Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:51:22 (7585)

1998-06-05 11:51:22# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:51]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ekki er ég viss um að málflutningur stjórnarandstöðunnar við þessa umræðu hafi fengið nokkurn mann til að sannfærast um að nauðsynlegt sé að skipa rannsóknarnefnd í þetta mál.

Ég tók eftir því í máli hv. tveggja þingmanna, þeirra Svavars Gestssonar og Kristínar Halldórsdóttur, að hv. þm. eru í raun og veru að tala um allt önnur mál en verið er að tala um í efnislegri tillögu till. til þál. sem liggur fyrir. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði: ,,Tillagan snýst ekki um það að rannsaka þurfi hluti eins og Landsbankamálið, (SvG: Að dæma sagði ég, dæma.) heldur snýst hún um það að það þurfi að rannsaka einstakar eftirlitsstofnanir ríkisins á þessu sviði.`` (SvG: Líka.) Það er ekkert um það í tillögugreininni sem slíkri. Það hefði þá þurft að vera þar undir.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir segir að þó að ráðherrann hafi ekki brotið neitt af sér verði hann að bera ábyrgð á undirmönnum sínum og þurfi þess vegna að segja af sér. Til þess að ráðherra geti axlað þá ábyrgð verður hann að geta borið ábyrgð á undirmönnum sínum. Sú ábyrgð hlýtur fyrst og fremst að vera til staðar ef það er ráðningarsamband milli ráðherrans og viðkomandi starfsmanns vegna þess að bankastjórar Landsbankans eru ekki ráðnir af viðskrh. Það er mjög mikilvægt þegar menn fara með slíkar fullyrðingar ... (Gripið fram í.) Það er mjög mikilvægt ... (Gripið fram í.) Nei, hv. þm., það eru mjög margir starfsmenn, bæði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, og þeir allir og þeirra stofnana sem undir þessi ráðuneyti heyra sem eru annaðhvort ráðnir eða skipaðir af ráðherra. En þannig á við að bankastjórar ríkisviðskiptabankans Landsbanka Íslands hafa ekki síðan 1991, ef ég man rétt, verið ráðnir af viðskrh. eða skipaðir.

Ég er sannfærður um að þessi umræða hefur ekki styrkt það að skynsamlegt sé að skipa rannsóknarnefnd sem þessa í málinu. Heldur þvert á móti hefur hún staðfest að það væri algjörlega óeðlilegt. Eftir stendur að stjórnarandstaðan þarf að svara nokkrum grundvallarspurningum.

Í fyrsta lagi þarf stjórnarandstaðan að svara því hvort hún treysti Ríkisendurskoðun. (SvG: Hvaða útúrsnúningur er þetta?) Ríkisendurskoðun, sem heyrir undir Alþingi, vegna þess að það er verið með þessari tillögu að taka þau verkefni af Ríkisendurskoðun (LB: Það er í samræmi við stjórnarskrána.) sem henni eru falin með lögum.

Stjórnarandstaðan þarf líka að svara því hvort hún treystir ríkissaksóknara til að fara með Lindarmálið eða ekki. (Gripið fram í.) Ríkissaksóknara hefur verið fengið málið og það er algjörlega óeðlilegt að þingið fari að hafa afskipti af máli sem ríkissaksóknari hefur tekið að sér að rannsaka.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði með óvirðingu til kollega sinna í lögmannastétt. Þau orð dæma ekki þá menn sem tóku þetta verk að sér heldur miklu frekar lögmanninn hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. (Gripið fram í.) Ég veit það að þessir lögmenn starfa ekki þannig að þeir láti panta hjá sér álit. (Gripið fram í.) En það segir miklu meira um hv. þm. ef hann starfar þannig sem lögmaður að hann geti látið panta hjá sér álit. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það er auðvitað framtíðin sem skiptir mestu máli og með hvaða hætti íslenskur fjármagnsmarkaður muni starfa í framtíðnni. Þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir umtalsverðum breytingum og mestu breytingum sem orðið hafa í langa tíð á íslenskum fjármagnsmarkaði. Með það að meginmarkmiði að tryggja öryggi, að tryggja það að mál eins og þetta, Landsbankamálið og Lindarmálið, geti ekki komið upp aftur. Það hef ég haft sem meginverkefni mitt sem viðskrh. í þau þrjú ár sem ég hef starfað að breyta lögum með góðu samþykki Alþingis á fjármagnsmarkaðnum til að tryggja það að þessi mál geti ekki komið fyrir aftur.

Hér í dag er nú komið til 3. umr. mál af þessum toga, mál sem snýr að því að sameina bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið í sterkt fjármálaeftirlit sem getur mætt síbreytilegum kröfum og síbreytilegum fjármagnsmarkaði. Allt í þeim tilgangi að tryggja öryggið, öryggi þeirra sem þurfa að eiga viðskipti við þessi fyrirtæki sem starfa á markaðnum.