Gjöld af bifreiðum

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 14:56:40 (7626)

1998-06-05 14:56:40# 122. lþ. 146.15 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[14:56]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Það er þá rétt að mæla fyrir brtt. fyrst hún er komin á dagskrá.

(Forseti: (GÁS): Það er kliður í salnum.)

Hæstv. forseti, kliður hefur aldrei háð þeim þingmanni sem hér stendur þegar hann er að mæla fyrir málum.

Varðandi tillöguna vil ég segja það að brtt. sem meiri hluti efh.- og viðskn. flytur við þetta mál er í fimm liðum. Í fyrsta lið eru brtt. við 2. gr. frv. þar sem fjallað er um uppbyggingu þungaskattskerfisins. Í frv. nefndarinnar var gert ráð fyrir að svokallað fastagjald í þungaskatti yrði 80 þús. en tillagan er um að það gjald hækki í 100 þúsund kr.

Í frv. nefndarinnar var gert ráð fyrir því að kílómetragjald á bíla yfir 14 tonnum lækkaði um 25%. Í brtt. er nú gert ráð fyrir því að kílómetragjaldið lækki um 30%.

Megintilgangur þessarar brtt. er fyrst og fremst sá að koma til móts við þá sem keyra á löngum leiðum og aka mikið. Það afsláttarkerfi sem verið hefur á þungaskatti hefur einmitt verið til þess að létta greiðslubyrði á þessum aðilum.

Við umfjöllun málsins hefur komið í ljós að það er ekki hægt að ná því að allir sitji nákvæmlega við sama borð og áður þegar breytt er um þungaskattskerfi. Þess vegna hefur í frv. verið ákveðið að stíga frekari skref í að lækka vörugjald af bifreiðum. Vörugjald af vöruflutningabifreiðum er nú lækkað úr 15% niður í 7,5% samkvæmt frv. og síðan fellt niður, þ.e. lækkað í núll frá og með 1. jan. árið 2000. Þetta er að sjálfsögðu inni í frv. og eru ekki gerðar tillögur um breytingar á því.

Þá vil ég geta þess að fyrir nokkru var vörugjald af vöruflutningabifreiðum lækkað úr 30% niður í 15%. Lækkunin sem núna er fyrirhuguð, þ.e. fyrst úr 15 niður í 7,5 og síðan niðurfelling frá 1. jan. árið 2000, kemur að sjálfsögðu líka til með að létta á rekstrarkostnaði af vöruflutningabifreiðum og þá lækkar jafnframt rekstrarkostnaður við landflutninga. Á móti hækka bifreiðagjöld en þegar þessar tölur eru allar lagðar saman þá er ótvírætt að fyrir vöruflutningabifreiðar hafa álögur minnkað verulega á þessum tíma.

Hvernig þetta kemur nákvæmlega út þegar upp er staðið fyrir einstaka aðila er ekki gott að segja. Þess vegna er í tillögum nefndarinnar gert ráð fyrir því, í 5. lið, að fjmrh. skuli fyrir 1. des. 1998 skila skýrslu þar sem m.a. verði úttekt á áhrifum breytingarinnar á þungaskatti, vörugjaldi og bifreiðagjaldi samkvæmt lögunum, á rekstrarstöðu landflutninga í samráði við hagsmunaaðila og gerðar tillögur um úrbætur ef ástæða þykir.

Í 2. lið brtt. er gert ráð fyrir því að í tilraunaskyni verði þungaskattur á bifreiðum sem nota innlendan orkugjafa felldur niður. Sú niðurfelling er tímabundin, til 31. des. árið 2000. Þá verður málið væntanlega endurmetið og ákveðið hvernig framhaldið verður.

Í 3. lið brtt. er lagt til að frekari lækkanir verði heimilaðar vegna hópferðabifreiða og sérleyfisbifreiða, 10--17 manna, þannig að gjald af þessum bifreiðum lækki úr 20% niður í 10% við gildistöku laganna en síðan lækki það í 5% frá 1. jan. árið 2000.

[15:00]

Í 4. lið brtt. eru breytingar á gildistökuákvæðum sem eru í takt við það sem að framan greinir en í 5. lið brtt. eru auk þeirra ákvæða, sem ég gat áður um úttekt á áhrifum breytinga á þungaskatti, vörugjaldi og bifreiðagjaldi samkvæmt lögum þessum á rekstrarstöðu landflutninga í samráði við hagsmunaaðila, þá eru ákvæði um að fjmrh. skuli skila fyrir 1. des. 1998 skýrslu þar sem auk þess verði fjallað um möguleika á því að gera fólksbíla sem nota dísilolíu að samkeppnishæfari kosti og í síðasta lagi að kannaðar verði leiðir til þess að einfalda reglur um framkvæmd á gjaldtöku samfara skráningu og afskráningu bifreiða.

Ég legg mikla áherslu á að vel takist til að einfalda þessar reglur um framkvæmd á gjaldtöku samfara skráningu og afskráningu bifreiða vegna þess að verið er að taka upp það hátt fast gjald sem verður nú ekki 80 þús. kr. heldur 100 þús. kr. og þetta gjald kemur illa við þá sem keyra mjög lítið en eru kannski með bílana skráða allt árið. Hins vegar er ákveðin leið til þess að taka bílana af skrá og greiða þá ekki gjaldið. En þær reglur og sú framkvæmd sem er á þessum málum núna er ekki það þjál að þægilegt sé að taka bílana af skrá og setja þá á skrá aftur. Þess vegna þarf að finna leið sem gerir mögulegt að setja bílana með tiltölulega mjög einföldum hætti á skrá og taka þá af skrá án þess að því fylgi allt of mikil fyrirhöfn eða kostnaður fyrir viðkomandi aðila.

Í þessu þarf að vinna núna á næstu mánuðum í framhaldi af þessum lögum og koma ekki seinna en í haust með leiðir eða úrbætur á því hvernig þetta kerfi virkar núna hjá okkur.

Hæstv. forseti. Það er um þetta mál að segja að það er ekki einfalt viðureignar. Ástæðan fyrir því að meiri hluti efh.- og viðskn. hefur lagt til breytingu á þungaskattskerfinu er sú að Samkeppnisstofnun gaf út ákveðið álit á því afsláttarkerfi sem hefur verið í gildi á kerfinu. Ekki hefur verið einfalt mál að finna einhverja nýja uppbyggingu á þungaskattskerfinu þannig að það virkaði sanngjarnt og eðlilega. Þessi niðurstaða er í sjálfu sér engin óskaniðurstaða eins né neins en tilraun til þess að finna eins skynsamlega lendingu í þessu máli og nefndin telur sig geta.