Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 10:42:44 (7572)

1998-06-05 10:42:44# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[10:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Stjórnarflokkarnir kusu að stuðla að því að stjórnarandstaðan hefði fullt forræði um það, á síðustu dögum þingsins, með hvaða hætti Landsbankamálið og mál sem því hafa tengst, yrðu rædd í þingsölum. Þeir hafa nú í morgun stuðlað að því að sú aðferð sem stjórnarandstaðan kaus til umræðunnar næði fram að ganga. Mér þykir það val þó nokkuð sérstakt en því verður stjórnarandstaðan auðvitað að ráða.

Hér er tekinn sá póll í hæð að leggja fram till. til þál. um að skipa rannsóknarnefnd, samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar, til að fjalla um málefni Landsbankans. Þess háttar nefnd hefur ekki verið skipuð af þinginu síðan 1955 þegar slík nefnd var skipuð vegna okurmálsins á þeim tíma. Það er ekki vegna þess að ekki hafi komið upp hugmyndir, kröfur og sjónarmið um að slíkar nefndir yrðu skipaðar að sú leið hefur ekki verið farin síðan. Slíkar hugmyndir hafa vissulega komið fram en menn hafa ekki talið rétt að fara þá leið.

Hvers konar ákvæði er þetta í stjórnarskránni, þessi 39. gr., og hvers vegna er því svo lítið beitt sem dæmin sanna? Þetta ákvæði er gamalt og á rót í sams konar ákvæði í stjórnarskránni frá 1874. Á þeim tíma var það hugsað sem vörn þingsins gagnvart stjórnvöldum í Kaupmannahöfn og ekkert óeðlilegt að þingið hugsi sér einhvern slíkan atbeina meðan valdið er að öðru leyti erlendis.

Síðan er þessu ákvæði haldið inni og það er ekki vafi á því í mínum huga að hugsunin var sú að þingið gæti þar haft leið til þess að rannsaka sjálfstætt og í sameiningu, ekki ágreiningi, mál sem sneru að framkvæmdarvaldinu með einum eða öðrum hætti. Hver er þá skýringin á því að þetta hefur ekki verið notað utan þess sem ég áðan nefndi? Á því eru sjálfsagt margar skýringar.

[10:45]

Ein er sú að öll aðstaða í þjóðfélaginu hefur breyst. Aðkoma þingsins að þáttum framkvæmdarvaldsins hefur breyst. Nú starfar sjálfstæð stofnun ríkisendurskoðanda undir fyrirmælum og stjórnun þingsins. Á fyrri tíð var ríkissaksóknari starfsmaður dómsmrh. og laut fyrirmælum hans um saksókn. Nú er saksóknari algerlega sjálfstæð stofnun sem lýtur ekki og má ekki lúta ákvörðunum framkvæmdarvaldsins.

Í þriðja lagi hefur það gerst að fjórða valdið svokallaða, fjölmiðlarnir, er nú mjög virkt við að upplýsa mál. Þessir þættir hafa leitt til þess að að formi til er tilgangur þessarar greinar stjórnarskrárinnar ekki auðsær í dag þó kannski hafi verið rök fyrir henni fyrr á tímum. Ég er ekki að segja að þessi grein hafi fallið niður sakir notkunarleysis, að sjálfsögðu ekki. En notkunarleysið er hins vegar mjög áberandi.

En það eru líka efnislegar ástæður fyrir því að þessi aðferð hefur ekki verið valin. Efnisástæðan er sú að þegar menn rannsaka mál er það meginforsendan að þeir sem komi að rannsókninni komi að rannsókninni með opnum huga fordómalaust. Það er meginhugsunin gagnvart rannsóknum allra mála, meginhugsunin gagnvart saksóknara og dómstólum landsins. Dómari sem hefði upplýst einhvers staðar að hann hefði fyrir fram ákveðna skoðun á máli sem hann ætti að dæma yrði auðvitað að víkja úr sæti sínu. Við þekkjum það öll þar sem kviðdómar starfa er þeim kviðdómendum rutt ef það kemur minnsta vísbending um að viðkomandi aðili sem á að fara að fjalla um málið og síðar að dæma það hafi myndað sér fyrir fram skoðun á því.

Hvernig skyldi vera með kviðdómendurna í þessum sal gagnvart þessu máli sem þeir ætla að fara að rannsaka? Margir þeirra sem kjósa nú að rannsaka málið hafa þegar kveðið upp dóm, mjög þunga dóma, stóryrta, þunga dóma og svo vilja þeir fara að snúa plötunni við og hefja núna rannsóknina eftir að þeir hafa kveðið upp þunga og harðorða dóma. Það er ekki sannfærandi. Það vekur ekki tiltrú á Alþingi.

Til að mynda hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kveðið upp dóma með slíku orðalagi að ef hv. þm. væri beðinn um að lýsa helstu þjóðarmorðum sögunnar ætti hún engan annan kost en að nota sömu orðin. Það eru engin eftir. Sömu orðin og hún hefur notað um þetta mál sem hún nú vill taka þátt í með stjórnarandstöðunni að rannsaka eftir að dómur hefur verið upp kveðinn. Það mun almenningi ekki þykja trúverðug afstaða að dómendurnir sem hafa þegar kveðið upp dóminn vilja nú setjast í sæti hins hlutlausa rannsóknaraðila. Það vekur ekki tiltrú.

Það eru sérstaklega þrír málsliðir tilnefndir í rökstuðningi við þessa till. til þál. og um það sem rannsaka skuli. Fyrst eru það mál þau er leiddu til afsagnar þriggja bankastjóra Landsbankans í apríl. Þetta liggur allt saman fyrir. Þetta hefur Ríkisendurskoðun skoðað og þetta hafa þingmenn þegar rætt og kveðið upp dóma sína þannig að það er afskaplega skrýtið að fara að athuga þennan lið alveg sérstaklega.

Málefni Lindar eru komin í hlutlausan farveg sem menn verða að treysta.

Þá kemur það þriðja, samskipti viðskrh. við Alþingi eins og segir ,,þar sem ráðherrann ýmist flutti þinginu rangar upplýsingar eða leyndi það upplýsingum.`` Hér er líka búið að kveða upp dóm. Það þarf ekkert mikið að rannsaka það. Hæstv. viðskrh. flutti bara rangar upplýsingar. Svo ætla þeir sennilega að rannsaka hvort hann hafi gert það, eða hvað, eftir að hafa kveðið upp dóm af þessu tagi.

Hæstv. viðskrh. svaraði óundirbúinni fyrirspurn. Menn geta verið sammála um að það svar hafi verið ófullnægjandi eins og gerist oft og iðulega í óundirbúnum fyrirspurnum. Ég gæti nefnt mjög mörg dæmi þess að svör í óundirbúnum fyrirspurnum hafi verið ófullnægjandi vegna þess að að því mátti leiða líkur að það yrði það í óundirbúinni fyrirspurn. En ég hygg að í flestum þeim dæmum sem ég mundi nefna ef ekki öllum hefði það gerst að þar sem svarið var ófullnægjandi eins og það hlaut að vera, þá fylgdi viðkomandi þingmaður eða félagi hans svarinu eftir með formlegri fyrirspurn til að fylgja því fram að þingið mætti fá fullnægjandi svar. Þetta svar ráðherrans var ekki talið þannig að vöxtum að til þess væri nokkur ástæða af hálfu fyrirspyrjenda eða annarra í þessum sal.

Síðan er sérstaklega tekið fram í greinargerð, reyndar ekki punktunum, með leyfi forseta:

,,Athuga þarf sérstaklega þátt forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar þar sem upplýst hefur verið af forsrh. að hann vissi um málið löngu áður en það kom fyrst til umræðu á Alþingi.``

Þennan dularfulla þátt þarf náttúrlega að rannsaka sérstaklega. Það kom reyndar fram í fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hún vissi líka um málið áður en það var rætt á þinginu. Þess vegna spurði hún. Þarf ekki að rannsaka þann dularfulla þátt sérstaklega? Að sjálfsögðu ekki. Hins vegar þyrfti að mínu mati að rannsaka alla þá þingmenn sem höfðu ekki heyrt um málið því það hafði verið í fjölmiðlum. Bankastjóri Landsbankans hafði til að mynda upplýst að stórkostlegt tap, eins og það var orðað, væri af fyrirtækinu Lind, stórkostlegt tap fyrir Landsbankann og samt er gerð krafa til þess að ég viti ekkert um málið, hafi ekkert um það heyrt. Væntanlega vilja menn hafa ólæsan forsrh. Mér sýnist að stjórnarandstaðan að öðru leyti en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hafi ekki kynnst málinu þá geti þeir valið úr hópi félaga sinna ólæst forsætisráðherraefni. Auðvitað hafði maður heyrt um málið. Auðvitað höfðu allir heyrt um málið. Örfáum mánuðum eftir að þessi óundirbúna fyrirspurn kemur fram, sem hefði átt að minna hv. þm. á málið, kemur ítarleg fréttaskýring í Morgunblaðinu um málefni Lindar og augljóst var að Morgunblaðið hafði góðar heimildir í málunum og þarf það svo sem ekki að koma mjög á óvart eftir þessa síðustu daga. Það dugði ekki til þess að vekja þessa hneyksluðu þingmenn stjórnarandstöðunnar til að koma með fyrirspurn en þeir sváfu sem fastast. Þetta er rannsóknarefni út af fyrir sig hvers vegna í ósköpunum þeir sváfu sem fastast, allir þessir hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Í öðru máli sem hér var á sveimi, reyndar af hálfu stjórnarandstöðunnar, var talað um þátt sem þyrfti að rannsaka í hugmyndum þingmanna Alþfl. og þar var um það rætt í neðsta lið að rannsaka þyrfti sérstaklega hvort einhverjir stjórnmálaflokkar hefðu notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu í Landsbankanum.

Þarna er nýr punktur. Ég tel að við ættum að sameinast um þennan punkt sérstaklega og óska eftir því við Ríkisendurskoðun vegna þingsins okkar hér og stjórnmálanna, hlutleysi þess, að sérstaklega verði athugað 10 ár aftur í tímann hvort stjórnmálaflokkar hafi notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu í Landsbankanum, hvort þeir hafi fengið lán án þess að setja veð eða þess háttar sem er reyndar ótrúlegt en ef það er, þá er rétt að vita hvers konar stjórnmálaflokkar það voru. Þetta er nefnt sérstaklega og um þetta ættum við að sameinast.