Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:14:24 (7576)

1998-06-05 11:14:24# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:14]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þetta framlag því að það sýnir að hann skiptir skapi í málinu. Hann telur þetta alvarlegt mál sem er verið að ræða og þó að ég sé ósammála honum, þá tel ég að það sé mikilvægt að hann bregðist þannig við en líti ekki á málið eins og brandara eins og hæstv. forsrh. gerði áðan. Satt að segja var framkoma hans og ræða áðan alveg með ólíkindum, fullkominn dónaskapur og lítilsvirðing við Alþingi að mínu mati. Ég viðurkenni hins vegar eftir þá ræðu eins og hlýt að láta koma fram að hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, er Íslandsmeistari í útúrsnúningum og þann titil má hann eiga fyrir mér og hann varði hann snilldarlega áðan. Í rauninni reyndi hann að setja þetta mál þannig upp að það væri í besta falli í rauninni skemmtiatriði, snerist um það hvort stjórnarandstaðan væri ólæs eða ekki. Hún þyrfti bara að leita að ólæsum forsrh. þegar hún færi að ráða. Það væri sjálfsagt nóg af ólæsu fólki í þeirra hópi og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefði betur sauðast til, með leyfi forseta, að bera fyrirspurnina aftur fram úr því að henni var ekki svarað rétt og þá er það henni að kenna en ekki þeim sem svaraði hver niðurstaðan var. (Gripið fram í.) Þessi dæmalausi útúrsnúningur hæstv. forsrh. landsins, æðsta manns þjóðarinnar, er alveg með ólíkindum í þessu máli en segir það sem segja þarf. Sem er það, herra forseti, og það er alvarlegt íhugunarefni, að stjórnarflokkarnir vilja sópa málinu undir teppi. Þeir vilja ekki að málið sé skoðað. Þess vegna er tillagan frá formönnum þingflokka stjórnarflokkanna, tillaga til rökstuddrar dagskrár um að þingið og þjóðin þegi, tillaga til rökstuddrar dagskrár um að þingið og þjóðin þegi í þessu máli og ekki megi skoða það. Það er veruleikinn og það er slæmt, herra forseti.

[11:15]

Málið er ekki slæmt vegna þess að einhver hér hafi áhuga á því að koma höggi á annan. Það sem fyrir mér vakir í þessu máli er fyrst og fremst að við ræðum í þaula hvernig við getum bætt allar eftirlitsstofnanir þjóðfélagsins. Við hljótum að viðurkenna að þær hafa ekki staðið sig sem skyldi. Hvernig stendur á því að bankastjórarnir höguðu sínum málum eins og menn þekkja? Hvernig stendur á því að bankaráðið stóð sig ekki betur en raun ber vitni? Hvernig stendur á því að bankaeftirlit Seðlabankans er þannig að einn daginn úrskurðar það að Kjartan Gunnarsson megi ekki vera í stjórn VÍS? Þremur dögum seinna snýr það blaðinu við. Hvernig stendur á því?

Af hverju er ekki tekið mark á ábendingum Ríkisendurskoðunar sem eru þó allar þannig að þeir sem sáu skjalið hefðu átt að bregðast við? Af hverju brást hæstv. forsrh. ekki við? Af hverju brást hæstv. viðskrh. ekki við? Af hverju brást bankaráðið ekki við með eindregnari hætti? Af hverju brugðust menn ekki betur við? Þar var sagt að um lögbrot væri að ræða. Hér var um það að ræða að menn hafi í raun og veru verið lánað fjármuni sem þeir áttu jafnvel ekki.

Af hverju brást þetta kerfi ekki við? Hvar eru viðvörunarbjöllurnar sem eiga að vera hjá þessum stofnunum? Við eigum að ræða um það, herra forseti. Út á það gengur þessi tillaga. Hún gengur ekki út á það að þessi nefnd eigi að kveða upp dóm. Hún gengur ekki út á það. Hún felur í sér að nefnd eigi að gefa skýrslu og að við eigum á grundvelli hennar að flytja tillögur um að bæta þær stofnanir þjóðfélagsins sem ekki hafa dugað í þessum málum.

Vandinn er sá, herra forseti, að alltaf þegar kemur að málum af þessu tagi, þá bregðast menn við eins og hæstv. ráðherrar, forustumenn stjórnarflokkanna, hafa gert hér í dag. Menn hlaupa alltaf í vörn fyrir kerfið sitt, fyrir sína félaga og samstarfsmenn í ríkisstjórn og í stjórnarflokkum. Það eru út af fyrir sig mannleg viðbrögð en það verður til þess að málið lokast og það er það sem er hættulegt. Það verður að fara betur ofan í þetta mál. Það er ekki eðlilegt stjórnkerfi sem bregst ekki við þegar það sér að ríkisbanki, eign landsmanna allra, tapar 700 millj. kr. Það er ekki eðlilegt stjórnkerfi.

Þess vegna segi ég, herra forseti, að í þessu máli tel ég það grafalvarlegt ef stjórnarflokkarnir ætla að segja þjóðinni og þinginu að þegja. Þeir munu gera það hér á eftir með því að samþykkja frávísunartillöguna, það er mjög alvarlegt mál. Ég segi jafnframt við þá, líka hinn mikla meistara útúrsnúninganna: Honum mun ekki takast að láta okkur þegja, hvorki þingið né þjóðina.