Forseti Íslands setur þingið

Miðvikudaginn 01. október 1997, kl. 14:02:25 (1)

1997-10-01 14:02:25# 122. lþ. 0.2 fundur 2#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur

[14:02]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman miðvikudaginn 1. október 1997.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett, að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 12. september 1997.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman miðvikudaginn 1. október 1997.``

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.

Þingið sem nú hefur störf er næstsíðasta þing þessarar aldar. Við aðra þingsetningu héðan í frá verða aðeins þrír mánuðir til upphafs aldamótaársins. Um heim allan er hugur manna við þau vegamót sem í vændum eru. Ætlunarverk eru sett á vogarskálar og leitast er við að velja markmið sem best þjóna framtíðarheill.

Það er eðli okkar að horfa á merkisdögum, áramótum og afmælum, í senn aftur í tímann og til hins ókomna, og spyrja okkur sjálf sígildrar spurningar úr Íslandsljóði listaskáldsins: ,,Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?``

Þessi spurning hefur verið kynslóðunum töm. En þegar bæði aldamót og nýtt árþúsund eru í augsýn verður þörfin til að leita svara enn brýnni.

Við Íslendingar erum svo lánsamir að eiga minjar og menningu frá þeim tíma þegar mannkynið var síðast í slíkum sporum. Við búum líklega ein örfárra þjóða að þeirri sérstöðu að geta heilsað nýju árþúsundi með hátíðahöldum sem reist eru á atburðum, arfi sagna og trúar, frá þeim tíma þegar nýtt árþúsund gekk síðast í garð.

Árið 2000 munum við minnast kristnitökunnar á Þingvöllum og landafunda Íslendinga í Vesturheimi, viðburða sem voru í senn einstakir á þjóðveldistíma Íslendinga og merkir áfangar í veraldarsögunni. Okkur er vandi á höndum að gera þessi tvíþættu hátíðahöld þannig úr garði að þau endurspegli í senn virðingu fyrir upprunaskeiði þjóðarinnar og sjálfsmynd okkar á nýrri tíð.

Alþingi hefur ætíð verið frumkvöðull þegar þjóðin hefur minnst sögulegra tímamóta. Þjóðhátíðin 1874, þúsund ára afmæli Alþingis á Þingvöllum, lýðveldisstofnunin, ellefu hundruð ára hátíð Íslandsbyggðar og fimmtíu ára afmæli lýðveldisins eru atburðir sem helgaðir voru með sérstökum hátíðafundum og mikilsverðum ákvörðunum Alþingis.

Kristnitakan á Alþingi árið 1000 lagði grunn að trúarlífi og menningu sem mótað hafa íslenska þjóð meira en flest annað. Hér við anddyri þingsalarins hefur um árabil verið skjöldur úr góðmálmi sem geymir frásögn Flateyjarbókar af landafundum Leifs Eiríkssonar, gjöf frá frændfólki okkar í Vesturálfu. Það er við hæfi og í anda þeirrar hefðar sem Alþingi hefur skapað að þingheimur leiði að því hugann þegar á þessu þingi hvað best muni nú þjóna sögu okkar og sóma.

Frændfólk okkar í Bandaríkjunum og Kanada hefur ríka löngun til að eiga hlutdeild í slíkum viðburðum og stjórnvöld vestan hafs eru reiðubúin til viðræðna um sameiginleg verkefni. Þar kemur margt til greina. Nefndar hafa verið hugmyndir um að gera sagnaarf Íslendinga að efnivið í hugbúnaði sem skólar og menntastofnanir víða um veröld geti hagnýtt sér með aðstoð tölvuheims og alnets. Í fornum sögum íslenskum er lýst leitinni að hinu nýja, djarfri sókn um ókunnar slóðir. Landnám Íslands og landafundir lengra í vestur voru afrakstur menningar sem setti könnuðinn í hásæti. Töfraheimur tækninnar færir mannkyn nú ört inn á ókunnar slóðir og á slíkum tímum er þörf fyrir kjölfestu. Fyrirtæki og stofnanir sem starfa við sjónarrönd sýndarveruleikans og hafa veröldina að verksviði hafa séð í arfleifð okkar Íslendinga kjörvið til að smíða úr skilningsfley þar sem öllum er boðið far. Hugmyndaheimur þjóðveldis og könnuða, viljinn til nýs landnáms eins og hann birtist í bókmenntaarfi Íslendinga gæti orðið nýjum kynslóðum leiðarvísir.

Í þessum verkum og öðrum eigum við öfluga liðssveit í frændgarði okkar vestan hafs og austan. Fjöldi fólks af íslenskum uppruna í Norður-Ameríku nemur nú rúmum 150 þúsundum og auk þess eru á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu nokkrir tugir þúsunda sem rekja ættir sínar og uppruna til Íslands.

Allur þessi fjöldi, samtals í kringum 200 þúsund, á hlut í menningu okkar og sögu, varðveitir ljóð og lög, muni og menjar, frásagnir og siðvenjur sem eru sömu ættar og hin menningarlega kjölfesta í þjóðlífi okkar sem hér búum. Ég hef á stundum notað heitið íslenska samfélagið um allt það fólk sem spinnur þræði sinnar sjálfsvitundar úr íslenskri menningu og arfleifð. Við eigum einstaka auðlegð í fjölmennum frændgarði sem með okkur vill vera þótt heimili hans og ríkisfang sé merkt öðrum löndum.

Fyrr á tíð voru vissulega nokkur sárindi vegna landflótta og brottflutnings og oft urðu heitar deilur innan þings og utan um þá atburðarás. au sár hafa nú gróið. Verkefni okkar er að klæða sameiginlega arfleifð allra sem vilja rekja ættir sínar til Íslands í búning sem hæfir áherslum og skilningi á nýrri öld. Heimsóknir á ættarslóðir, þróun safna og menningarsetra, útgáfa bóka og hugbúnaðar, sameiginlegt átak við landgræðslu og gróðurvernd, samvinna skóla og fræðsla sem gefur ungu fólki nýjan skilning eru dæmi um viðfangsefni sem vekja áhuga frændfólks okkar beggja vegna hafsins.

Í umróti breytinga sem með æ meiri hraða gefa heimsmyndinni sífellt nýja ásýnd er fátt mikilvægara en að eiga sér rætur sem liggja djúpt í jarðvegi frjórrar og skapandi menningar. Á undanförnum árum og áratugum hafa stjórnvöld orðið að verja mestri orku í glímunni við knýjandi vandamál verðbólgu og óstöðugleika í efnahagsmálum og atvinnulífi. En nú hefur á tæpum áratug tekist að skapa slíka festu á þeim vettvangi að tími og kraftar gefast til að sinna málefnum sem oft er vikið til hliðar í daglegu amstri en ráða þó mestu um örlög lands og þjóðar þegar horft er til lengri tíma. Í aðdraganda aldamóta og á árdögum nýs árþúsunds gefast þingi og þjóð kærkomin tækifæri til að meta þau gildi sem eflt geta ræktun lands og lýðs á nýrri tíð.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa á undanförnum missirum fært okkur vitneskju um hvar við stöndum í menntun nýrra kynslóða og við varðveislu landgæða og gróðurs. Þau tíðindi voru önnur en við var búist og hafa vissulega breytt dráttum í viðtekinni sjálfsmynd okkar Íslendinga. Nú þurfum við öll að hafa kjark og dug til að horfast í augu við staðreyndir og sameinast um úrbætur.

Menntun þjóðarinnar og gæði landsins eru örlagaþættir í þróun íslensks sjálfstæðis á nýrri öld. Við gerðum vel að helga upphaf hennar umbótum og endurreisn á þessu sviði.

Að lokum vil ég hér, þar sem alþjóð er áheyrandi, færa þakkir fyrir hlýhug og stuðning sem fjölskylda mín hefur fundið að undanförnu. Megi öllum sem glíma við sjúkdóma og erfiðleika veitast sú gæfa að njóta góðvildar og hjálpsemi.

Ég bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt þingsköpum ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn. Ég bið aldursforseta, hv. 4. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, að ganga til forsetastóls.