Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 15:43:36 (7636)

1998-06-05 15:43:36# 122. lþ. 146.11 fundur 581. mál: #A Seðlabanki Íslands# (bankaeftirlit, EES-reglur o.fl.) frv. 88/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands er tengt því frv. um Fjármálaeftirlit sem var afgreitt áðan. Ég er þeirrar skoðunar að ekki hafi verið vandað nægilega vel til þessarar lagasetningar í heild sinni og ekki sé búið nógu vel um, hvorki stjórnskipulega stöðu þessarar nýju eftirlitsstofnunar né heldur samskipti Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins nýja.

Fyrir liggur að Seðlabankinn hyggst koma á fót á eigin vegum ígildi þess bankaeftirlits sem þar var áður rekið til þess að Seðlabankinn geti eins og menn telja þar á bæ fullnægt skyldum sínum að sínu leyti. Þetta held ég að sé ekki góð niðurstaða. Hér er í vændum tvíverknaður og sóun á fé sem hefði átt að mega komast hjá auk þess sem ég tel að stjórnskipulegur umbúnaður þessara mála sé ekki nægilega vandaður.

Það er fyrst og fremst 11. gr. í þessu frv. sem ég tel að sé ekki nægjanlega góð en vegna þess að ég er ósáttur við frágang þessara mála í heild sinni kýs ég að sitja hjá.