Gjöld af bifreiðum

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 15:09:04 (7628)

1998-06-05 15:09:04# 122. lþ. 146.15 fundur 715. mál: #A gjöld af bifreiðum# frv. 83/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[15:09]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. vil ég taka það fram að það var í sjálfu sér ekki efh.- og viðskn. sem af einskærum áhuga sínum tók það upp að eigin frumkvæði að vilja breyta fyrirkomulagi þungaskattsins, heldur stendur nefndin frammi fyrir áliti Samkeppnisstofnunar þess efnis að það fyrirkomulag sem er við lýði í dag stríði gegn anda samkeppnislaga. Efh.- og viðskn. er þarna nokkur vandi á höndum vegna þess að samkeppnislögin eru á ábyrgð efh.- og viðskn. og ef sú nefnd ætlar sér að hunsa álit Samkeppnisstofnunar eða ekkert að gera í þeim efnum að þá veit ég ekki hver í þinginu ætti að sinna þeim álitum eða standa fyrir breytingum á samkeppnislögunum þannig að nefndin komst ekki hjá því að taka á því.

Þetta varð niðurstaðan og samkvæmt þeim útreikningum sem við fengum frá fjmrn., ef tekinn er flutningabíll sem ekið er mjög mikið, þ.e. 120 þús. km þá er hækkunin á slíkum bíl um 200--250 þús. kr. En á móti því þarf að hafa í huga að verið er að fella niður í tveimur áföngum vörugjald af fjárfestingunni. Ef við miðum við 8 millj. kr. fjárfestingu er verið að fella þarna niður 15%, um 1.200 þús., sem eru yfir afskriftartíma bíls mjög verulegar upphæðir, 240 þús. kr. á ári ef bíllinn er afskrifaður á fimm árum sem kemur þá á móti þessari hækkun.

Ég tel nauðsynlegt að fara yfir áhrifin af þessu, hvernig þetta kemur út fyrir landflutningana og þá ekki síst flutninga á lengri leiðum. Það liggur fyrir, held ég, og ég vona að ef menn gefa sér tíma til þess að setjast yfir þetta í samráði við hagsmunaaðila muni menn finna leiðir til þess að ná þeim markmiðum, sem ég held að allir nefndarmenn hafi í sjálfu sér verið sammála í upphafi og ég held að við höfum farið býsna langt með að ná.