Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 13:58:10 (7609)

1998-06-05 13:58:10# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[13:58]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hugmyndir hv. þm. voru ræddar allítarlega í efh.- og viðskn. og fyrir þeim var ekki stuðningur. Ástæðan er einfaldlega sú að það má nánast segja að hv. þm. sé að setja á hvolf allar venjulegar leiðir í uppbyggingu á íslensku stjórnkerfi. Það hefur verið eitt af grundvallaratriðum í stjórnkerfi okkar að einstök ráðuneyti bæru ábyrgð á eftirlitsstofnunum á sínu sviði og þau heyrðu undir það. Vandamálið sem hv. þm. kemur inn á er að að hluta til getur viðkomandi fagráðherra verið bæði fjárgæslumaður ríkissjóðs varðandi einstök fyrirtæki sem undir hann heyra líka og á sama tíma með reglugerðarsetningarvald og yfirmaður eftirlitsstofnunar á sviði hans. Þetta vandamál er að sumu leyti að verða minna eftir því sem einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum fleygir fram og það hefði í rauninni verið rökréttari tillaga frá hv. þm. að fjárgæsluhlutverkið færðist frá fagráðuneytinu yfir á fjmrn. eða eitthvað slíkt, þ.e. að fjmrn. færi með öll hlutabréf ríkissjóðs í fyrirtækjum, sama hvaða fyrirtæki það væru.

Hins vegar vil ég rifja upp að hv. þm. var eitt sinn hæstv. samgrh. og var hann þá í því hlutverki með Póst og síma að vera ekki einungis fjárgæslumaður ríkissjóðs varðandi þann fyrirtækjarekstur heldur stundaði Póstur og sími líka ákveðið stjórnsýsluhlutverk og var eftirlitsstofnun í leiðinni, allt þrennt í einu. Hv. þm. vann í hlutverki samgrh. með mér og öðrum að því að færa fjarskiptaeftirlitið út úr Pósti og síma, sem var mjög gott, en það heyrði engu að síður áfram undir hann sem samgrh. Hann skynjaði það vandamál þá en gekk hins vegar ekki alla leið að færa fjarskiptaeftirlitið undir einhvern annan ráðherra en sjálfan sig. Ég held að þessi mál þau fari í einhvern eðlilegan farveg sem verður þá fyrst og fremst í þá átt að fjárgæsluhlutverkið fari úr fagráðuneytunum, annaðhvort með einkavæðingu eða þá með því að hlutabréf færist undir fjmrh.