Eftirlit með fjármálastarfsemi

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:38:02 (7621)

1998-06-05 14:38:02# 122. lþ. 146.9 fundur 560. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 87/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:38]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað kom ekki annað til greina úr því sem komið var. Veruleikinn er auðvitað sá að úr því sem komið var var ekkert annað að gera. Hins vegar set ég stórkostlegt spurningarmerki við að það hafi verið rétt af Landsbankanum, það ferli sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Ég set spurningarmerki við hvort það hafi verið rétt af Landsbankanum að setja þann bankastjóra sem settur var sem stjórnarformann Lindar t.d. Ég tel mikið álitaefni hvort þar hafi verið rétt að hlutunum staðið.

Ég tel það mikið umhugsunarefni, í þessu samhengi, út af því máli sem við erum að ræða, að þegar til stóð að ganga endanlega frá því að Landsbankinn eignaðist allt fyrirtækið Lind hf. þá spurði hæstv. viðskrh., Sighvatur Björgvinsson, um það uppi í bankaeftirliti hvort það væri í lagi. Og hver var niðurstaðan? Hjá bankaeftirlitinu var hún sú að það væri í lagi. Þar var bankaeftirlitið í raun og veru eingöngu að fjalla um BIS-reglurnar, um eiginfjárhlutfallsreglurnar og ekkert annað.

Ég tel að þessi staða sýni betur en margt annað hve staða viðskrh. getur verið erfið í málum af þessu tagi. Þess vegna auglýsti ég eftir lagfæringum í þessu frv. En það má auðvitað ekki af því að ,,vi alene ved``, við ráðum, hinn sterki og stóri meiri hluti hér í þessari stofnun, og því aldrei hlustað á tillögur frá stjórnarandstöðunni, sérstaklega ekki ef þær eru af viti.