Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:08:09 (7613)

1998-06-05 14:08:09# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi inna hæstv. forseta eftir því hvort hæstv. viðskrh. er í húsinu.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að svo er.)

Þá óska ég eftir því að hann verði kallaður í salinn.

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Ég spyr, herra forseti, lykilspurningar í þessu máli: Hefði þessi stofnun komið í veg fyrir að það gerðist, sem menn þekkja að gerðist í fyrirtækinu Lind hf.? Hefði þessi stofnun komið í veg fyrir það? Hvað í þessum lögum er þannig að Alþingi getur nú, einmitt á þessum degi, sagt við sjálft sig: Já, hér afgreiðum við góða fjármálaeftirlitsstofnun sem hefði komið í veg fyrir að það gerðist sem menn kannast við úr Lindarmálinu? Ég vil líka spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson, baráttumann fyrir málinu, hvað er það, nákvæmlega í þessu frv., sem hefði hindrað það.

Þá ætla ég aðeins að fara yfir þetta mál. Í fyrsta lagi, herra forseti. Hefði þessi stofnun getað komið í veg fyrir það að banki eða bankastjóri hefði veitt fyrirtæki eins og Lind 200 millj. kr. ábyrgð tvisvar sinnum af bankastjóranum einum, án þess að bera það undir bankaráð? (Gripið fram í: Þeir voru þrír.) Ég var nú ekki að tala um það. Ég var að tala um bankastjórana, hvort sem þeir eru einn eða þrír. Hefði það getað gerst að bankastjóri í banka sem er eign þjóðarinnar, hefði getað afhent þessu eina fyrirtæki tvisvar sinnum 200 milljónir af eign þjóðarinnar í ábyrgð fyrir þetta fyrirtæki, sem var að margra mati þá þegar fallítt? Hvað í þessu frv. hefði stoppað svoleiðis vinnubrögð? Það er alveg óhjákvæmilegt að fá það upplýst. Að hvaða leyti er þetta til að bæta það? Að hvaða leyti hefði þetta komið í veg fyrir þessa sóun á fjármunum þjóðarinnar?

Í öðru lagi, herra forseti, hvað í þessu frv. hefði tryggt að bankaeftirlitið hefði getað sett bankanum skorður fyrr heldur en gert var? Hvað í þessu frv. skapar möguleika á að setja bankanum lagalegar skorður fyrr heldur en gerðist, áður en í óefni var komið upp á 707 millj. kr.? Hvað nákvæmlega í frv. er þannig?

Það er alveg óhjákvæmilegt að fá upplýst, herra forseti, frá hæstv. viðskrh.: Treystir hann sér til þess að lýsa því yfir að frv. af þessu tagi, verði það að lögum, geti komið í veg fyrir það sem þarna gerðist eða hefði getað stöðvað málin fyrr en raunin var?

Þessi spurning til hæstv. viðskrh. er sérstaklega mikilvæg nú. Í dag reiddi hann fram lögfræðiálit þar sem reynt er að taka frá honum alla ábyrgð í málinu, lögfræðiálit sem er svoleiðis með ólíkindum. Annað eins hefur ekki sést hér í þessum sal. Þar er reynt að taka alla ábyrgð frá ráðherranum þó að hann hafi séð skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem látið er liggja að því að um sé að ræða stórkostlega vítaverða vanrækslu sem varði jafnvel við lög, jafnvel hegningarlög. Þó að þau mál liggi þannig þá virðist ráðherrann ekki hafa þurft að bregðast við. Þurfti bankaeftirlitið ekki að bregðast við? Þurfti Ríkisendurskoðun ekki að bregðast við? Þurftu bankastjórarnir ekki að bregðast við? Þurfti bankaráðið ekki að bregðast við? Þurfti enginn að bregðast við?

Hvað, hér í þessu skjali, er þannig að tryggt sé að brugðist verði við? Það er aðalatriðið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, herra forseti, að þingið hafi það á tilfinningunni a.m.k. að það sé að samþykkja lög sem hafi það í för með sér að viðvörunarbjöllur klingi í tæka tíð, áður en allt er um seinan í málum. Ég get ekki lesið það út úr þessum texta hér, ég segi það alveg eins og er.

Þegar það bætist svo við, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að rekja hér áðan, að þessi stofnun heyrir undir ráðherrann sem á líka að hafa með ríkisbankana að gera, svo lengi sem þeir eru til, þá sé ég ekki neitt nýtt í þessu frv. umfram það sem þegar er í lögum um bankaeftirlitið. Ímyndum okkur svo, herra forseti, að það ólíklega gerðist að hæstv. viðskrh. réði framsóknarmann sem forstjóra stofnunarinnar. Það er til margt verra en þeir. Sá þyrfti jafnframt að hafa eftirlit með öllum hinum framsóknarmönnunum í kerfinu. Þá væri auðvitað komin mikil hætta á að pólitísk vensl og pólitískir múrar loki af það sem almenningur á að sjá en menn vilja ekki að hann sjái.

Ég tel, herra forseti, að það sé bíræfni, að vera með þetta mál til 3. umr. á þessum degi, miðað við aðstæður. Af því að það er ekkert í þessu máli sem lagar þann vanda sem við vorum að ræða í morgun. Hæstv. forsrh., viðskrh. og fleiri voru að tala um að málið væri í réttum farvegi, þetta Lindarmál, hjá ríkissaksóknara og þess vegna mætti ekki samþykkja tillögu stjórnarandstöðunnar. Veruleikinn er auðvitað sá að Lindarmálið er í farvegi þar en það eru mörg önnur mál, m.a. tengsl, þar á meðal pólitísk tengsl, sem þarf að rekja í tengslum við þessi mál.

Það er óhjákvæmilegt að hæstv. viðskrh. svari því og hæstv. forsrh. gjarnan líka: Hvað í þessu frv. hefði komið í veg fyrir Lindarmálið, í nýju fjármálaeftirlitsstofnuninni sem á að setja á stofn? Hvað er það nákvæmlega? Það á að sameina bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið? Hvað hefði komið í veg fyrir að það sem gerðist? Eru hér viðvörunarbjöllur? Ef einhver getur sýnt mér fram á að svo sé, þá skal ég glaður samþykkja þetta frv. með lófataki ef það væri heimilt samkvæmt þingsköpum. Það er hins vegar ekkert í þessu, því miður. Ég sé það a.m.k. ekki enn þá.

[14:15]

Auðvitað stöndum við á þessum degi, herra forseti, frammi fyrir þessum umræðum öllum í forundran. Hæstv. forsrh. gerir í fyrsta lagi lítið úr því að hann hafi vitað eitthvað um þetta mál með löngum fyrirvara, telur að hver sem var læs hefði átt að geta vitað um málið. En átti hann ekki að leggja málið fyrir ríkisstjórnina? Þó að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald þá hefur hann pólitíska forustu stjórnarinnar. Af hverju var það ekki gert? Af hverju láta menn sér nægja að skrifa bankastjórum Landsbankans bréf til þess að leysa málin? Af hverju var ekki tekið mark á viðvörunum bankaeftirlitsins? Hvað er það í þessu frv. sem gerir Fjármálaeftirlitið sterkara en bankaeftirlitið? Ég spyr.

Það kom fram að bankaeftirlitið taldi að formaður bankaráðs Landsbankans, sem var hér fyrir fáeinum missirum, mætti ekki vera í stjórn VÍS. Segjum að það hafi gerst á mánudegi. Á föstudegi hafði bankaeftirlitið snúið við blaðinu, skipt um skoðun. Hvað í þessu frv. er þannig að því megi treysta að bankaeftirliti framtíðarinnar verði ekki snúið eins og vindhana eftir pöntunum? Hvað er hér sem kemur í veg fyrir það, herra forseti? Hvað í þessu máli kemur í veg fyrir að menn noti sér pólitísk tengsl til þess að loka inni mál með þeim hætti sem við höfum rætt í tengslum við Lindarmálið? Það er ekki neitt. Þess vegna er alveg lífsnauðsynlegt að tillaga eins og sú sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytur verði samþykkt. Það sem í henni stendur er í rauninni saklaust, það er ekki verið að flytja stofnunina frá ráðherranum. Hér er lagt til að við 3. gr. bætist orðin: ,,Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð ríkisstofnun á málasviði viðskiptaráðherra en lýtur sérstakri stjórn.`` Það er í rauninni lágmarkssanngirni að menn komi til móts við stjórnarandstöðuna með því að samþykkja þetta. Til viðbótar leggur svo hv. þm. til eftirfarandi: ,,Með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fer þriggja manna stjórn og jafnmargir til vara sem Alþingi kýs til fjögurra ára í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Viðskrh. skal ákveða þóknun stjórnarmanna.``

Með þessu væri stigið lítið skref til að gera stofnunina sjálfstæðari gagnvart viðskrh. en nú er. Reyndar hefur hæstv. viðskrh. ekki tjáð sig um þessa tillögu. Kannski samþykkir hann hana vegna þess að í rauninni væri það skynsamlegt miðað við allar aðstæður og miðað við þá stöðu sem er uppi í málinu í dag og kannski er það þannig að stjórnarflokkarnir hafi þegar gert upp við sig að samþykkja tillöguna. Mér heyrðist það reyndar ekki á hv. 5. þm. Norðurl. v. En kannski gæti hæstv. viðskrh. hugsað sér að koma til móts við þann anda sem er í tillögunni. Ég vil inna hann eftir því hvort hann er tilbúinn að samþykkja tillöguna eða einhverja svipaða tillögu vegna þess að hann hlýtur að sjá það að ef Alþingi fer að samþykkja þetta mál óbreytt í dag án þessara breytinga vekur það tortryggni. Það er ekki gott fyrir nýja stofnun að leggja af stað með slíkt á bakinu.

Herra forseti. Ég held að alveg nauðsynlegt sé að þetta verði skoðað vegna þess líka að móttökur þær sem stjórnarandstaðan fær þegar hún gerir tillögu um rannsókn á málum eru ekki góðar. Þá er það þannig að sá ágæti maður hæstv. utanrrh. hrópar að a.m.k. Maó og Stalín ætli sér að taka málin í sínar hendur þegar lagt er til að þingmenn stjórnarflokkanna fái meiri hluta í nefnd til að rannsaka og finnst mér það út af fyrir sig merkileg uppgötvun ef hæstv. utanrrh. lítur þannig á að Maó og Stalín séu í þingliði stjórnarflokkanna. (Menntmrh.: Stjórnarflokkanna?) Hæstv. menntmrh. tók allt í einu við sér. Hann var hissa á því að hafa þessa félaga sína Maó og Stalín í meiri hlutanum og það er von að hann kipptist við miðað við fortíð hans í stjórnmálaumræðum. Það er von að hæstv. ráðherra kippist við og sé undrandi. (Menntmrh.: Ég hélt að þeir væru í flokki með hv. þm.) Það er nefnilega það. Hæstv. menntmrh. hefur haldið því fram en hæstv. utanrrh. telur að þeir séu í liði stjórnarflokkanna.

Af hverju fór hæstv. utanrrh. að nefna þessa menn? Það var vegna þess að gerð var tillaga um rannsóknarnefnd. Hverjir ætli hafi gert fyrst og síðast tillögu um rannsóknarnefnd á Alþingi Íslendinga? Síðasta tillagan var frá Páli Péturssyni, hæstv. félmrh. Um hvað var hún? Um ráðningu Hrafns Gunnlaugssonar sem framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins. Hverjir fluttu þá gerræðislegu tillögu? Hverjir voru Maó og Stalín í þeirri grúppu? Það var náttúrlega í fyrsta lagi Páll Pétursson, hæstv. félmrh. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, það var hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, það var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, situr nú á Bessastöðum. Menn kannast við hann, gæti ég ímyndað mér. Einn og einn maður hefur heyrt hann nefndan. Og það var hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þetta voru þau Maó og Stalín sem lögðu til að ráðning á framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins yrði skoðuð á sínum tíma.

En þegar jafnsjálfsagðri tillögu eins og þeirri sem við lögðum fram í morgun er vísað frá með hrópyrðum af því tagi sem hæstv. utanrrh. gerði, veltir maður því náttúrlega fyrir sér hvað stjórnarandstaðan á eiginlega til bragðs að taka í þessari stofnun. Auðvitað verð ég að endurtaka það sem ég sagði í morgun í umræðum um þessa rannsóknarnefndartillögu, mér fannst næstum vænt um að hæstv. utanrrh. skyldi skipta skapi í þessu máli vegna þess að það benti til þess að honum væri ekki alveg sama um málið og hann tæki í rauninni nærri sér þá umræðu sem væri í gangi og mér finnst það manneskjuleg viðbrögð. Mér þótti næstum að segja vænt um að hæstv. ráðherra skyldi bregaðst við með þeim hætti frekar en í þessum meistarafimleikum útúrsnúninganna sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson iðkaði í morgun.

Herra forseti. Ég held þess vegna í ljósi þess hvernig tilraunum okkar til að taka á málum hefur verið tekið og í ljósi aðstæðna sé alveg óhjákvæmilegt að tillaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar komi til atkvæða og verði samþykkt vegna þess að þar er um að ræða algera lágmarkstilraun til þess að þetta Fjármálaeftirlit verði alvörustofnun en ekki bara plat, bitlingur fyrir flokksgæðinga. ,,Forstjóri Fjármálaeftirlitsins er ráðinn af stjórn stofnunarinnar. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Stjórn stofnunarinnar ákveður starfskjör forstjóra. Forstjóri ræður starfsmenn til stofnunarinnar.``

Hverjir eru í stjórninni? Þriggja manna stjórn. Viðskrh. skipar til fjögurra ára í senn: Einn stjórnarmaður eftir tilnefningu frá Seðlabankanum, varamenn skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna. Hann skipar tvo og formann. Hvað gerir stjórnin svo? Hún ræður forstjórann í þessari mikilvægu eftirlitsstofnun sem á að fylgjast með öllu vátryggingar- og bankakerfinu í landinu. Er nokkuð óeðlilegt við það að þingmenn láti sér detta í hug að búa betur um stjórnina en þarna er um að ræða? Þess vegna skora ég á hæstv. viðskrh. að sýna þá sanngirni, yfirsýn og réttsýni að samþykkja þessa tillögu. Þetta er fín tillaga.