Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 13:36:00 (7608)

1998-06-05 13:36:00# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[13:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð fyrst að segja að þegar brtt. koma fram við mál, frá nefndum eða formönnum nefnda eða jafnvel þó frá einstökum þingmönnum sé, milli 2. og 3. umr. þá kann ég því heldur illa að ekki sé mælt fyrir þeim tillögum og grein gerð fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til á afgreiðslu mála milli umræðna. Ég tel að menn séu farnir að flýta sér fullmikið ef það gerist trekk í trekk að umræðum sé slitið og þar með lokað fyrir frekari efnislega umfjöllun um málin áður en að lokaafgreiðslu þeirra kemur á þingi.

(Forseti (GÁ): Forseti vill taka fram, vegna ummæla hv. þm., að hann marghringdi fundinn inn, tók málið síðan fyrir og gaf tóm til þess að hér yrði tekið til máls. Forseti hafði ekki hugmynd um það sem þingmaðurinn er að lýsa.)

Ég tel eðlilegt, herra forseti, en ég tek það fram að ég er ekkert að ásaka forseta sérstaklega í þessu tilviki, að það væri góð venja að kanna hvort flutningsmenn brtt. vilji mæla fyrir þeim eða hvort þeir hyggist sleppa því, áður en málin eru tekin fyrir til 3. og síðustu umr. Þeirri umræðu yrði síðan slitið ef enginn væri tiltækur í salnum til þess að mæla fyrir brtt. Þegar mikill hraði er á afgreiðslu mála, þá veitir ekki af því að reynt sé að skýra það eins og kostur er, m.a. með jafnsjálfsögðum hlut og þeim að gera a.m.k. stuttlega grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til milli umræðna. En ekki fleiri orð um þetta, herra forseti.

Ég ætla að mæla fyrir þeirri brtt. sem ég legg til við frv. til laga um eftirlit með fjármálastarfsemi. Ég boðaði hana reyndar að nokkru leyti í ræðu minni við 2. umr. málsins. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forseta hvort komið sé stöðuskjal, eftir 2. umr. málsins, um málið sem nú er á dagskrá. Er búið að prenta það? Það var gerð breyting í gær á þeirri grein sem ég er að leggja til breytingu við, á nýjan leik, þ.e. 3. gr. frv.

Þannig er, herra forseti, að ég hafði tvíþættan fyrirvara á um þetta mál. Ég lýsti honum í gær. Hann laut annars vegar að stjórnsýslu hins nýja fjármálaeftirlits, stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar og hins vegar að samskiptum Fjármálaeftirlitsins við Seðlabankann. Ég er mjög ósáttur, herra forseti, við þann frágang á stjórnsýslulegri stöðu þessarar stofnunar sem nú á að afgreiða í stjfrv. Ég held að menn búi hér til aðstæður sem ekki eigi að gera með því að setja undir einn og sama hæstv. ráðherra jafnfjölþætt, í raun og veru andstæð, hlutverk og hér stendur til.

Sá ráðherra sem hér er átt við er hæstv. viðskrh. Hvaða hlutverk fer hæstv. viðskrh. með í þessu sambandi? Hæstv. viðskrh. er yfirmaður viðskipta- og bankamála. Hæstv. viðskrh. ber ábyrgð á framkvæmd löggjafar á þessu sviði og gegnir mjög víðtæku hlutverki að því leyti til. Þar er þó ekki allt upp talið, herra forseti. Þannig háttar til að á Íslandi er hæstv. viðskrh. einnig yfirmaður Seðlabankans. Það er alls ekki tilfellið í mörgum nálægum ríkjum. Það er m.a. til þess að undirstrika sjálfstæða stöðu seðlabankanna. Þeim skipað annars staðar en í því ráðuneyti sem fer með bankamál og viðskiptamál. Á þessu er að vísu allur gangur en þetta er þó víða þannig.

Í þriðja lagi er hæstv. viðskrh. í raun og veru \mbox{,,eigandi``} ríkisbankanna, tveggja stærstu viðskiptabanka í landinu. (Gripið fram í: Eigum við ekki að selja þá?) Hann fer með eignarhaldið fyrir hönd ríkisins og tilnefnir, án íhlutunarréttar annarra, stjórnir eða öllu heldur bankaráð þessara banka. Hér er hins vegar, í viðbót við allt þetta, herra forseti, lagt til að Fjármálaeftirlitið, sem áður var innan Seðlabankans að hluta til í formi bankaeftirlits og hafði þó þá vörn sem því var í sjálfstæðri stöðu Seðlabankans og þingkjörnu bankaráði Seðlabankans, færist beint undir viðskrh. og hann skipi stjórn þess. Hvað er þá að gerast, herra forseti, í stjórnsýslulegu samhengi þessa máls? Þar með eru undirmenn hæstv. viðskrh., jafnsettir undirmenn annars vegar í bankakerfinu, í ráðuneytinu eða í Fjármálaeftirlitinu farnir að hafa eftirlit hver með öðrum, menn sem hæstv. ráðherra sjálfur velur án tilnefninga. Það sem auðvitað er alvarlegast er að þær aðstæður geta iðulega komið upp að Fjármálaeftirlitið ætti, starfa sinna vegna, að hafa eftirlit með ráðherra sjálfum vegna þess að ráðherrann er stjórnskipulega ábyrgur fyrir framkvæmd bankamálalöggjafarinnar.

Þess vegna held ég, herra forseti, að það sé í öllu falli algerlega ótækt að ganga frá ákvæðum um stjórn hins nýja Fjármálaeftirlits eins og hér á að gera í frv. Ég margtók þetta mál upp í efh.- og viðskn. og reyndi að fá á því einhvern skilning og einhverja skoðun. Mér virtist nauðsynlegt að fara rækilega yfir það hvort ekki væri hægt að skipa þessum málum öðruvísi. Hér er að skapast hætta á hagsmunaárekstrum, á annarlegri stöðu trúnaðarmanna á þessu sviði og verið að setja viðskrh. í aðstæður sem koma til með að verða vandamál.

Við skulum taka dæmi af þeim hlutum sem hafa verið að gerast í bankaheiminum alveg nýlega. Halda menn t.d. að það hefði verið gott ef Ríkisendurskoðun hefði heyrt undir viðskrh.? Nóg er nú samt. Í raun og veru er verið að búa til aðstæður sem eru sambærilegar við það að viðskrh. hefði skipað stjórn Ríkisendurskoðunar og sett henni starfsreglur. Ríkisendurskoðandi hefði heyrt undir viðskrh. Halda menn að það hefði verið heppilegt? Af hverju eru menn að skapa þessar aðstæður?

Herra forseti. Úr því að það hefur ekki fengið neinar undirtektir, frekar en yfirleitt flest annað sem er lagt til í þessum efnum af hálfu ríkisstjórnarflokkanna sem velja þá leið að keyra mál sín í gegn án þess að hlusta á önnur sjónarmið, hvort sem er á þingi eða úti í þjóðfélaginu, þá mun ég flytja brtt. Ég ætla þá að leyfa meiri hlutanum að hafa heiðurinn af því að fella þær ef þeim þóknast, t.d. hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, sem ég veit að mun ekki verða flökurt af því miðað við ýmislegt sem hann hefur látið sig hafa um dagana.

Ég ætla þá líka að hafa það á hreinu, og það skal vera inni í þingtíðindunum, að ef þær aðstæður koma upp á næstu missirum, sem vel getur gerst, samanber margt sem hefur verið að koma upp úr pokanum á undanförnum mánuðum í fjármálaheiminum, að hið nýja Fjármálaeftirlit þyrfti að setja í gang rannsókn þar sem fjallað yrði um ábyrgð, annaðhvort undirmanna hæstv. viðskrh. í bankakerfinu eða ábyrgð hæstv. ráðherra sjálfs, þá skulu menn ekki segja að ekki hafi verið varað við þeim aðstæðum.

Það er, herra forseti, eins og menn hafi lítið lært. Það er eins og að þrátt fyrir allt hafi íslenska stjórnsýslan þroskast mjög lítið þegar til kastanna kemur, þrátt fyrir þær tilraunir sem uppi hafa verið í þá átt á undanförnum árum. Þessar tilraunir hafa falist m.a. í því að færa Ríkisendurskoðun undir Alþingi og gefa henni sjálfstæðari stöðu, í setningu stjórnsýslulaganna, setningu upplýsingalaganna og fleiri hluta sem vissulega eru af hinu góða. Þegar til kastanna kemur og þegar virkilega reynir á, þá hafa menn ekki þroskast mikið. Það sáum við því miður, herra forseti, í atkvæðagreiðslunni áðan þegar möguleikar Alþingis til þess að fylgja eftir málum, sem Alþingi hefur sjálft upplýst og komið af stað, voru takmarkaðir af meiri hlutanum. Hæstv. forsrh. gerði grín að Landsbankamálinu og Lindarmálinu og tilraunum stjórnarandstöðunnar til þess að upplýsa þau mál.

[13:45]

Hæstv. utanrrh. hafði það eitt til málanna að leggja að flytja mikinn reiðilestur sem enginn fékk neinn botn í hverju átti að standa fyrir. Og þegar meiri hlutinn síðan, með atkvæðum sínum hér, felldi tillögu um áframhaldandi rannsókn þessa máls veltir maður því auðvitað fyrir sér, herra forseti, hvort menn hafi lært mikið. Ég velti því fyrir mér í sambandi við þetta mál, herra forseti, hversu mikið menn hafi í raun og veru þroskast þegar til kastanna kemur. Verið er að búa til fyrirkomulag í stjórnsýslunni sem er svo bersýnilega óheppilegt, svo ég segi ekki óheilbrigt, að ekki þarf frekari rökstuðnings við.

Herra forseti. Sem lágmarksbreytingar að þessu leyti legg ég því til á þskj. 1539 að breyting verði gerð á 3. gr. Eins og hún er nú úr garði gerð, er kveðið eftirfarandi á um þetta:

,,Með eftirlit samkvæmt lögum þessum fer sérstök stofnun er nefnist Fjármálaeftirlitið.``

Svo kemur í framhaldinu samkvæmt breytingu sem var afgreidd hér í gær:

,,Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun og lýtur sérstakri stjórn. Stofnunin heyrir undir viðskrh.``

Hér er Fjármálaeftirlitið sett undir viðskrh. með algjörlega venjulegum hætti án þess að nokkur sérstök skilgreining sé á því í frumvarpstextanum að hvaða leyti Fjármálaeftirlitið skuli þá hafa sjálfstæða stöðu. Þvert á móti er það ekki gert. Í raun og veru er ekki hægt að lesa þennan texta öðruvísi en þannig að Fjármálaeftirlitið eigi að vera venjuleg ríkisstofnun undir viðskrh. að öllu leyti. Það þýðir þá að ráðherrann er að sjálfsögðu stjórnsýslulega ábyrgur fyrir öllu sem þar gerist en á hina hliðina hefur þá ráðherrann í raun og veru boðvald yfir stofnuninni. Ég legg til, herra forseti, að 2. málsl. 3. gr. orðist þannig:

,,Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð ríkisstofnun á málasviði viðskiptaráðherra en lýtur sérstakri stjórn.``

Hvað þýðir þetta, herra forseti? Þetta þýðir að Fjármálaeftirlitið er ekki venjuleg ríkisstofnun sem heyrir beint undir viðskrh. heldur er hún með sérstöku orðalagi færð undir málasvið ráðherrans en ítrekað er að hún lúti sérstakri stjórn og að stofnunin sé sjálfstæð. Sem þýðir að sjálfsögðu að ráðherrann á ekki að hafa boðvald eða geta hlutast til um einstaka hluti þar innan stofnunarinnar þó að hún starfi á viðkomandi málasviði, starfi í skjóli viðskrn. ef svo má að orði komast.

Í fyrri mgr. 4. gr., eins og hún er nú samkvæmt frv., herra forseti, er fjallað þannig um þetta:

,,Með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður eftir tilnefningu frá Seðlabanka Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna.``

Þetta er allt innan fjölskyldunnar. (Gripið fram í: Eða flokksins.) Eða flokksins. Ráðherrann skal skipa tvo af þremur án tilnefningar, tvo af þremur varamönnum án tilnefningar með hefðbundnum hætti eins og um venjulega ríkisstofnun, sem undir hann heyri, sé að ræða. Seðlabankinn fær að vísu náðarsamlegast að tilnefna einn mann og annan til vara en hvað er Seðlabankinn í þessu samhengi? Jú, hann heyrir undir viðskrh. Allir vita að þetta var dúsa sem var stungið í munn Seðlabankans sem pínulítilli sárabót fyrir að bankaeftirlitið var tekið af honum. Það veit það allur bærinn.

Herra forseti. Þannig er þetta, þetta er innan fjölskyldunnar ef ekki flokksins.

Ég legg til sem lágmarksbreytingu að Alþingi kjósi stjórnina. Og að fyrri mgr. 4. gr. orðist svo:

,,Með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fer þriggja manna stjórn og jafnmargir til vara sem Alþingi kýs til fjögurra ára í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.``

Með þessu væri komið í veg fyrir að undirmenn viðskrh., sem hann skipar án tilnefninga í stjórn, réðu forstöðumann Fjármálaeftirlitsins. Þannig er frv. úr garði gert. Að trúnaðarmenn ráðherrans eiga að ráða æðsta starfsmann eftirlitsins. Það liggur þar af leiðandi í hlutarins eðli að sá starfsmaður er þegar af þeim ástæðum þannig venslaður ráðherranum sem ég tel ekki við hæfi í þessu sambandi. Það að Alþingi kjósi stjórnina, að stjórnin skipti sjálf með sér verkum þannig að ráðaherrann sé ekki að ákveða hver sé þar formaður, og að í 3. gr. sé tekið fram að um sjálfstæða ríkisstofnun sé að ræða sem heyri ekki undir ráðherrann með venjubundnum hætti heldur starfi í skjóli ráðuneytisins í krafti sjálfstæðrar stöðu er að mínu mati til muna skárri frágangur á málinu.

Hins vegar má vissulega deila um það og halda því fram að með því væri of skammt gengið. Ég tel koma fyllilega til greina að þessi starfsemi, eins og Ríkisendurskoðun, eins og umboðsmaður Alþingis, væri frekar færð til Alþingis og starfaði í skjóli þess. Fyrst og fremst á þetta eftirlit og verður að vera sjálfstætt. Það verður að tryggja að aldrei geti annarleg tengsl eða hagsmunir komið í veg fyrir að mikilvæg eftirlitsstarfsemi af þessu tagi fari fram og sé á sjálfstæðum, faglegum grunni.

Þrátt fyrir að ýmislegt megi vissulega segja um framgöngu Ríkisendurskoðunar á undanförnum árum er enginn vafi á því að sú aðgerð að færa Ríkisendurskoðun undir Alþingi styrkti þá stofnun og hefur gert henni betur kleift að stunda óháða og sjálfstæða starfsemi á sínu sviði. Ég minni t.d. á í því sambandi greinargerðir Ríkisendurskoðunar frá umliðnum missirum þar sem fjmrn. hefur verið gagnrýnt. Þar sem fjmrn. hefur og t.d. á köflum, eins og í ÞÞÞ-málinu, verið harkalega gagnrýnt. Muna menn eftir slíkri gagnrýni frá Ríkisendurskoðun frá þeim tíma að hún var deild í fjmrn.? Man einhver eftir því hér inni? Getur hæstv. fjmrh. kannski upplýst okkur um hvort það hafi farið mikið fyrir því að Ríkisendurskoðun brúkaði kjaft varðandi stjórnsýslu fjmrn. meðan hún var deild þar, skúffa í því ráðuneyti? Nei, ætli það?

Ætli það sé ekki þannig að einmitt hin sjálfstæða og sterka staða Ríkisendurskoðunar, sem búin var til með því að færa hana undir Alþingi, sé forsenda þess að Ríkisendurskoðun hefur í vaxandi mæli á umliðnum árum farið að sinna eftirlitshlutverki sínu líka með ráðuneytunum og leyft sér að hafa álit á stjórnsýslu þeirra?

Ég óttast að staða hins nýja Fjármálaeftirlits verði mjög veik þegar kemur að því að fjalla um undirmenn hæstv. viðskrh. eða hann sjálfan en það á að vera samkvæmt hlutverki þessarar stofnunar eitt af aðalviðfangsefnum Fjármálaeftirlitsins á komandi árum. Það liggur algjörlega í hlutarins eðli að það verður eitt af aðalhlutverkum Fjármálaeftirlitsins, sem tekur við öllu bankaeftirliti í landinu, að sinna skyldum sínum á því sviði.

Herra forseti. Í raun og veru hefur ekki heyrst múkk í umræðum um þennan þátt málsins, hvorki frá hæstv. viðskrh., hv. formanni efh.- og viðskn. Vilhjálmi Egilssyni (VE: Það stendur til bóta.) --- það stendur kannski til bóta --- né heldur t.d. frá hæstv. fjmrh. Ég sakna þess að menn skuli ekki hafa fengist til að ræða þennan þátt málsins því að hér er stórt mál og mikið alvörumál á ferð. Það kæmi mér á óvart ef menn væru a.m.k. ekki pínulítið haltir í því að rökstyðja það af miklum þrótti að þetta væri góður frágangur á málinu. Að vísu verður fróðlegt að heyra í hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, sem eins og kunnugt er hefur ekki verið í vandræðum með að rökstyðja það stundum að menn séu í margvíslegum hlutverkum í einum og sama manninum. Minnir hann mann stundum á: Löngum var ég læknir minn, lögfræðingur, prestur --- og allt þar til viðbótar. Nú, það getur vel verið að á máli hv. þm. sé hagræðing að hafa þetta allt í einni skúffu, hafa þetta bara allt undir einum og sama manninum og láta viðskrh. ráða þessu öllu einan. Örugglega gæti það fallið ágætlega saman við hugmyndir hæstv. forsrh., sem eru eins og kunnugt er, fyrst og fremst þær um þessar mundir að hann eigi að ráða. Aldrei hefur það gerst eins oft á einu vori svo ég muni að einn og sami maðurinn hafi jafnoft opinberað þann hugsunarhátt sinn að allt annað en hann einn ráði sé óhæfa. Þannig hefur það komið fram ítrekað og trekk í trekk hjá hæstv. forsrh. að hann eigi að ráða yfir Alþingi, hann eigi að ráða yfir ríkisstjórninni og hann á auðvitað að ráða úrslitum í kosningum, því að það fer ákaflega í taugarnar á hæstv. forsrh. ef hann ræður ekki úrslitum í kosningum, t.d. í sínum hreppi. Öll þjóðin varð vitni að því hversu dásamlega trompaður hæstv. forsrh. varð þegar úrslitin í Reykjavíkurhreppi urðu ekki eins og honum þótti við hæfi.

Herra forseti. Það er að vonum að maður spyrji sig að því stundum hversu mikið hafi þrátt fyrir allt breyst í hinu íslenska stjórnkerfi og í hinni íslensku stjórnsýslu þegar valdboðshugsunarhátturinn ríður húsum með þeim hætti sem hér gerist ítrekað og endurtekið og trekk í trekk. Það er eiginlega dapurlegt, herra forseti, að ekki skuli fást t.d. á Alþingi í umræðum um stórmál af þessu tagi upp meiri grundvallarumræða eða öllu heldur umræða um grundvallaratriði mála af þessu tagi, eins og þetta hér, hvernig eðlilegt sé að koma fyrir í stjórnskipulegu tilliti starfsemi af þessu tagi og hvar færi best á því að hún yrði vistuð.

Ég ætla með tilliti til aðstæðna, herra forseti, og í ljósi þess að hér er upp runninn væntanlega síðasti sólarhringur þinghaldsins nema ef vera skyldi næstsíðasti, ekki hafa orð mín fleiri og vona að mér hafi tekist að rökstyðja sæmilega að þörf er á því að gera þær breytingar sem ég er að leggja til.