Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:00:56 (7610)

1998-06-05 14:00:56# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hafi ekki lesið brtt. nógu vel því hv. þm. talar um að færa hlutina undir annað ráðuneyti. Ég er ekki að leggja það til. Það sem brtt. fela í sér, sem lágmarksbreytingu af minni hálfu, er að skapa Fjármálaeftirlitinu sjálfstæðari stöðu þó að það starfi áfram í skjóli viðskrn. Það ætti að hafa þingkjörna stjórn og væri tekið fram í lögunum að það hefði mjög sjálfstæða stöðu. Það á ekki að heyra beint undir ráðherrann eins og frv. gerir ráð fyrir. Það er auðvitað verulegur munur á því hvort málin eru sett þannig upp að um venjubundna ríkisstofnun, sem heyri undir ráðherrann án nokkurrar frekari skilgreiningar, sé að ræða eða hvort um er að ræða sjálfstæði af þeim toga sem ég er hér að reyna að leggja til, með sjálfstæðri þingkjörinni stjórn sem ræður starfsmennina en ekki stjórn sem hæstv. ráðherra skipar.

Ég þakka hv. þm. fyrir að rifja það upp að einmitt í minni tíð var unnið að margvíslegum stjórnsýsluumbótum af þessu tagi, hjá Pósti og síma, og í Flugmálastjórn, það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Enda var mér þá ljóst og er jafnvel enn betur ljóst núna, að margt í stjórnsýslu okkar, sem við höfum erft frá fyrri árum og áratugum, við sem komið höfum að þessum málum á síðustu árum, er mjög frumstætt að þessu leyti. Það er löngu tímabært að gera þarna miklar úrbætur.

Þeim mun dapurlegra er að sjá góða drengi eins og hv. þm. Vilhjálm Egilsson koma upp og rembast við að verja forneskju af því tagi sem hér á að festa í sessi með stjórnskipulegri stöðu nýrrar stofnunar, nýrrar og mjög mikilvægrar stofnunar sem á að hafa eftirlit og víðtækt vald í málefnum allrar bankastarfsemi, verðbréfaviðskipta og trygginga í landinu, þar sem m.a. er höndlað með sparifé landsmanna. Að bera þetta saman við litlar, faglegar eftirlitsstofnanir á fagsviði einstakra ráðuneyta er barnalegt, hv. þm. Hér er auðvitað um miklu stærri, afdrifaríkari og sérhæfðari mál að ræða en svo að það sé sæmandi málflutningur.

Að lokum tek ég fram að ég er ekki sammála því að leysa þetta mál með því að gefa bankana, eins og ég veit að stjórnarþingmenn blóðlangar til að gera. Ég vil reka hér a.m.k. einn öflugan íslenskan þjóðbanka.