Skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 11:56:57 (7586)

1998-06-05 11:56:57# 122. lþ. 146.7 fundur 723. mál: #A skipun rannsóknarnefndar um málefni Landsbanka Íslands hf.# þál., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[11:56]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þetta er allt of stórt og mikið mál til þess að menn geti leyft sér það að ræða það af slíkri vanstillingu sem hæstv. utanrrh. leyfði sér í dag. Þetta er líka allt of stórt og mikið mál til þess að menn geti leyft sér að ræða það af þeirri hótfyndni sem hæstv. forsrh. gerði í dag. Framkoma hæstv. ráðherra sýnir bara eitt. Þeir vilja drepa málinu á dreif.

Hæstv. forsrh. sagði að kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar væri ekki rétt aðferð. Það, herra forseti, er eina aðferðin sem Alþingi á til. Sú aðferð var staðfest árið 1991, þannig að þetta er ekki einhverra gamalla tíma gerð. Þetta er eina aðferðin sem Alþingi Íslendinga á til þess að bregðast við upplýsingum sem voru kallaðar fram að tilhlutan Alþingis sjálfs og hefur leitt til þess eftirleiks sem allir þekkja, þar sem upplýst hefur verið til viðbótar um mörg hundruð milljón króna tap á fé almennings. Þar sem upplýst hefur verið að ábendingar Ríkisendurskoðunar um opinbera rannsókn voru ekki virtar. Þar sem upplýst hefur verið að þær stofnanir sem settar hafa verið á fót með lögum frá Alþingi til eftirlits með bönkum og lánastofnunum hafa brugðist hlutverki sínu. Þetta er það eina, virðulegi forseti, sem Alþingi getur gert, engar aðrar tillögur hafa komið fram en þær að kefla þetta þjóðþing. Tillaga sú sem formenn þingflokka stjórnarflokkanna hafa lagt fram um að vísa umræðunni frá Alþingi er tillaga um að kefla þjóðþingið í málinu, banna þjóðþinginu frekari athafnir.

Hvers vegna flytja formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar slíkt mál? Það er ekki bara til þess að kefla þingið, koma í veg fyrir að þingið geti brugðist við. Það er líka til þess að koma í veg fyrir að þingmenn stjórnarflokkanna fái að taka efnislega afstöðu til þeirrar tillögu sem liggur fyrir. Þeir eru að koma í veg fyrir það að þingmenn stjórnarflokkanna þurfi að greiða atkvæði með eða móti tillögu um rannsóknarnefnd. Þeir eru að flytja tillögu um að þeim verði bannað að gera það. Það eru viðbrögð forustumanna Sjálfstfl. og Framsfl. í málinu.

Virðulegi forseti. Þjóðþingið verður ekki keflað. Almenningsálitið verður ekki deytt. Fréttir verða ekki stöðvaðar. Þetta alvarlega mál á sér framtíð, það verður tekið aftur upp á Alþingi Íslendinga og ég er sannfærður um að ekki eru öll kurl komin til grafar enn. Það er ýmislegt sem mun koma fram sem gerir það að verkum að þingmenn stjórnarflokkanna munu sjá eftir atkvæði sínu í þeirri atkvæðagreiðslu sem fer fram á eftir.