Gjöld af bifreiðum

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 15:04:05 (7627)

1998-06-05 15:04:05# 122. lþ. 146.15 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[15:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er langt frá því að ég geti lýst mikilli gleði með þessa brtt. meiri hlutans frekar en ég get með niðurstöðuna í málinu yfirleitt. Satt best að segja er ákaflega dapurlegt hvernig þetta er að klúðrast saman á endasprettinum og fyrir liggur að yfirlýstur vilji þingmanna nær ekki fram að ganga um að þessar breytingar skuli ekki leiða til íþyngingar fyrir þá aðila sem lengstar hafa akstursleiðirnar og ekki leiða til aukins flutningskostnaðar á vörum út um landið til hinna afskekktari landshluta. Þrátt fyrir viljann og þrátt fyrir enn eina tilraunina sem lítur nú dagsins ljós í brtt. á þskj. 1557 sýna útreikningar að þessi markmið nást því miður ekki. Verulega mikið vantar upp á að breytingarnar komi út á jöfnu fyrir þá flutningsaðila eða akstursaðila sem keyra meira en 70--80 þús. km á ári.

Að vísu kemur á móti að skattbyrðin léttist hlutfallslega miðað við það sem áður var áformað á þeim sem aka minna eða á bilinu kannski frá 20 og upp í þessi 70 þúsund en mér sýnist alveg ljóst að um verulega hækkun frá núgildandi afsláttarkerfi í þungaskatti er að ræða fyrir þá sem aka á lengstu leiðunum. Það er niðurstaðan sem blasir við í reikningsdæminu.

Það er harla dapurlegt, herra forseti, og ekki fáum við háa einkunn fyrir það ef við tökum mark á því að það sé yfirlýstur pólitískur vilji að standa þannig að þessum breytingum að þarna verði ekki um íþyngjandi áhrif að ræða, en menn koma því samt ekki fram. Ég veit ekki hvort það á að kalla það þá tæknilega erfiðleika eða bara skort á hugmyndaflugi til að útfæra þetta öðruvísi eða hvað það er annað. Sennilega má bera við tímaskorti en í öllu falli er ljóst að niðurstaðan er ekki sú sem menn ætluðu sér að stefna að samkvæmt yfirlýsingum.

Ég vil svo líka segja varðandi það að til að auðvelda þeim sem verða fyrir þungum álögum á bíla sem eru lítið notaðir að þann vanda eigi þá að leysa með því að auðvelda mönnum að hlaupa fram og til baka með númerin og skrá og afskrá bílana, að það er nú ekki góð niðurstaða heldur. Staðreyndin er sú að víða háttar þannig til að einmitt þessir aðilar eru að reyta inn einhverjar tekjur vegna tilfallandi verkefna sem dreifast yfir allt árið þannig að ekki er auðvelt að velja neinn einstakan tíma ársins þar sem hægt er að afskrá tækin um langan tíma heldur þurfa þau kannski nánast alltaf að vera tiltæk til þess að unnt sé að grípa tilfallandi verkefni af þeim toga. Þá er ekki gott að þurfa að vera hlaupandi fram og til baka með númerin öllum stundum. Að því leyti til er niðurstaðan ekki heldur góð.

Mér sýnist, herra forseti, sú breyting sem er nú lögð til frá frv. eins og það var lagt fram, þ.e. að hækka fastagjaldið í 100 þús. kr. og auka síðan lækkun á kílómetragjaldinu úr 25% niður í 30% á því bili sem hún tekur til, lini aðeins þrautirnar ef svo má að orði komast. Það dragi úr þeirri miklu hækkun sem hefði ella orðið á lengstu akstursleiðunum en engu að síður er þar um talsverðar tölur að ræða þannig að t.d. aðili sem ekur á milli 130 og 140 þús. km á ári á svona myndarlegri samstæðu getur verið að taka á sig hækkun í kostnaði sem nemur um hálfri milljón kr. Hvert halda menn svo sem að sú hálfa milljón fari annað en beint út í flutningskostnaðinn á viðkomandi leið og út í vöruverðið og lífskjörin í þeim byggðarlögum sem búa við þær aðstæður að vera algjörlega háðar landflutningum um öll aðföng sín?

Að öðru leyti, herra forseti, vísa ég til þess sem ég hef sagt í fyrri umræðum um þetta mál, bæði við 1. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um olíugjald og í 1. umr. um þetta frv. í gær. Ég lýsi vonbrigðum mínum með niðurstöðu málsins og harma að Alþingi skuli ekki hafa tekist betur til í þessum efnum.