Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:24:33 (7614)

1998-06-05 14:24:33# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:24]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvaða trygging væri í frv. fyrir því að aldrei gerðist neitt slíkt eins og hér hefur verið að gerast á fjármagnsmarkaðinum að undanförnu. Auðvitað geta menn aldrei gefið óyggjandi tryggingar í þessu sambandi og það ætla ég ekki að reyna að gera. En þetta frv. gengur út á það að styrkja allt eftirlit með fjármagnsmarkaðnum í landinu. Það lýsir sér best t.d. í 2. gr. frv. þar sem allur fjármagnsmarkaðurinn er nú tekinn undir eina samræmda stjórn og eitt samræmt eftirlit. Það er grundvallaratriði.

Varðandi þá tillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytur þá gengur hún akkúrat þvert á það sem menn hafa í raun og veru verið að reyna að gera á undanförnum árum.

Vandamálið í Landsbanka- og Lindarmálinu er að Alþingi kaus m.a. bankaráð Landsbankans. Viðskrh. hafði ekki beint boðvald þar yfir. Ábyrgðarsambandið var ekki beint á milli viðskrh. og bankaráðsins. Það er það sem er vandamálið í að koma ábyrgðinni á réttan stað og það er það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er að boða með tillögu sinni hér. Þess vegna er sú stjórnsýsla sem sett er upp með þessu frv. eins og ég sá að hv. þm. Svavar Gestsson var að lesa um í fyrsta skipti í ræðustólnum vegna þess að við fyrri umræður sagði hann að viðskrh. mundi ráða einhvern framsóknarmann í starfið. Það er nefnilega alls ekki viðskrh., eins og hv. þm. kom síðar inn á, sem skipar í starfið heldur er það stjórn eftirlitsins sem ræður viðkomandi forstöðumann. (Gripið fram í: Hver skipar hana?) Það er viðskrh. sem skipar hana og ef hv. þm. er vanur því að þeir menn sem skipaðir eru í stjórn af ráðherrum séu viljalaus verkfæri í höndum ráðherranna þá er það bara alls ekki svo. En hv. þm. kannast kannski betur við þá hluti en sá sem hér stendur.