóri tók til starfa.

Óþarfi ætti að vera að minna þingheim á að Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis og heyrir því beint undir það. Ríkisendurskoðun er helsta tæki Alþingis til aðhalds í rekstri ríkisstofnana. Það er því alvarlegt mál ef Alþingi hefur misst trú á þessu tæki sínu og telur nauðsynlegt að taka málið til endurskoðunar í sérstakri rannsóknarnefnd.

Rétt er að ítreka það sem ég hef áður sagt hér á Alþingi og víðar, að bankinn er nú rekinn sem hlutafélag á samkeppnismarkaði en rekstrarform ríkisviðskiptabankanna gömlu var gengið sér til húðar. Nýjar og skýrar reglur hafa verið settar um risnu og ferðakostnað. Kjör bankastjóra hafa verið afmörkuð. Þetta var gert í tengslum við breytingar á rekstrarformi bankanna --- atriði sem ég lagði áherslu á. Með hliðsjón af þessu er vandséð hvaða tilgangi skoðun sérstakrar rannsóknarnefndar þjónar.

Nú vík ég að þeim þætti þáltill. sem varðar samskipti mín við Alþingi. Því er haldið fram að ég hafi flutt þinginu rangar upplýsingar eða leynt það upplýsingum. Á síðustu þremur löggjafarþingum hef ég sem viðskrh. svarað um það bil 50 fyrirspurnum. Af þeim voru 30 fyrirspurnir um bankana, þar á meðal Landsbanka Íslands. Öllum fyrirspurnum sem til mín er beint hef ég svarað af vandvirkni. Þegar um skriflegar fyrirspurnir er að ræða er leitað upplýsinga hjá viðkomandi stofnunum, enda býr ráðuneytið að jafnaði ekki yfir öllum upplýsingum til þess að svara fyrirspurnum þingmanna. Alþingi er síðan svarað á grundvelli þessara upplýsinga. Ráðherra þarf því að reiða sig á þær upplýsingar sem hann fær í hendur frá viðkomandi stofnunum.

Við undirbúning munnlegra fyrirspurna er jafnan aflað upplýsinga úr viðkomandi stofnun. Þegar hins vegar er um óundirbúna fyrirspurn að ræða er ekki tóm til þess að leita upplýsinga. Þó ásakanir einstakra þingmanna um ósannindi af minni hálfu og trúnaðarbrest við Alþingi eigi ekki við rök að styðjast hef ég tekið þær mjög alvarlega. Þess vegna óskaði ég eftir því við tvo hæstaréttarlögmenn að þeir létu í ljós álit sitt á atriðum er tengjast málefnum eignarleigufyrirtækisins Lindar hf. og afskiptum mínum sem viðskrh. af málinu. Hæstaréttarlögmennirnir Andri Árnason og Gunnar Jónsson hafa nú skilað áliti sínu. Ég hef sent forseta Alþingis ályktunina og hefur henni verið dreift til þingmanna.

Álitsgerðin skiptist í þrjá þætti:

1. Hvort ég hafi veitt Alþingi rangar upplýsingar.

2. Hvort mér hafi borið skylda til að upplýsa Alþingi um tilvist skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Lindar, dags. 29. mars 1996.

3. Hvort mér hafi borið að hlutast til um rannsókn á málefnum Lindar hf. eftir að hafa fengið bréf bankaráðs Landsbanka Íslands 19. apríl 1996.

Rétt er að rekja þessi atriði stuttlega með hliðsjón af efni álitsgerðarinnar og niðurstöðum. Eins og áður sagði er fyrst tekið fyrir hvort ég hafi veitt Alþingi rangar upplýsingar.

Í álitsgerðinni eru rakin ummæli mín þegar ég svaraði fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur hinn 3. júní 1996. Þá er vikið að þeim upplýsingum sem mér voru kunnar og lágu fyrir í skýrslu Ríkisendurskoðunar og bréfi bankaráðs til mín. Þar kemur fram að ábyrgðaryfirlýsingar Landsbankans vegna Lindar nemi 400 millj. kr. en jafnframt að ljóst sé að um enn hærri fjárhæðir sé að ræða. Þá segir í álitsgerðinni, með leyfi forseta:

,,Hér ber að ítreka að um var að ræða óundirbúið svar ráðherra um tap banka af rekstri tiltekins fyrirtækis. Telja verður óábyrgt að fjallað sé um slík málefni opinberlega meðan ekki liggja fyrir nákvæmari upplýsingar en að framan greinir. Þó má benda á að í svari ráðherra kom fram, að honum var kunnugt um fjölmiðlaumræðu um meint tap Landsbankans vegna Lindar hf., en hann treysti sér ekki til þess að fullyrða að upplýsingar sem þar komu fram væru réttar. Með vísan til framanritaðs teljum við að svar ráðherra við fyrirspurn um tap Landsbankans vegna Lindar hf. hafi ekki verið rangt.``

Rétt er að taka fram að þingmaðurinn átti þann kost að beina til mín skriflegri fyrirspurn um málið og þannig leita eftir því að ég aflaði gleggri upplýsinga. Þá hafði þingmaðurinn kost á að hlutast til um að forsetar Alþingis krefðu ríkisendurskoðanda um skýrslu um málið. Fyrirspyrjandinn valdi hins vegar þann kost að bera fram óundirbúna fyrirspurn og láta þar við sitja þar til tæpum tveimur árum síðar.

Við þetta er því að bæta að í þeirri umræðu sem fram hafði farið á árunum 1995--1996 um málefni Lindar voru tölur um tap Lindar hf. mjög á reiki. Nefndar voru tölur frá 400 millj. allt upp í 1 milljarð kr. Það hefði verið óábyrgt af mér sem ráðherra að staðfesta tölur við þessar aðstæður.

Önnur spurning, sem álitsgerðin fjallar um, er hvort mér hafi borið skylda til að upplýsa Alþingi um tilvist skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Lindar hf. sem ég hafði undir höndum. Lögmennirnir rekja í álitsgerð sinni meginefni og ályktanir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þeir segja, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess sem að framan greinir liggur fyrir að skýrsla ríkisendurskoðanda fól í sér hugleiðingar um mögulega ábyrgð ýmissa einstaklinga vegna stjórnunar Lindar hf., en hins vegar var ekki tekin afstaða til þess hvernig með máli skyldi farið. Skýrslan var liður í rannsókn bankaráðsins á því hvort höfða skyldi mál á hendur tilgreindum einstaklingum eða krefjast opinberrar rannsóknar á málefnum Lindar hf., eins og m.a. kemur fram í bréfi bankaráðsins til ráðherra frá 19. apríl 1996. Þar sem um var að ræða ábendingar um hugsanleg refsiverð brot tiltekinna einstaklinga verður að telja að ráðherra hafi verið óheimilt að fjalla um skýrsluna á Alþingi, áður en ákvörðun um framhald málsins hafði verið tekin af þar til bærum aðilum.``

Að síðustu fjallaði álitsgerðin um það hvort mér hefði borið að hlutast til um rannsókn á málefnum Lindar hf. eftir að hafa fengið bréf bankaráðs Landsbanka Íslands 19. apríl 1996. Í álitsgerðinni eru rakin ummæli í bréfi bankaráðs til mín og í svari mínu, dags. 14. júní 1996. Þá segir í álitsgerðinni, með leyfi forseta:

,,Hlutverk viðskiptaráðherra í yfirstjórn ríkisviðskiptabanka er fyrst og fremst almenn stjórnarfarsleg ábyrgð, sem þó takmarkast af því að þingkjörið bankaráð fer með yfirumsjón ríkisviðskiptabanka. Samkvæmt því var viðskiptaráðherra rétt að eftirláta bankaráði Landsbankans ákvörðun um aðgerðir vegna málefna Lindar hf. Því verður ekki séð, að ráðherra hafi borið skylda til þess að taka frumkvæðið af bankaráðinu, eða hlutast sjálfur til um opinbera rannsókn.``

Niðurstöður álitsgerðarinnar eru ótvíræðar samkvæmt framansögðu. Í fyrsta lagi þær að ég hafi ekki farið með ósannindi við Alþingi þegar ég svaraði umræddri fyrirspurn. Í öðru lagi að mér hefði verið óheimilt að upplýsa Alþingi um tilvist skýrslu Ríkisendurskoðunar á þeim tíma sem fyrirspurnin var flutt. Í þriðja lagi að mér hafi verið rétt að eftirláta bankaráði Landsbankans ákvörðun um aðgerðir vegna málefna Lindar hf.

Hér að framan hef ég farið yfir þau mál sem flutningsmenn þáltill. telja að fjalla þurfi um með skipan rannsóknarnefndar. Meginniðurstaðan er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi hefur málefnum Lindar hf. verið beint í tiltekinn farveg þar sem bankaráð Landsbankans hefur beint málinu til ríkissaksóknara.

Í öðru lagi liggur ljóst fyrir að Ríkisendurskoðun hefur haft málefni þau sem leiddu til afsagnar bankastjóranna þriggja í apríl sl. til skoðunar.

Í þriðja lagi hef ég skýrt mál mitt og kynnt sameiginlegt álit tveggja hæstaréttarlögmanna þar sem komist er að niðurstöðu um að samskipti mín við Alþingi hafi verið eðlileg og lögum samkvæmt.

Stjórnvöld hafa þegar dregið lærdóm af rekstrarsögu Landsbankans og Lindar. Þau hafa dregið þá ályktun að breytinga væri þörf. Sameining fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og stofnun hlutafélaga um ríkisviðskiptabankanna gera það að verkum að hinum nýju fyrirtækjum er gert að standa sig á samkeppnismarkaði og fylgja í hvívetna viðskiptalegum sjónarmiðum í rekstri.

Herra forseti. Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að málatilbúnaður flutningsmanna á sér ekki efnisleg rök og skipun rannsóknarnefndar er óeðlileg með öllu. Því get ég ekki fallist á þessa tillögu.