Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 20:57:39 (16)

1997-10-02 20:57:39# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SighB
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[20:57]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Í ræðu forseta Íslands við setningu Alþingis í gær vakti forseti athygli á því að á sl. áratug hafi okkur Íslendingum tekist að finna lausn á ýmsum vandamálum sem voru viðfangsefni íslenskra stjórnvalda um áratugi. Við unnum bug á verðbólgunni, gerðum krónuna að traustum gjaldmiðli, stöðugleiki í efnahagsmálum kom í stað óvissu og ókyrrðar. Okkur tókst þetta með samstilltu átaki margra, fórnum margra á erfiðum tímum.

Alþingismenn minntust í gær eins þeirra sem drjúgan hlut átti að því máli, Guðmundar J. Guðmundssonar verkalýðsleiðtoga. Hann var málsvari láglaunamannanna sem lögðu sitt lóð á vogarskálina. Hans fólk færði fórnir til þess að ná þeim árangri sem hæstv. forsrh. státar sig nú af. En hver er hlutur fólksins hans Guðmundar J. í góðærinu? Hvernig skipta stjórnendur einnar af sjö ríkustu þjóðum heims, að sögn forsrh., uppskerunni sem fékkst með samstilltu átaki fjöldans?

Bilið fer nú breikkandi á Íslandi milli ríkra og fátækra. Fátæku fólki fjölgar mitt í góðærinu. Hvers vegna? Vegna þess að hagsmunir hinna fáu mega sín meira hjá landstjórninni en hagur fjöldans.

Mitt í öllu góðærinu býr almenningur við kerfi tekjuskatts og tekjutengds bótakerfis sem veldur því að barnafólk með meðaltekjur heldur ekki eftir nema 40 aurum af hverri krónu sem það aflar með aukinni vinnu og eldra fólk og öryrkjar með óverulegar atvinnutekjur búa við enn skertari hlut. Á sama tíma lækka stjórnvöld skatta á eignatekjum og arðgreiðslum til hinna efnuðu. Þannig er almannahag fórnað fyrir sérhagsmuni fárra.

Í heilbrigðismálum er allt í uppnámi. Stórir hópar sérfræðinga segja sig úr lögum við tryggingakerfi landsmanna, með því yfirlýsta markmiði að innleiða hér á landi bandaríska kerfið með einkarekin sjúkrahús og aðgerðastofur fyrir hina ríku. Sérhagsmunirnir skulu ríkja, almannahagur víkja.

[21:00]

Fyrir 30 árum lagði ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. í samvinnu við samtök vinnumarkaðarins grunn að samtryggingakerfi í lífeyrismálum sem í tímans rás er orðið ein öflugasta undirstaða velferðar á Íslandi og litið er á sem fyrirmynd hjá öðrum þjóðum. Nú vendir Sjálfstfl. því kvæði í kross og ætlar með tilstyrk Framsfl. að ryðja um koll undirstöðu lífeyrissjóðakerfisins, samtryggingunni, til þess að færa peningavíxlurum ráðstöfunarréttinn yfir lífeyrissparnaði fjöldans. Sérhagsmunir hinna fáu eru ríkisstjórnarflokkunum meira virði en samtrygging fjöldans.

Stjórnvöld þessarar ríku þjóðar festa með ári hverju í sessi séreign fárra á auðlind fjöldans, fiskimiðunum, þar sem óveiddur fiskurinn í sjónum er bitbein í hjúskaparmálum þeirra sem úthlutað hefur verið ókeypis afnotarétti af sameign okkar allra. Hagsmunir hinna fáu skulu efldir á kostnað fjöldans.

Á borði stjórnarflokkanna liggja svo lagafrumvörp um að ganga enn lengra. Afhenda á stjórnsýslu á öllu hálendi Íslands í hendur fulltrúa 4% landsmanna þannig að þorri þjóðarinnar, 96% Íslendinga, fær ekki aðkomu að málinu. Annað frv. gerir ráð fyrir því að stór hluti virkjunarréttar fallvatna landsins, djúphita í jörðu og náma í iðrum jarðar verði einkaeign fárra landeigenda. Ekki bara fiskimiðum heldur líka öðrum auðlindum landsins á að skipta meðal hinna fáu á kostnað fjöldans. Var það til slíkra verka sem fólkið hans Guðmundar J. Guðmundssonar færði fórnir á erfiðleikaárum í okkar þjóðarbúskap? Vilja menn nýta ávexti uppsveiflunnar svona?

Í næstum því tvo mannsaldra höfum við Íslendingar búið við óbreytt helmingaskiptakerfi auðs og valda þeirra tveggja stjórnmálaflokka sem skipst hafa á um að hafa forustuna við ríkisstjórnarborðið milli þess sem þeir hafa setið þar saman. Þeir eru hvor um sig málsvarar þröngra sérhagsmuna sem þeir meta meira en almannaheill. Ítrekaðar tilraunir til að breyta þessu pólitíska umhverfi á Íslandi hafa ekki borið árangur. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þeir sem hafa viljað verja hag fjöldans hafa ekki staðið saman. Þess vegna hafa þeir ekki geta rofið pólitíska víglínu þessa sérhagsmunagæslukerfis.

Hlutverk okkar, skylda okkar jafnaðarmanna hvar í flokki sem við stöndum, er að skapa nýja tíma með nýrri öld. Aðeins með því að standa sameiginlega að framboði vorið 1999 getum við breytt hinu pólitíska umhverfi, rofið vítahring sérhagsmunagæslunnar og tryggt sjónarmiðum okkar þann styrk sem þau verðskulda. Og hver yrði tilgangur slíks framboðs? Að gæta almannahags í stað sérhagsmuna. Að tryggja að auðlindir þjóðarinnar, fiskurinn í sjónum, orkan í fallvötnunum og jarðhita, hálendi landsins, varðveitist í eigu okkar allra og að fjöldinn njóti afraksturs auðlindanna með því að taka sanngjarnt gjald fyrir afnotaréttinn.

Auðlinda- og mengunarskatta á að nýta til að lækka tekjuskatta þannig að launþegar njóti í stórauknum mæli launatekna sinna sjálfir. Óréttlátt, óskilvirkt og vinnuletjandi skattkerfi er okkur fjötur um fót. Við viljum stokka upp tekjuöflunarkerfi ríkisins með áherslum á skattstofna eins og afgjöld fyrir nýtingu auðlinda og umhverfisskatta sem ekki hafa neikvæð áhrif á vinnuvilja og sparnað eins og núverandi skattkerfi gerir.

Okkar markmið er að styrkja en ekki eyðileggja samtryggingakerfið í lífeyrismálum. Okkar markmið er að byggja upp skilvirkt heilbrigðiskerfi en ekki rífa það niður að bandarískri fyrirmynd. Okkar markmið er að einkavæðing fyrirtækja og stofnana í ríkiseigu verði í þágu almennings en ekki fárra fjármagnseigenda. Okkar markmið er að standa vörð um hagsmuni neytenda en ekki stórfyrirtækja í aukinni samkeppni. Okkar markmið er framsækið og framsýnt skóla-, menntunar- og menningarstarf í stað þeirrar neikvæðni og upplausnar sem nú ríkir. Þessum markmiðum fáum við ekki komið fram nema við stöndum saman.

Hér í þinginu, á vettvangi sveitarstjórna, hvarvetna í þjóðfélaginu, ber okkur að nota hvern dag, hverja stund, hvert tækifæri til að færa okkur nær því markmiði að okkur auðnist að skapa nýtt umhverfi í stjórnmálum þessarar þjóðar með nýrri öld. Nú gefst okkur, herra forseti, tækifæri til að ljúka því verki, með samstilltu átaki hér á þingi, með samstarfi í framboðum til sveitarstjórna á komandi vori, með samstöðu í komandi alþingiskosningum. Það verk þurfum við að vinna. Hagsmunir almennings krefjast þess að það verði gert. --- Góðar stundir.