Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:19:57 (7577)

1998-06-05 11:19:57# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:19]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Virk og ábyrg stjórnarandstaða gegnir mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Hún er ekki síður mikilvæg en valdhafar hverju sinni vegna þess að hlutverk hennar er að veita valdhöfunum aðhald í stóru sem smáu og samfélagið á mikið undir því að stjórnarandstaðan sinni hlutverki sínu vel og samviskusamlega.

Hér á landi er stjórnarandstöðunni vandi á höndum. Hér skorti hefðir fyrir því að tekið sé skörulega á misfellum í athöfnum valdhafa og hér skortir hefð fyrir því að valdhafar axli ábyrgð á gjörðum undirmanna sinna. Þetta er ljóður á okkar ráði. Hér hefjast umsvifalaust ásakanir um persónulegar hvatir og annarlegar ástæður að baki harðri gagnrýni og ábyrgð er vísað út og suður.

Víðast annars staðar í heiminum er brugðist við með öðru móti. Í sumum þjóðfélögum er gagnrýni reyndar bæld niður með vopnavaldi. Í siðmenntuðum þjóðfélögum axla menn ábyrgð á allt annan hátt og þurfum við ekki að leita langt eftir fyrirmyndum í því efni. Þar segja ráðherrar af sér embætti ef starfshættir og embættisfærslur undirmanna þeirra reynast ámælisverðar eða saknæmar, jafnvel í tilvikum þar sem þeir höfðu tæpast möguleika á að fylgjast með athöfnum undirmanna sinna, jafnvel þó sannað þyki að þeir hafi ekki vitað af þeim og treyst viðkomandi í grandaleysi. Samt axla þeir þá ábyrgð sem þeim hafði verið falin og segja af sér. Stundum víkja þeir tímabundið meðan mál eru rannsökuð.

En ekki hér. Hér er ábyrgð vísað út og suður. Ekki ég, ekki benda á mig, segja ráðherrar og vísa á undirmenn sem vísa á aðra undirmenn og svo koll af kolli þar til ræstingakonan fer að velta því fyrir sér hvort hún hafi brugðist.

Hér stökkva menn niður í skotgrafir eða bíta í skjaldarrendur að víkingasið og höggva mann og annan. Hér tíðkast útúrsnúningurinn að svo megi böl bæta að benda á annað verra. Þannig hafa málin gengið til undanfarna mánuði. Hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafa hvað eftir annað orðið að bregðast við harðri gagnrýni á störf sín og undirmanna sinna. Tilefnin eru mörg og margvísleg og misjafnlega skiljanleg almenningi sem veit varla sitt rjúkandi ráð í öllum þessum gerningaveðrum. Hvar sem lyft er loki blasir við iðandi maðkaveita.

Viðbrögð hæstv. ráðherra eru hins vegar hefðbundin. Þeir reigja sig og telja sig yfir gagnrýni hafna. Það virðist ekki hvarfla að hæstv. viðskrh. að segja af sér þótt mál honum tengd séu í rannsókn hjá ríkissaksóknara.

Herra forseti. Íslenskt þjóðfélag verður ekki samt eftir þennan vetur. Valdhafar þurfa að stíga niður úr sínum fílabeinsturni og átta sig á að kröfur um siðferði í stóru sem smáu eru æ háværari í íslensku samfélagi. Hæstv. viðskrh. sæmir ekki að afgreiða málefnalega tillögu stjórnarandstöðunnar með því að hún byggist á misskilningi, en það eru venjubundin viðbrögð hæstv. ráðherra. Þessi tillaga er fullkomlega eðlileg og ábyrg tillaga um að beita ákvæði stjórnarskrárinnar um heimild Alþingis til að skipa sérstaka nefnd alþingismanna til að fjalla ítarlega um þau alvarlegu álitaefni sem hér eru uppi um málefni Landsbankans og tengdra fyrirtækja og ekki síst um samskipti hæstv. viðskrh. við Alþingi.

Hæstv. forsh. segir það ónauðsynlegt vegna þess að við séum búin að kveða upp dóma. Mér heyrast nú ekki hæstv. ráðherrar alls kostar sáttir við þá dóma. Þeir ættu því að fagna sameiginlegri athugun. Við erum að leggja til að farið verði í vandaðri og ítarlegri umfjöllun en unnt er að koma við í umræðum sem þessari. Þessi umræða er vissulega blandin misjafnlega rökstuddum fullyrðingum á báða bóga. Það væri Alþingi til sóma að brjóta nú í blað og taka á málinu eins og hér er lagt til, að það fái vandaða umfjöllun í sérstakri nefnd og skýrsla um öll efnisatriði málsins komi fram.

Mig undrar afstaða hæstv. ráðherra og að hv. formenn þingflokka Sjálfstfl. og Framsfl. skuli vilja vísa þessari tillögu frá. Hæstv. viðskrh. telur sig ekki hafa neitt að óttast. Hann ætti að fagna vandaðri umfjöllun af því tagi sem hér er lögð til.

Herra forseti. Mönnum er mikið niðri fyrir í þessu máli. Jörðin skelfur undir fótum okkar bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Hún skalf nánast undir ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan og við ættum kannski að spyrja eins og forðum: Hverju reiddust goðin?

Herra forseti. Goðin í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ættu að hefja hvern dag í Stjórnarráðinu með orðunum ,,Yfir litlu varstu trúr``. Niðurlagið þekkja menn.